
Maður á Austurlandi hefur verið ákærður fyrir kynferðislega áreitni. Er honum gefið að sök að hafa föstudagskvöldið 16. ágúst árið 2024 komið aftur fyrir barborð á veitingastað þar sem kona var við störf, gengið upp að henni, strokið yfir rass hennar og káfað á kynfærum hennar utanklæða.
Varðar þetta 1. málsgrein 199. greinar almennra hegningarlaga, er tekur til kynferðislegrar áreitni með káfi. Hámarksrefsing fyrir brotið er tveggja ára fangelsi.
Fyrirtaka verður í málinu við Héraðsdóm Austurlands á Egilsstöðum þann 18. desember næstkomandi. Þinghald í málinu er fyrir luktum dyrum.