

Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir skorar á stjórn RÚV að sýna hugrekki á miðvikudaginn þegar ákvörðun verður tekin um þátttöku Íslands í Eurovision-söngvakeppninni.
Þetta kemur fram í færslu Bjarkar á Facebook þar sem hún tekur undir með kollega sínum, Páli Óskari Hjálmtýssyni, sem hefur skorað á stjórn RÚV að segja Ísland úr keppni þar sem nú liggur fyrir að Ísrael mun taka þátt.
Írar, Hollendingar, Spánverjar og Slóvenar hafa þegar dregið sig úr keppni vegna Ísrael.
Páll Óskar sagði fyrr í dag að nú sé ljóst að í Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) séu gungur. Það þýði ekki að Íslendingar þurfi að vera gungur líka.
Björk segist taka undir með Páli Óskari og óskar þess að stjórn RÚV hafi hugrekki til að draga Ísland úr keppninni og „hugsa með hjartanu.“