
Meðal margra sem báru vitni í Súlunesmálinu er hestamaður og hesthúseigandi sem kynntist Margréti Löf og foreldrum hennar í gegnum hestamennskuna.
Segir hann að sér hafi strax líkað afskaplega vel við föðurinn og móðurina. Margrét hafi á hinn bóginn „verið sérstök, á köflum svolítið furðuleg og stíf í allri framkomu og tjáskiptum,“ eins og segir í dómnum.
Móðir Margrétar hafði síðan samband við hestamanninn síðla árs 2024 og sagði að Margrét væri á hrakhólum með pláss fyrir stóðhest og biðlaði hún til mannsins um að fá pláss í hesthúsi hans. Hann sagðist almennt ekki leigja út pláss fyrir stóðhesta, en sagði móður Margrétar að hann myndi gera það fyrir hana og eiginmann hennar. Margrét kom síðan með hestinn í hesthús mannsins í janúar 2025.
Segir hann strax frá upphafi hafi verið ljóst að Margrét væri „með miklar sérþarfir,“ hún hafi sýnt öðrum í hesthúsinu yfirgang og verið erfið í samskiptum. Foreldrar hennar hafi verið dugleg að mæta með henni, þau hafi verið hlý og indæl og haft góða nærveru. Maðurinn „hafi fljótlega séð að gömlu hjónin voru eins og þrælar í kringum ákærðu og þau verið illa klædd og hríðskjálfandi að þjónusta hana og stóðhestinn,“ segir í dómnum.
Hestamaðurinn gaf skýrslu hjá lögreglu þann 15. apríl, eða fjórum dögum eftir lát föðurins, Hans Rolands Löf. Greindi hann frá atviki sem hafði átt sér stað um þremur vikum áður og virðist lýsandi fyrir ofbeldi Margrétar gegn foreldrum sínum. Segist hann hafa verið að koma út úr hesthúsinu og séð Margréti og foreldra hennar í bíl fyrir utan. Móðirin hafi setið undir stýri, Margrét við hlið hennar og faðirinn í aftursætinu. Sá hann þá hendur Margrétar sveiflast hratt í áttina að móðurinni. Hestamaðurinn gekk þá að bílnum og bankaði á rúðu ökumannsmegin. Móðirin dró rúðuna niður og sagði að allt væri í lagi.
Daginn eftir tók hestamaðurinn hins vegar eftir því að móðirin var með sólgleraugu og bar derhúfu á höfði sem hún dró niður eftir andlitinu. Hann bað hana um að taka af sér húfuna og gleraugun og sá þá að hún var með glóðarauga og blóðhlaupin augu. Hestamaðurinn segir að sér hafi verið gróflega misboðið við þessa sjón og hafi gert Margréti og foreldrum hennar ljóst að hann vissi hvað væri í gangi og svona gæti Margrét ekki komið fram við þau.
Hann segir að eftir þetta hafi hjónin ekki snúið aftur í hesthúsið svo hann viti til.