
Þann 3. desember síðastliðinn var kveðinn upp dómur yfir manni, í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem ákærður var fyrir kynferðisbrot og líkamsárás, nánar tilekið fyrir að hafa greitt konu á gistiheimili í Reykjavík 30 þúsund krónur fyrir vændi og síðan veist að konunni með ofbeldi, slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlitið þannig að hún hlaut áverka af.
Maðurinn játaði sök hvað varðar vændiskaup en neitaði sök um líkamsárás á grundvelli neyðarvarnar. Sinnaðist honum og brotaþola í kjölfar þess að hann fór að gruna að viðkomandi væri í raun karlmaður en ekki kona. Er hann spurði um það hafi manneskjan reiðst, farið inn í eldhús og náð í málmhlut sem ákærði taldi vera hníf. Hafi brotaþoli komið að ákærða og verið ógnandi. Hann hafi orðið hræddur og kýlt brotaþola nokkrum sinnum í andlitið þar til brotaþoli rotaðist.
Brotaþoli gaf ekki skýrslu fyrir dómi og taldi dómari ekki nægilegt að byggja á skýrslu hennar hjá lögreglu á rannsóknarstigi málsins, enda hafi verjandi mannsins þar ekki getað spurt hana um þýðingarmikil atriði.
Engu að síður var ákærði sakfelldur bæði fyrir vændiskaup og líkamsárás. Fellst dómari á að honum hafi verið nauðsynlegt að grípa til líkamlegrar valdbeitingar til að verja sig en segir viðbrögðin yfirdrifin, og sú aðferð að slá brotaþola ítrekað í höfuðið hafi ekki verið forsvaranleg aðferð við beitingu neyðarvarnar eins og atvikum var háttað.
Dómurinn yfir manninum var hins vegar mjög vægur eða 30 daga skilorðsbundið fangelsi.