
Héraðssaksóknari hefur ákært mann á Austurlandi fyrir brot gegn blygðunarsemi og barnaverndarlögum með því að hafa á tímabilinu 2. – 5. desember árið 2022 viðhaft kynferðislegt tal við 13 ára stúlku og sent henni mynd af getnaðarlim. Samskiptin fóru fram með einkaskilaboðum í gegnum Snapchat. Segir í ákæru að með þessu framferði hefði ákærði sýnt ósiðlegt athæfi og háttsemin verið til þess fallin að særa blygðunarsemi stúlkunnar.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Móðir stúlkunnar gerir fyrir hönd hennar kröfu um miskabætur að fjárhæð 1,5 milljónir króna.
Fyrirtaka var í málinu þann 3. desember við Héraðsdóm Austurlands á Egilsstöðum. Þinghald í málinu er fyrir luktum dyrum.