

Í tilkynningunni er bent á að óvenju breitt verðbil hafi verið á eftirtöldum á fjórum bókum:
• Þú sem ert á jörðu var 53% dýrari í Bónus en í Nettó (1.592kr munur)
• Hræðilegt hús var 47% dýrari í Nettó en í Bónus (1.601kr munur)
• Hræðileg veisla var 39% dýrari í Nettó en í Bónus (1.410kr munur)
• Skrifað í sand var 30% dýrari í Bónus en í Nettó (1.491kr munur)
Að sögn ASÍ getur miklu munað á verði bóka og þar af leiðandi geti verið gagnlegt fyrir neytendur að gera samanburð áður en verslað er. Bókin Jólakötturinn var í boði hjá Bóksölu stúdenta á 1.090kr, en hún kostaði rúmlega þrefalt meira í Bónus (3.559kr) og rúmlega fjórfalt meira í Eymundsson (4.999kr). ASÍ tekur fram að þetta sé þó undantekning. Að meðaltali var Bóksalan 26% dýrari en Bónus. Nettó var að meðaltali 0,7% dýrara, Hagkaup 23%, Forlagið 30% og Eymundsson 37%.
Í krónum og aurum þýðir þetta að meðalbók sem kostar 4.000kr í Bónus kostar
• 28kr meira í Nettó,
• 920kr meira í Hagkaup,
• 1.040kr meira í Bóksölu Stúdenta,
• 1.200kr í Forlaginu,
• 1.480kr meira í Eymundsson.
Í tilkynningu ASÍ kemur fram að alls hafi 431 bók verið í samanburðinum og valdar hafi verið bækur sem finna mátti í minnst fjórum verslunum. Þá er bent á að úrval bóka sé að sjálfsögðu mun víðara hjá sérvöruverslununum en í lágvöruverðsverslunum.
ASÍ segir að líkt og í fyrra hnikist verð á bókum í Bónus og Nettó til frá degi til dags.
„Oft munar þar lágum upphæðum, þar sem keppt er krónu fyrir krónu um að bjóða lægsta verð. Þó ekki alltaf. Til dæmis lækkaði Útkall – ég er á lífi um tæpar 500kr, eða 8%, í Bónus milli 1. og 3. desember. Dýrin undir ljósadýrðinni hækkuðu hins vegar um 1.200kr, eða 35%, milli 20. nóvember og 1. desember.“
Verðmunurinn á barnabókum úr Bókatíðindum virðist vera nokkru skarpari og er Eymundsson með dýrustu barnabækurnar. Þær eru að meðaltali um 41% dýrari en þar sem þær eru ódýrastar, sem er iðulega í Bónus. Bóksala stúdenta er í þessum flokki ódýrari en Hagkaup í 23 af 33 tilfellum. Að meðaltali munar um 7%, eða 300kr, á verslununum tveimur.
Breiðast var verðbilið meðal barnabóka á Hetjurnar á HM 2026, sem kostaði 3.449kr í Bónus. Annars staðar kostaði hún:
• 3.458kr í Nettó (0,3% dýrari)
• 4.990kr í Forlaginu (45% dýrari)
• 4.995kr í Bóksölu stúdenta (45% dýrari)
• 5.299kr í Hagkaup (54% dýrari)
• 5.999kr í Eymundsson (74% dýrari)
Bókin Liverpool – Nýr þjálfari, nýtt lið, nýir sigrar! hafði næstbreiðasta verðbilið. Hún kostaði það sama og Hetjurnar á HM 2026 í öllum verslunum nema Bónus, þar sem hún var sex krónum dýrari (3.455kr).
Í samanburði á barnabókum voru skoðaðar þær 35 bækur sem voru merktar í Bókatíðindum sem barnabækur og sem fundust í minnst fjórum verslunum.
Aðferðafræði
Skoðað var verð á bókum í verslunum Bónus í Smáratorgi, Nettó í Mjódd og Hagkaup í Smáralind og í vefverslunum Hagkaup, Bóksölu stúdenta, Forlagsins og Eymundsson þann 3. desember.