

Bíleigandi beið ósigur í deilu sinni við ónefnda bílastæðaþjónustu fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Hafði maðurinn ekki viljað borga fyrir að hafa lagt bíl sínum á stæði sem þjónustan hefur yfir að ráða. Vildi hann meina að hann hefði ekki lagt bílnum á stæðinu og að einhver annar hefði gert það. Gaf hann hins vegar ekki upp hver það var en fyrir lá að fjölskyldumeðlimir eigandans höfðu aðgang að bílnum.
Eigandinn krafðist þess að bílastæðaþjónustunni yrði gert að fella niður kröfu á hendur honum. Þá gerði hann kröfu um að viðurkennt yrði að hótun fyrirtækisins um að hafna frekari þjónustu við hann væri andstæð góðum viðskiptaháttum.
Eigandanum barst í mars á þessu ári krafa vegna viðveru bílsins á umræddu bílastæði en hvar það er kemur ekki fram. Eigandinn hafði þá samband við bílastæðaþjónustuna þar sem hann vildi meina að hann ætti ekki að greiða kröfuna vegna þess að hann hefði ekki lagt bílnum á stæðinu í umrætt sinn. Benti eigandinn á á að fleiri á heimili hans hefðu aðgang að bifreiðinni. Í kvörtun sinni til nefndarinnar vísaði eigandinn til dómaframkvæmdar til stuðnings kröfu sinni og taldi að af henni yrði ráðið að eigandi ökutækis beri ekki ábyrgð á greiðslu kröfu sem umráðamaður ökutækisins hafi stofnað til nema fyrir lægi samþykki eigandans.
Í kvörtun sinni vísaði eigandinn jafnframt til þess að bílastæðaþjónustan hafi hótað því að hætta viðskiptum við hann og beita viðurlögum ef krafan yrði ekki greidd. Hann taldi slíkar hótanir fela í sér viðskiptalega þvingun vegna ólögmætrar kröfu og brot gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Fyrirtækið vísaði til þess að bifreiðinni hafi verið ekið inn og út af gjaldskyldu bílastæði og dvalið þar í 6 mínútur og 21 sekúndu. Samkvæmt birtri gjaldskrá sé kostnaður fyrir slíka notkun 500 krónur sem ökumanni bifreiðarinnar hafi borið að greiða en ekki gert. Um 48 klukkustundum síðar hafi skráðum eiganda ökutækisins verið sendur reikningur vegna ógreidds gjalds auk 1.490 króna þjónustugjalds sem sé lagt á í samræmi við skilmála bílastæðaþjónustunnar. Vísaði það einnig til þess að yfirgnæfandi líkur væru á að ökutækið hafi verið í umráðum eigandans þegar þjónustan var veitt og vísaði til skjals Samgöngustofu þar sem kom fram að ökutækið hafi verið skráð í almennri notkun og að enginn umráðamaður hafi verið skráður á tímabilinu.
Þegar kom að fullyrðingum um að viðskiptum við eiganda bílsins yrði hætt sagði bílastæðaþjónustan að höfnun á frekari þjónustu við umrædda bifreið hafi verið málefnaleg, lögmæt og í samræmi við góða viðskiptahætti, enda þurfi þjónustan að takmarka tjón sitt af þjónustu við ökutæki sem enginn vilji bera ábyrgð á svo það verði ekki notað til að komast hjá lögmætum kröfum um greiðslu bílastæðagjalda.
Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa segir að atvik þessa máls séu frábrugðin þeim sem lágu til grundvallar dómi Hæstaréttar, sem eigandi bílsins vísaði til, þar sem óumdeilt hafi verið að eigandi bifreiðar hefði ekki haft umráð hennar og því ekki verið notandi bílastæðisins. Í þessu máli haldi eigandi bifreiðarinnar sem sannarlega hafi verið lagt í hið gjaldskylda bílastæði, því fram að annar aðili hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn og tekið ákvörðun um að leggja henni. Eftir standi því álitaefnið um hver hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn og eigi því með réttu að greiða fyrir afnot af bílastæðinu.
Fram kemur að ekki séu teknar myndir á umræddu stæði af ökumönnum bifreiða sem þar er lagt.
Nefndin segir að almennt megi ganga út frá því að yfirgnæfandi líkur séu á að eigandi bifreiðar sé sá sem aki henni hverju sinni. Þá sé það að jafnaði á vitorði eiganda bifreiðar hver hafi afnot hennar hverju sinni, eða í öllu falli hægðarleikur fyrir hann að afla sér þeirra upplýsinga. Í tölvupóstsamskiptum aðila málsins hafi bíladtæðaþjónustuan óskað eftir því að eigandinn upplýsti um hver hefði verið með umráð bifreiðarinnar umrætt sinn svo hægt væri að senda reikning á réttan aðila. Í svari sínu hefði hann sagst ekki muna það en að fjölskylda hans hefði almennt aðgang að bifreiðinni. Hafi hann nefnt í því sambandi tvo nafngreinda heimilismenn en sagt einnig að það hefði getað verið „einhver á þeirra vegum.“
Nefndin segist hafa óskað eftir því við eigandann að hann greindi frá hvort það væri afstaða hans að upplýsa ekki um hver hefði notað bifreiðina umrætt sinn og hann hafi svarað með því að vísa í fyrrnefnd samskipti sín við bílastæðaþjónustuna. Í þessu sambandi verði að hafa í huga að aðeins hafi nokkrir dagar liðið frá því að bílnum var lagt í stæðið og þar til eigandinn gerði athugasemd við innheimtuna. Hefði því ekki átt að vera vandkvæðum bundið fyrir hann að afla upplýsinga um hver hafði afnot bifreiðarinnar umrætt sinn, ef hann hafi verið óviss um það.
Að mati nefndarinnar verði að skýra þessi óljósu svör eigandans á þann hátt sem sé bílastæðaþjónustunni hagfelldast. Samkvæmt því, og í ljósi þess að almennt séu yfirgnæfandi líkur á því að eigandi bifreiðar sé sá sem aki henni hverju sinni, yrði að leggja til grundvallar að eigandinn hafi verið ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn.
Kröfu eigandans um að reikningurinn yrði felldur niður var því hafnað.
Þegar kom að þeim lið kvörtunar hans um yfirlýsingar bílastæðaþjónustunnar um að hætta viðskiptum við hann þá var því vísað frá á þeim grundvelli að nefndin hefði ekki lagaheimild til að taka þær til skoðunar.