

Í færslu Samfylkingarinnar var bent á það að Seðlabankinn hefði lækkað stýrivexti fimm sinnum á einu ári, verðbólga sé sú minnsta frá 2020, halli á fjárlögum sé nú helmingi minni og lækkun ríkisskulda nemi 7,5 prósentum af landsframleiðslu á fyrsta ári.
„Við vorum með plan. Og planið er að virka. Hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt?,” stóð síðan í færslunni.
Vilhjálmur gerði athugasemd við færsluna og setti stórt spurningarmerki við þá fullyrðingu að planið sé að virka.
„Vissulega hafa stýrivextir Seðlabanka Íslands lækkað um 1,25 prósentustig á einu ári, úr 8,5% í 7,25%. Það er staðreynd. Hins vegar verður að horfa á hverjir njóta þessarar lækkunar – og hverjir ekki,“ sagði hann í athugasemdinni og sagði að fyrir heimili með verðtryggð húsnæðislán hefði engin vaxtalækkun átt sér stað.
„Í desember 2024 voru grunnvextir verðtryggðra lána 4% og viðbótarvextir 5%. Ári síðar eru vextirnir óbreyttir, hjá Landsbankanum, ríkisbanka í eigu almennings. Á sama tíma hefur verðbólga lækkað úr 4,8% í 3,7%. Þetta þýðir að raunvextir verðtryggðra lána hafa hækkað, þrátt fyrir lægri verðbólgu og lægri stýrivexti. Bankarnir hafa hvorki skilað stýrivaxtalækkunum né ávinningi af minni verðbólgu til heimilanna,“ sagði hann.
Þá benti hann á að á meðan þetta gerist hafi fólk verið þvingað úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð lán vegna óbærilegrar vaxtabyrði
„Afleiðingin er sú að skuldir heimilanna í verðtryggðum lánum nema nú rúmum 2.000 milljörðum króna. Þetta er ekki náttúrulögmál – þetta er afleiðing stefnu og ákvarðana,“ sagði Vilhjálmur sem endaði athugasemdina á þessum orðum:
„Þegar vaxtalækkanir skila sér ekki til heimilanna, raunvaxtabyrði hækkar og fólki er þrýst í lán sem halda skuldum þeirra uppi til lengri tíma þá er ekki hægt að tala um að „planið sé að virka“ fyrir almenningi þegar þessar staðreyndir liggja fyrir. Enn og aftur er vegið að heimilum þessa lands, á meðan fjármálakerfið heldur sínum ávinningi.“