
29 ára gamall maður frá Grikklandi sem setið hefur undanfarna daga í gæsluvarðhaldi vegna andláts portúgals manns um fertugt á heimili þess síðarnefnda á Kársnesi í Kópavogi hefur verið látinn laus úr haldi lögreglu.
Ekki var farið fram á framlengingu gæsluvarðhaldsins af hálfu lögreglu. Elín Agnes Eide, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, gat ekki svarað því hvort maðurinn væri enn grunaður um að hafa banað hinum látna. Samkvæmt frétt RÚV af málinu um helgina voru áverkar á líki hins látna.
„Eins og staðan er núna erum við ekki að framlengja og við erum bara að skoða í kjölfarið þau gögn sem við höfum. Þetta er bara full blown rannsókn og við sjáum ekki ástæðu til að framlengja. Það er ákveðin niðurstaða í bili.“
DV greindi fyrst frá málinu sunnudaginn 30. nóvember. Miklar lögregluaðgerðir með aðkomu tæknideildar lögreglu höfðu þá staðið yfir á og við heimili mannsins frá um kl. 11 og inn í eftirmiðdaginn. Lögregla fann manninn látinn á vettvangi.