
Háskólinn á Akureyri skoðar ábendingu sem skólanum barst um Snapchat-hóp nokkurra lögreglunema þar sem deilt hafi verið óviðgeiandi myndum af kvennemendum. RÚV greinir frá þessu.
DV barst ábending um málið þar sem kemur fram að lögreglunemarnir umræddu séu á öðru ári í lögreglufræði. Þeir hafi tekið myndir af rössum og brjóstaskorum bekkjarsystra sinna og sent í Snapchat-hópinn. Þar hafi þeir verið að gefa líkamshlutunum einkunnir og giska á hvaða líkamspartur tilheyrði hverri stúlku.
Segir ennfremur í áhendingunni að málið hafi komið upp í haust en ekki hafi verið aðhafst í því af hálfu Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar né Háskólans á Akureyri. Í frétt RÚV segir hins vegar:
„Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor háskólans, staðfestir að skólanum hafi borist tilkynning um hópinn. Það hafi komið inn á borð til stjórnenda skólans í október en sé enn til skoðunar innan háskólans. Nemendur hafi verið upplýstir um málið.
Hún tjáir sig ekki um málið að öðru leyti, en segir það litið afar alvarlegum augum ef rétt reynist.“