
Laurent Nunez, innanríkisráðherra landsins, tilkynnti þetta í vikunni og vísaði til árása á jólatengda viðburði, til dæmis í Þýskalandi og í Strasbourg árið 2018 þar sem fimm voru skotnir til bana.
Nunez beindi þeim tilmælum til löggæsluyfirvalda í landinu að líta á jólamarkaði sem möguleg skotmörk og auka eftirlit. Aðgerðirnar ná ekki aðeins til lögreglu heldur eru rekstraraðilar almenningssamgangna, öryggisverðir og opinberir starfsmenn hvattir til að vera á varðbergi.
Nunez kallaði eftir aukinni sýnilegri viðveru lögreglu og hermanna á fjölmennum svæðum til að fæla hugsanlega ódæðismenn frá.
Yfirvöld í höfuðborginni París ákváðu á dögunum að aflýsa stórum áramótafögnuði sem til stóð að halda á Champs-Élysées. Sambærileg hátíðarhöld voru haldin í fyrra og voru þá sex þúsund lögreglumenn á vakt sem eftir á að hyggja var ekki talið nægilegt.