

Morgunblaðið birti í dag frétt þar sem kom fram að hlutfall örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega með íslenskan bakgrunn hafi hækkað úr 13 í 18 prósent frá árinu 2012. Áhersla fréttarinnar var þó fremur á hlutfall bótaþega með erlent ríkisfang. Tekið var fram að þeim hafi fjölgað úr 455 á árinu 2012 í 2.539 á þessu ári.
Fréttin vakti töluverða athygli og hefur verið harðlega gagnrýnd. Þar sé gert mikið úr fjölgun erlendra ríkisborgara sem þiggja örorku- eða endurhæfingarlífeyri án þess að setja það í samhengi við mikla fjölgun innflytjenda. Sumir telja miðilinn láta að því liggja að hingað komi innflytjendur gangert til þess að komast á bætur. Raunin sé þó önnur. Raunin sé sú að Íslendingar eru mun líklegri til að fara á örorku- eða endurhæfingarlífeyri en innflytjendur. Einn af hverjum fimm Íslendingum þiggur þessar bætur en aðeins einn af hverjum 28 innflytjendum.
Þorsteinn Sigurlaugsson, hagfræðingur og sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands, segir að sé fréttin lesin gagnrýnislaust sitji lesandinn eftir með þá tilfinningu að til Íslands streymi útlendingar í því skyni að komast beint á bætur.
„Þessi tilfinning situr eftir, ekki síst vegna þess að meðan umfjöllunin um greiðslur til íslenskra ríkisborgara snýst öll um hlutfallstölur er umfjöllunin um greiðslur til erlendra ríkisborgara öll í fjöldatölum. Þetta er auðvitað ákaflega villandi í ljósi þess að á tímabilinu hefur útlendingum fjölgað 3,7-falt en þeirri breytu er alveg sleppt í fréttinni.“
Raunverulega fréttin sé sú að þegar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar eru bornir saman eftir uppruna kemur á daginn að þarna er um að ræða um 18 prósent fólks á vinnumarkaði með íslenskan bakgrunn en aðeins 3,6 prósent meðal fólks með erlent ríkisfang.
„Með öðrum orðum; tæplega einn af hverjum 5 Íslendingum þiggur þessar bætur, en aðeins einn af hverjum 28 útlendingum.“
Vissulega sé rannsóknarefni hvers vegna mikil aukning hefur átt sér stað hvað varðar endurhæfingarlífeyri almennt undanfarin ár, en það sé fjarstæðukennt hjá blaðamanni Morgunblaðsins að halda því fram að slík greining þurfi fyrst og fremst að beinast að fólki af erlendum uppruna. Útlendingar eru aðeins 6,5 prósent lífeyrisþega en tæplega 18 prósent íbúa Íslands.
Karen Kjartansdóttir almannatengill deilir færslu Þorsteins og tekur undir með honum að raunverulega fréttin sé sú að á meðan tæplega 5 af hverjum Íslendingi eru á örorku- eða endurhæfingarlífeyri þá er hlutfallið fyrir innflytjendur aðeins einn af hverjum 28.
„Þetta er raunverulega fréttin þegar tölur eru bornar saman eftir uppruna.“
Ritstjóri Samstöðvarinnar, Gunnar Smári Egilsson, er ómyrkur í máli þegar hann ræðir um frétt Morgunblaðsins inni á Rauða þræðinum á Facebook og segir hana helbera lygi: „Það er til lygi, haugalygi og Moggalygi.“
Í færslu sinni bendir Gunnar Smári á að þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Rósa Guðbjartsdóttir, hafi kallað eftir greiningu á endurhæfingarlífeyrisþegum eftir uppruna, en Gunnar telur að þar hafi Rósa ætlað sér að sanna vinsæla samsæriskenningu um að fólk frá öðrum menningarsvæðum sé líklegra til að þiggja bætur. Svarið var að 76 einstaklingar frá Asíu og Afríku fengu endurhæfingarlífeyri á þessu ári. Fólki á endurhæfingarlífeyri hafi fjölgað mikið frá árinu 2014 en af þessari fjölgun má aðeins rekja 10 prósent til fólks með erlent ríkisfang.
