

Karlmaður um þrítugt lést í árekstri jepplings og flutningabíls á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ, sunnan Leirvogsár á móts við Bugðufljót, síðdegis í gær.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglunni barst tilkynning um slysið klukkan 16.50, en bílarnir voru að koma úr gagnstæðri átt. Samkvæmt tilkynningunni er talið annarri bifreiðinni hafi verið ekið yfir á rangan vegarhelming. Vesturlandsvegi var lokað í báðar áttir og umferð beint um Kjósarskarðsveg meðan vinna á vettvangi stóð yfir. Hinn látni ók jepplingnum, en ökumann flutningabílsins sakaði ekki.
Segir að lokum í tilkynningunni að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaki tildrög slyssins.