fbpx
Þriðjudagur 09.desember 2025
Fréttir

Tók upp klósettferðir kvenna í afmælisveislu á heimili sínu en kenndi Parkinsons-sjúkdóminum um

Ritstjórn DV
Mánudaginn 8. desember 2025 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir stafrænt kynferðisbrot, en hann tók upp salernisferðir kvenna sem voru gestkomandi á heimili hans. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. nóvember, en dómurinn var fyrst birtur um helgina.

Brotið átti sér stað þann 9. september árið 2023 í fögnuði á heimili mannsins. Brotaþoli lýsti því svo að hún hafi verið í afmæli hjá vinkonu sinni. Eftir um hálftíma varð henni mál að fara á salernið. Þá stóð ákærði við hliðina á hurðinni. Þegar hún ætlaði að fara inn á salernið spurði ákærði hvort hann mætti fyrst skjótast inn í nokkrar sekúndur. Þegar hann hafði lokið erindi sínu inni á salerni fór brotaþoli inn, hafði þar þvaglát og gekk svo út. Allt í allt tók ferðin um 60-90 sekúndur. Um það bil 40 mínútum síðar fór hún aftur á salernið, að þessu sinni í fylgd þriggja annarra kvenna. Inni á salerni voru þær að spjalla, pissa og taka myndir en þá tók ein þeirra eftir því að sími var þarna inni við baðkarið. Síminn sneri að spegli inni á salerninu og var upptaka í gangi. Konurnar skoðuðu upptökurnar og sáu þá myndband af þeim að nota salernið. Þeim var verulega brugðið. Þær skoðuðu svo myndasafn á símanum og fundu þá myndband sem sýndi brotaþola í fyrri klósettferðinni. Af öðrum myndum á símanum mátti ráða að ákærði væri eigandi símans svo þegar konurnar yfirgáfu baðherbergið létu þær hann hafa símann og tilkynntu honum að þetta væri ekki í lagi. Síðan yfirgáfu þær fögnuðinn.

Sagðist óvart hafa ýtt á upptökutakka vegna veikinda

Ákærði neitaði sök í málinu. Hann gekkst við því að eiga símann en vísaði til þess að hann glímir við sjúkdóm, Parkinsons, sem veldur miklum skjálfta í höndum og gerir að verkum að hann þarf stundum að bregða sér afsíðis á mannamótum til að hvíla sig. Þetta kvöld var hann að taka myndbönd af skemmtiatriðum og þegar hann fór á salernið varð honum á að ýta á hliðartakkann á símanum sem kveikti á upptöku. Hann væri svo vanur að leggja símann frá sér á vissum stað inni á baði, uppréttan. Þetta geri hann því hann sé gjarn á að týna hlutum og með þessu móti muni hann eftir símanum. Hann hafi skotist inn á salernið til að pústa aðeins og jafna sig, síðan farið út en gleymt símanum. Þannig hafi hann óvart tekið myndband af brotaþola. Hann sótti svo símann eftir að brotaþoli notaði salernið, en gleymdi honum svo aftur inni á baðherbergi þegar hann fór þangað aftur skömmu síðar, og aftur hafði hann óvart kveikt á upptöku.

Upptaka sýni að hann vissi af símanum

Dómari í málinu tók fram að ein upptaka lægi fyrir í málinu, sem sýndi fyrri klósettferðina en konurnar tóku upp myndband á sín eigin tæki máli sínu til sönnunar. Þar mátti sjá brotaþola gyrða niður um sig og nota salernið og sást í beran rass og kynfærasvæði hennar. Rakti dómari að samkvæmt hegningarlögum er það refsivert að útbúa, afla sér eða öðrum, dreifa eða birta myndefni, texta eða sambærilegt efni, þar með talið falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis. Þess konar brot er refsivert hvort sem það er gert af ásetningi eða af gáleysi, en refsiramminn er þó vægari í síðara tilfellinu.

Óumdeilt sé að ákærði glími við Parkinsons og óumdeilt sé að síminn var skilinn eftir inni á salerni með upptöku í gangi. Ákærði byggi á því að röð tilviljana hafi valdið því að myndböndin voru tekin upp, en dómari taldi þær skýringar ótrúverðugar í ljósi atvika og aðstæðna. Sérstaklega í ljósi þess hversu stutt ákærði stoppaði inni á salerni þrátt fyrir að bera því við að hann hefði leitað þar skjóls vegna veikinda sinna. Á myndbandi megi svo sjá að ákærði var við það að ganga út af baðherberginu þegar hann leit til baka beint á símann. Þetta gefi til kynna að hann hafi vitað að síminn væri þarna og þar með ekki gleymt honum óvart. Ákærði var því sakfelldur fyrir fullframið brot hvað fyrra tilvikið varðar en fyrir tilraun hvað það seinna varðaði þar sem konurnar afstýrðu frekari upptöku á efni er þær fundu símann, slökktu á upptöku og eyddu myndskeiðinu.

Maðurinn hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður verið sakfelldur fyrir refsiverða háttsemi en það horfði honum til refsiþyngingar að brot hans voru skipulögð, beindust gegn gestum á heimili hans og að með þeim braut hann gróflega gegn friðhelgi brotaþola. Refsing þótti því hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga, skilorðsbundið til tveggja ára. Eins var honum gert að greiða brotaþola 400 þúsund krónur í miskabætur, málsvarnarlausn skipaðs verjanda upp á 1,2 milljónir og þóknun réttargæslumanns brotaþola upp á 700 þúsund krónur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Segir IKEA haft fyrir rangri sök í hálfa öld – „Þarf vissulega að rannsaka betur“

Segir IKEA haft fyrir rangri sök í hálfa öld – „Þarf vissulega að rannsaka betur“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Davíð segir illa farið með gamla fólkið og nefnir dæmi: „Dó sem útlendingur uppi á Skaga tveimur vikum síðar“

Davíð segir illa farið með gamla fólkið og nefnir dæmi: „Dó sem útlendingur uppi á Skaga tveimur vikum síðar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Selfyssingur fann ástina í Kenía og gifti sig – Telur eiginkonuna vera vændiskonu

Selfyssingur fann ástina í Kenía og gifti sig – Telur eiginkonuna vera vændiskonu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig er örvæntingarfull – „Ég vil ekki þurfa að jarða einkason minn“

Sólveig er örvæntingarfull – „Ég vil ekki þurfa að jarða einkason minn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íhuga hópmálsókn gegn ríkinu vegna Reykjavíkurflugvallar – Eyðileggi jarðarfarir og brúðkaup

Íhuga hópmálsókn gegn ríkinu vegna Reykjavíkurflugvallar – Eyðileggi jarðarfarir og brúðkaup
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vill sniðgöngu Eurovision og leggur fram nýja tillögu – „Er þetta ekki besta hugmynd sem þið hafið heyrt?“

Vill sniðgöngu Eurovision og leggur fram nýja tillögu – „Er þetta ekki besta hugmynd sem þið hafið heyrt?“