
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa varð við kröfu konu um að aðila sem tók að sér flutning á búslóð hennar yrði gert að afhenda þann hluta búslóðarinnar sem hann hefur haft í vörslu sinni í meira en eitt ár, gegn því að konan greiði fyrir það 290.000 krónur.
Flutningsaðilinn tók ekki til varna fyrir nefndinni. Konan hafði samband við fyrirtæki sem auglýsti búslóðarflutninga en ekki kemur fram hvaðan og hvert konan var að flytja en miðað við samhengi úrskurðar nefndarinnar virðist hún hafa verið að flytja á milli landa. Var henni bent á að hringja í þann aðila sem kvörtun konunnar beindist á endanum að. Gerði hann henni munnlegt tilboð að fjárhæð 790.000 krónur. Samkvæmt kvörtun konunnar fól tilboðið í sér flutning á þremur brettum af búslóð, að fjárhæð 180.000 krónur hvert, og einum ferðavagni, að fjárhæð 250.000 krónur, ásamt sköttum, tollum og öðrum gjöldum vegna flutninganna.
Konan sagðist hafa fengið tilboð frá tveimur öðrum fyrirtækjum en tekið þessu þar sem það hefði verið lægst. Hefði hún talið sig vera að vera að semja við fyrirtækið sem auglýsti þjónustuna en síðar hefði komið í ljós að maðurinn sem hún talaði við væri að veita þessa þjónustu persónulega.
Í kæru konunnar kom fram að maðurinn hafi tvívegis komið á heimili hennar til að sækja þá hluti sem flytja átti, dagana 23. september og 11. október 2024. Hafi hann upplýst hana um að búslóðin og ferðavagninn yrðu send á áfangastað í tveimur ferðum þar sem það væri hagstæðara fyrir hana vegna innflutningsgjalda. Þann 22. október 2024 hafi hann óskað eftir því að hún myndi millifæra inn á bankareikning hans 500.000 krónur sem hún hafi gert samdægurs. Þann 5. desember hafi hluti búslóðarinnar verið afhentur henni og tíu dögum síðar ferðavagninn. Hafi hún í kjölfarið ítrekað óskað eftir upplýsingum um hvenær restin af búslóðinni yrði afhent en svör mannsins verið óljós.
Hafi sá hluti búslóðarinnar enn ekki verið afhentur. Í lok mars 2025 hafi maðurinn gefið út reikning á hendur henni fyrir eftirstöðvum flutningskostnaðar að fjárhæð 1.645.200 krónur. Samkvæmt reikningum væri heildarkostnaður við þjónustuna alls 2.145.200 krónur og því næstum þrefalt hærri en um hafi verið samið. Konan sagði jafnframt að upplýsingar um stærð hinnar fluttu búslóðar í reikningi væru rangar en umfang hins flutta hafi verið mun minna en þar væri tiltekið. Að sögn konunnar neitar maðurinn að afhenda restina af búslóðinni nema gegn greiðslu að fjárhæð 1.645.200 króna. Þá hafi samskipti þeirra verið afar erfið og hann haft í ýmsum hótunum í hennar garð. Þann 1. apríl 2025 hafi hún haft samband við manninn og óskað eftir efndum samkvæmt samkomulagi þeirra en án árangurs. Konan sneri sér þá til nefndarinnar og krafðist þess að maðurinn efndi munnlegt samkomulag þeirra með afhendingu á hluta búslóðar hennar gegn greiðslu að fjárhæð 290.000 krónur.
Niðurstaða kærunefndar vöru- og þjónustukaupa markast að hennar sögn af því maðurinn hafi hvorki komið gögnum né sjónarmiðum sínum á framfæri. Frásögn konunnar sé af þeim sökum lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Fellst nefndin á kröfu konunnar um að manninum beri að afhenda henni afganginn af búslóð hennar gegn 290.000 króna greiðslu.