
Aðkoma lögreglu og annarra viðbragðsaðila á vettvangi morðsins í Súlunesi þann 11. apríl var í senn óhugnanleg og undarleg. Málið hófst með því að móðir sakborningsins, Margrétar Höllu Hansdóttur Löf, hringdi í Neyðarlínuna 112, tilkynnti að eiginmaður hennar væri meðvitundarlaus á heimili þeirra og óskaði eftir sjúkrabíl á staðinn. Á meðan símtalinu stóð spurði neyðarvörður 112 móðurina hvað maður hennar hefði verið að gera áður en hann missti meðvitund og svaraði hún: „Það voru slagsmál, það voru bara slagsmál, viltu senda bíl.“
Á hljóðupptöku símtalsins heyrist Margrét segja í bakgrunninum: „En af hverju datt hann?“ – Móðirin svaraði henni að hún vissi það ekki.
Er sjúkraflutningamenn komu á staðinn kl. 6:45 lá Hans Roland Löf meðvitundarlaus á gólfi í anddyri hússins. Endurlífgun hófst á staðnum með hjartahnoði, hjartastuði, öndunaraðstoð og adrenalíngjöf. Hann var síðan fluttur á bráðamóttöku LSH í Fossvogi og þaðan á gjörgæsludeild LSH við Hringbraut en þar lést hann kl. 14:37 sama dag.
Lögreglumenn komu á vettvang um leið og sjúkralið. Blöstu strax við áverkar á bæði Hans og móðurinni. Um þetta segir í texta dómsins (Hans er þar kallaður A og móðirin er kölluð brotaþoli):
„Í frumskýrslunni segir að þegar inn kom hafi A legið í hjartastoppi á gólfi í anddyri hússins á neðri hæð, ákærða staðið við fætur hans og brotaþoli setið við höfuð hans; greinilega í miklu uppnámi. Að sögn 1 vöktu áverkar á andliti A og marblettir á maga athygli lögreglu, sem og að brotaþoli var með mikla sjáanlega áverka á andliti,áverka á hálsi og fótum, hún bólgin, með mjög mikla marbletti og með „blómkálseyra“ á hægra eyra. Kvaðst 1 hafa spurt brotaþola hvað komið hefði fyrir og hún hvíslað að dóttir þeirra hefði gert þetta, en það mætti ekki segja frá því. Segir í skýrslunni að brotaþoli hafi verið greinilega mjög skelkuð og hrædd við dóttur sína. Í skýrslunni er haft eftir brotaþola að hún hafi verið á salerni á neðri hæð hússins og ákærða á efri hæð hússins þegar brotaþoli heyrði A detta. Þegar það gerðist hafi hún og A verið að tygja sig til brottfarar af heimilinu.“
Á vettvangi kannaðist Margrét ekki við áverka á móðurinni og sagðist ekki vita hvernig þeir væru tilkomnir. Hún sagðist hafa verið á efri hæð hússins þegar hún heyrði háværan dynk á neðri hæðinni, hún þá farið niður og komið að föður sínum liggjandi á gólfinu með móður hennar við hlið sér. Hún sagði að faðir hennar væri sjúklingur, veikur í fótum og með einhverja „þynningu“ í hnjám.
Fram kemur að húsið var ósnyrtilegt, jólatré enn uppi þó að komið væri inn í apríl, víða sáust blóðslettur, meðal annars á veggjum og greinilegt að mikið hafði gengið á í húsinu. Vegna þessara aðstæðna og út af áverkunum á hjónunum voru rannsóknarlögreglumenn kvaddir á vettvang.
Jafnframt var Margrét handtrekin vegna gruns um heimilisofbeldi. Handtakan fór fram í herbergi hennar á efri hæð hússins kl. 07:18. Segir í dómnum að handtakan hafi komið Margréti mjög á óvart og hún spurt af hverju hún væri handtekin en ekki foreldrar hennar.