„Það verður að segjast að þú þarft að vera haldinn þráhyggju á háu stigi til að telja að þessi hópur, innflytjendur og þá einkum fólk frá Afríku og Mið-Austurlöndum sé að sliga velferðarkerfin. Allar tölur, líka þær sem Moggi, Mið- og Sjálfstæðisflokkur kalla eftir, sýna að atvinnuþátttaka innflytjenda er meiri en íslenskra ríkisborgara.“
Veltir ritstjórinn því fyrir sér hvort að þráhyggjuna megi rekja til þeirrar skoðunar að fólk sem sé brúnt eigi ekki að njóta sömu réttinda og hvítir, þrátt fyrir að borga sína skatta og gjöld.
„Það er skipulagður áróður í gangi gegn brúnu fólki á Íslandi. Yfir þig er dælt allskyns tölum sem meira og minna eru þvæla, afbökun á raunveruleikanum. Engar rannsóknir styðja málflutning þeirra sem reyna að magna hér upp útlendingaandúð, einkum andúð á brúnu fólki, og þegar tölur þeirra eru skoðaðar kemur í ljós að þær eru meira og minna afbökun og þar með lygi. En brúna fólkið hefur ekki sama aðgengi að fjölmiðlum“
Gunnar hvetur fólk til að vera vakandi því ef „höturunum“ tekst að svipta innflytjendur réttindum og mannvirðingu þá verði fatlaðir næstir, svo hinsegin fólk, konur, sósíalistar og svo framvegis.
„Sagan segir okkur þetta á nokkuð skýran hátt.“
Uppgjafaprófessorinn Eiríkur Rögnvaldsson gengur ekki eins langt og Gunnar Smári en kallar þó frétt Morgunblaðsins kvartsannleik um lífeyrisþega. Þar sé mikil áhersla lögð á mikla fjölgun erlendra ríkisborgara á lífeyri en enn og aftur er ekki tekið fram hversu mikið erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað á Íslandi á sama tíma.
„Fréttinni fylgir stór mynd af Ingu Sæland sem hefur þó ekki verið ráðherra nema eitt ár af því tímabili sem um ræðir. Allt til að vekja ákveðin hughrif hjá lesendum í garð innflytjenda og ríkisstjórnarinnar.“
Eiríkur bendir á að Morgunblaðið sleppi því einnig að nefna, sem þó komi fram í svari Ingu Sæland við spurningum fjárlaga- og greiningardeildar Alþingis og fjallað er um að öðru leyti í fréttinni, að nýgengi örorku hefur lækkað sem er talið að megi rekja til fjölgunar þeirra sem láta reyna á starfsendurhæfingu áður en kemur til örorkumats.
„Það er augljóslega jákvæð þróun að fólk skuli reyna endurhæfingu og fá endurhæfingarlífeyri tímabundið í stað þess að fara strax á varanlegan örorkulífeyri. Þetta ætti að vera fagnaðarefni fyrir skattgreiðendur. En það hentar ekki Morgunblaðinu að vekja athygli á þessu.“
Fyrir forvitna þá má nálgast upplýsingar um fjölda einstaklinga með erlent ríkisfang sem fá ellilífeyri á Íslandi á vef Alþingis. Þar sést að langflestir koma þeir frá löndum innan EES, karlar á ellilífeyri koma flestir frá Póllandi og Danmörku og það sama á við um konur.
Hvað örorkulífeyri varðar koma eins langflestir lífeyrisþegar með erlent ríkisfang frá EES-svæðinu, einkum Póllandi og á það við um bæði konur og karla.
Eins má finna upplýsingar um endurhæfingarlífeyri hvað varðar konur og karla með erlent ríkisfang, en það er það sama uppi á teningunum, flestir frá EES og þá einkum Póllandi.
Hvað meðlagsgreiðslur varðar eru það fyrst og fremst konur af erlendum uppruna sem njóta slíkra greiðslna, eða 733 á þessu ári og af þeim eru 508 frá EES-svæðinu. Aðeins 61 karl fékk meðlag, flestir frá EES.
Alls fengu svo 30 einstaklingar með erlent ríkisfang örorkustyrk á þessu ári.