
Gunnar Gíslason, 39 ára gamall lögmaður, sat í gæsluvarðhaldi í rúmar tvær vikur vegna rannsóknar lögreglunnar á Norðurlandi eystra á hinu svokallaða Raufarhafnarmáli, en það varðar stórtæka ræktun á fíkniefnum.
Gunnar ræddi fyrr í dag við DV undir nafnleynd en var síðan nafngreindur í Speglinum á RÚV. Ræddi hann þá stuttlega við DV aftur.
Lögreglan fyrir norðan hefur gefið upp að Gunnar sé grunaður um ólöglegan flutning fólks til landsins, peningaþvætti, fíkniefnasölu og fíkniefnaræktun. Hann segir ásakanirnar vera fjarstæðukenndar og gæsluvarðhald og haldlagning á raftækjum hans hafi verið til þess gerð að komast að upplýsingum um skjólstæðinga hans.
Gunnar sagði við viðtalinu við DV í dag:
„Þeir byggðu allar sínar kröfur, um hlerun, húsleit, eftirfylgd, gæsluvarðhald og einangrun á því að ég væri samverkamaður eða hlutdeildarmaður í þessu Raufarhafnarmáli. Það var fjarstæðukennt og það var bara vegna þess að tveir sakborningar í því máli voru skjólstæðingar mínir. Ég var verjandi annars þeirra í málinu og hinn var skjólstæðingur minn frá fyrri tíð.“
„Ég tel að lögreglan sé að reyna að nota mig og komast í vinnugögnin mín af því ég er bara mjög vinsæll meðal Albananna. Ég held því að þeir séu að reyna að komast í vinnugögnin mín svo þeir geti fundið höfuðpaurana í þessu Raufarhafnarmáli.“
Gunnar segist telja langsótt að hægt verði að ákæra hann á grundvelli rannsóknar lögreglu. Og verði hann ekki ákærður? „Þá liggur fyrir að ríkið er bótaskylt og skattgreiðendur þurfa að punga út á annan tug milljóna í bætur til mín.
Ákærandi yrði þá lögreglan á Norðurlandi eystra en ekki Héraðssaksóknari þar sem embættið hefur vísað málinu frá sér og telur það ekki nógu alvarlegt til að það hafi lögsögu í því.
Verði Gunnar ákærður en síðan sýknaður fyrir dómi mun hann einnig krefjast hárra bóta. Hann segir lögreglu hins vegar þegar hafa brotið gegn eiginkonu hans og börnum og miskabótamál fyrir þeirra hönd muni fljótlega fara í farveg:
„Annað hvort verður málið fellt niður eða ég endanlega sýknaður af ákæru fyrir dómi. Mér þykir það seinna þó líklegra, því lögreglan er búin að leggja mikið undir og þarf að halda andliti. Nota bene sama lögregluembætti og var með Samherjasímann svokallaða. Það er skilyrði að málinu sé endanlega lokið svo ég geti sótt bætur. En konan mín og börnin okkar munu strax í næsta mánuði krefjast bóta til handa sér vegna þess að þau þurftu öll að þola innrás á heimili okkar, án þess að vera með stöðu sakborninga.“