

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur fallist á að maður eigi rétt á endurgreiðslu frá fyrirtæki sem annaðist viðgerð á bíl hans. Bar viðgerðin á endanum lítinn sem engan árangur en maðurinn þurfti að fara með bílinn í viðgerð til annars aðila sem gat varpað ljósi á vinnubrögð kollega sinna.
Maðurinn krafðist fullrar endurgreiðslu en til vara að hann fengi hluta kostnaðarins við hina misheppnuðu viðgerð endurgreiddan.
Bilun kom upp í bílnum í maí 2025 og leitaði maðurinn þá til fyrirtækisins sem ekki er nafngreint í úrskurðinum. Leiddi skoðun í ljós að einn spíss í vél bifreiðarinnar væri bilaður. Tók fyrirtækið að sér að skipta hinum bilaða spíss út fyrir nýjan.
Í kærunni sagðist maðurinn hafa áður en þetta var gert hafa óskað eftir upplýsingum um hver kostnaðurinn yrði. Hafi svörin verið á þá leið að það yrði að skoða og að hann yrði síðan látinn vita. Við þetta hafi hins vegar ekki verið staðið. Um tveimur vikum síðar hafi fyrirtækið haft samband og upplýst að viðgerðin hefði verið framkvæmd og að hann gæti sótt bílinn. Sagði maðurinn að við afhendingu bifreiðarinnar hafi hún enn verið biluð og þar að auki eldneytislaus. Hann hafi strax spurt hverju þetta sætti og fengið þá þau svör að líklega þyrfti að skipta um annan spíss í bílnum.
Sagði maðurinn í kærunni að fyrir þessa þjónustu hafi hann verið rukkaður um 170.000 krónur og krefðist hann endurgreiðslu á þeim grundvelli að viðgerðin hefði ekki borið árangur.
Hafi hann í kjölfarið þurft að leita til annars verkstæðis til til að framkvæma frekari viðgerð á bifreiðinni og lagði hann fram yfirlýsingu frá því verkstæði því til sönnunar. Þá taldi hann spíssinn hafa verið verðlagðan of hátt og vísaði til tilboðs í sambærilegan varahlut.
Fyrirtækið sagðist í sínum andsvörum hafa framkvæmt hina umsömdu þjónustu og vísaði til þess að maðurinn hafi þegar greitt reikningin vegna hennar. Spíssinn hafi verið keyptur af umboðsaðila framleiðanda bifreiðarinnar á Íslandi og að kaupverð hafi verið 70.000 krónur án flutningskostnaðar. Byggir fyrirtækið á því að krafa þess vegna vinnu og kaupa á varahlut hafi verið sanngjörn og krafðist að kröfu mannsins verði hafnað.
Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa er vitnað til yfirlýsingar verkstæðisins sem maðurinn fór með bílinn á eftir að fengið hann bilaðan úr viðgerð hjá því fyrirtæki sem hann deildi við.
Í yfirlýsingunni kom meðal annars fram að vélin hafi ekki virkað eðlilega þar sem eldsneytisdælan og spíssarnir hefðu verið í ólagi og þurft að hafi skipta þessu öllu út. Í fyrri viðgerðinni hafi rangri tegund af spíss verið komið fyrir. Sá spíss hafi þar af leiðandi ekki virkað og skipta hafi þurft honum út líka.
Fyrirækinu var boðið að koma á framfæri athugasemdum vegna þessarar yfirlýsingar en nýtti það tækifæri ekki. Yfirlýsingin hafði úrslitaáhrif en nefndin segir að með vísan til hennar verði að líta svo á að árangur viðgerðarinnar hafi ekki verið sá sem samið var um. Sé því fallist á að viðgerðin hafi verið haldin galla í skilningi þjónustukaupalaga enda hafi fyrirtækið ekki teflt fram sjónarmiðum eða gögnum sem bendi til annars.
Líta verði á kröfu mannsins um endurgreiðslu sem kröfu um afslátt í skilningi laganna. Samkvæmt lögunum geti neytandi krafist afsláttar af verði þjónustu sem sé haldin galla. Afslátturinn skuli svara til umfang gallans. Með hliðsjón af atvikum máls og framlögðum gögnum sé fallist á kröfu mannsins um fulla endurgreiðslu þar sem þjónusta fyrirtækisins hafi ekki nýst honum. Fyrirtækinu ber því að endurgreiða honum alls 170.000 krónur fyrir hina misheppnuðu viðgerð á bíl hans.