
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur gert manni sem starfaði við húðflúrun að endurgreiða fyrrum viðskiptavini sínum. Húðflúrarinn hafði byrjað að húðflúra háls og handlegg viðskiptavinarins og til stóð að húðflúra bakið líka. Átti viðskiptavinurinn að koma til húðflúrarans í nokkur skipti en þegar til kastanna kom neitaði sá síðarnefndi að ljúka verkinu en varð ekki við kröfu um endurgreiðslu. Sat því viðskiptavinurinn uppi með ófullgerð húðflúr.
Krafðist viðskiptavinurinn endurgreiðslu á alls 380.000 krónum auk 80.000 króna sem hann sagðist eiga inni hjá húðflúraranum fyrir myndavél sem hann hefði selt honum.
Hafði viðskiptavinurinn óskað eftir húðflúrum á baki, hálsi og handlegg. Greiddi hann 380.000 krónur með alls fjórum millifærslum á tímabilinu nóvember 2023 til október 2024. Kom fram í kæru viðskiptavinarins að fyrsta millifærslan hafi verið vegna húðflúrs á baki, næstu tvær millifærslurnar verið vegna húðflúra á hálsi og handlegg en síðasta millifærslan verið framkvæmd að ósk húðflúrarans þar sem hann hafi sagst þurfa að kaupa nýja spjaldtölvu til að geta lokið hinni umsömdu þjónustu.
Sagðist viðskiptavinurinn hafa mætt í fimm skipti til húðflúrarans, klukkutíma í senn. Síðan hafi reynst ómögulegt að fá tíma og hafi húðflúrarinn loks í desember 2024 upplýst sig um að hann væri hættur störfum. Fram kom í kærunni að þar af leiðandi væru húðflúr á hálsi og handlegg hálfkláruð og hafi húðflúrarinn aldrei byrjað að húðflúra bakið. Í kjölfarið hafi hann óskað eftir fullri endurgreiðslu auk 80.000 króna vegna myndavélar sem hann hafi selt húðflúraranum. Hefði húðflúrarinn ekki orðið við þeirri beiðni þrátt fyrir ítrekanir þess efnis.
Í niðurstöðu Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa kemur fram að viðskiptavinurinn hafi lagt fram tvær ljósmyndir sem renni stoðum undir að húðflúrarinn hafi horfið frá hálfloknu verki. Á fyrri ljósmyndinni megi sjá að húðflúrarinn hafi aðeins flúrað dökkan bakgrunn á allan handlegg viðskiptavinarins án þess að hefja flúrun hans að öðru leyti. Af síðari ljósmyndinni verði ráðið að húðflúrarinn hafi flúrað útlínur fugls á hálsi viðskiptavinarins. Að sögn viðskiptavinarins séu bæði húðflúrin ófullgerð.
Viðskiptavinurinn krafðist eins og áður segir fullrar endurgreiðslu. Nefndin segir að við mat á endurgreiðslukröfunni verði að líta til þess, með hliðsjón af kvörtun og framlögðum gögnum, að húðflúrarinn hafi veitt hluta af hinni umsömdu þjónustu við gerð húðflúrs á hálsi og handlegg sem viðskiptavinurinn hafi greitt alls 280.000 krónur fyrir. Þá beri viðskiptavinurinn því við að húðflúrarinn hafi ekki byrjað á húðflúri á baki hans sem hann greiddi 100.000 krónur fyrir. Með hliðsjón af atvikum málsins, þar sem húðflúrarinn hafi ekki nýtt rétt sinn til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum, sem og framlögðum gögnum verði talið að viðskiptavinurinn eigi rétt á endurgreiðslu sem þyki hæfilega ákveðin 280.000 krónur.
Viðskiptavinurinn fékk því ekki endurgreiðslukröfu sinni framgengt að fullu og kröfu hans um endurgreiðslu vegna sölu á myndavél til húðflúrarans var vísað frá á þeim grundvelli að seljandi gæti ekki lagt fram kröfu til nefndarinnar.
Hvort viðskiptavinurinn hafi snúið sér til annars húðflúrara til að ljúka við húðflúrin kemur ekki fram.