

Nafnarnir Fannar Leósson og Fannar Óli Elísson eiga margt fleira sameiginlegt en nafnið. Báðir voru afreksmenn í íþróttum en hættu á örlagaríkum tímapunkti, glímdu við fíkn en náðu bata. Þeir eru báðir hárgreiðslumenn og mæta reglulega upp í Hlaðgerðarkot til að klippa og snyrta fólkið sem þar dvelur hverju sinni. Þetta gera þeir vegna þess að þeim finnst gott að gefa til baka og eru svo óendanlega þakklátir fyrir það góða líf sem þeir eiga í dag.
Fannar og Fannar Óli eru í viðtali við Steingerði Steinarsdóttur í jólablaði Samhjálpar.
Hvenær byrjaði neyslan hjá ykkur og hvers vegna?
„Ég byrjaði árið 1994, var sextán, sautján ára,“ segir Fannar. „Ég var kominn í mína fyrstu meðferð átján ára. Ég æfði sund og var kominn í unglingalandsliðið. Ég hafði lagt mikið á mig til þess en slasaði mig á fæti, datt í það og fór aldrei í sundlaugina aftur. Líf mitt hreinlega kúventist á einu kvöldi.“
„Ég átti mörg áföll að baki,“ segir Fannar Óli. „Ég byrjaði árið 2012, átján ára gamall. Var á leið í atvinnumennsku í fótbolta. Þá reið enn eitt áfallið yfir og ég henti takkaskónum í ruslið og fór ekki aftur út á völl. Pabbi minn fór í fangelsi þegar ég var sex ára. Hann fékk langan dóm, sextán ár. Það var fyrsta áfallið. Þegar ég var átján ára var hann að losna út en braut skilorð og fór aftur inn. Það varð til þess að ég henti takkaskónum.“

Fóru oft í meðferð
Hvernig er svo saga ykkar eftir að þið snúið baki við íþróttunum og neyslan tekur völdin?
„Ég fór í fyrstu meðferðina átján ára, á Staðarfell,“ segir Fannar Óli. „Ég á að baki margar innlagnir á Vog og níu heilar meðferðir sem ég kláraði. Ég hef einu sinni þurft að sitja inni. Það var mjög löng fæðing að mínum bata. Ég fór upp í Hlaðgerðarkot 2023 og þar breyttist allt, númer eitt, tvö og þrjú hugarfar mitt og ráðgjafinn minn reyndist frábær. Hann spurði mig réttu spurninganna og einhvern veginn var ég bara til í þetta.“
„Ég á langa meðferðarsögu að baki og hef farið þrisvar í meðferð uppi í Hlaðgerðarkoti,“ segir Fannar. „Nú er ég búinn að vera edrú í nærri tvö ár.“

Verndarenglar vaka yfir Hlaðgerðarkoti
Margir tala um að það sé alveg sérstakt að koma upp í Hlaðgerðarkot, eitthvað sem sé allt öðruvísi en annars staðar.
„Það er bara eitthvað yfir staðnum,“ segir Fannar.
„Já, verndarenglar vaka yfir honum,“ bætir Fannar Óli við. „Ég byrjaði að trúa þar, æðri máttur snerti mig svona rosalega.“
„Hið sama gerðist hjá mér,“ bætir Fannar við. „Ég fór fyrst í Hlaðgerðarkot árið 2012 og þar hleypti ég Guði að í fyrsta sinn. Ég tengi þá reynslu mjög mikið við Hlaðgerðarkot.“

Vilja báðir gefa af sér
Þeir tveir þekktust ekki mikið áður, vissu hvor af öðrum en voru ekki samtíða í Hlaðgerðarkoti. Báða langaði hins vegar að gefa af sér, leitast við að sýna þakklæti sitt í verki og það varð til þess að þeir tóku höndum saman og fóru að fara upp í Hlaðgerðarkot og bjóða fólkinu þar ódýra klippingu. Sú upphæð sem safnast við það rennur síðan óskert til Samhjálpar en nafnarnir telja að það geri talsvert fyrir sjálfstraust kúnnanna þar að borga fyrir þjónustuna.
„Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessari þörf til að gefa til baka. Hún er bara eitthvað sem ég finn innra með mér,“ segir Fannar. „Ég er loksins búinn að ná árangri og mig langar einfaldlega að gefa af mér. Við erum báðir að stíga reglulegt og sterkt tólfta spor og förum í stofnanir og deilum reynslu okkar. Mig langaði að gera meira. Núna í desember ætlum við að fara á Vog og Vík og að klippa skjólstæðinga þar fyrir jólin.“
„Ég tek undir það sem Fannar segir,“ bætir Fannar Óli við. „Ég held að hugsunin bak við þetta allt sé bara að vera góður strákur, láta gott af sér leiða og vera til staðar fyrir aðra. Maður er búinn að taka og taka svo lengi en núna vill maður gefa af sér og það hjálpar manni í sinni edrúmennsku.“
„Við þekkjum það báðir hvernig það er að koma í meðferð,“ segir Fannar. „Það er ekki rosalega hátt á manni risið og klipping gerir helvíti mikið, afsakið orðbragðið, fyrir andlegu heilsuna. Maður er alltaf aðeins betri nýklipptur.“

Hárgreiðslan í ættinni
Þeir bæta því að það að rækta útlitið sé hluti af því að einstaklingnum finnist hann maður með mönnum. Að hann geti aðeins rétt úr sér og sett brjóstkassann fram.
„Það er bara ofboðslega gefandi að fara þarna uppeftir á átta vikna fresti og fá að hitta fólkið,“ segir Fannar. „Fá bara að vera þarna. Það er ekkert sjálfsagt fyrir menn eins og mig og Fannar Óla að vera í þeirri stöðu að fá að gefa svona af okkur.“
„Við erum að fara upp í Hlaðgerðarkot til að hitta „træbið“ okkar. Það er bara svoleiðis,“ segir Fannar Óli og hlær.
Þið vinnið báðir sem hárgreiðslumenn. Hvað var það sem dró ykkur að því fagi?
„Ég held að í mínu tilfelli hafi það aðallega verið vegna þess að mamma mín er hárgreiðslumeistari,“ segir Fannar. „Ég fór í Versló en var fljótur að átta mig á að skrifborð og tölva eftir tíu ár myndu ekki virka fyrir mig. Ég fór því í hárgreiðsluna og hef verið þar síðan, eða í tuttugu og átta ár.“
„Frændi minn er hárgreiðslumeistari og var meistarinn minn þegar ég var að læra og amma mín var hárgreiðslukona,“ segir Fannar Óli. „Það var stærsta ástæða þess að ég fór í fagið og svo réði miklu að ég gat mætt smart í vinnuna á hverjum degi. Það lék mjög stórt hlutverk hjá mér. Svo snýst þetta mikið um mannleg samskipti og ég hef áhuga á fólki.“
„Þetta er mjög skemmtilegt starf en jafnframt mjög erfitt. Það eru ekki allir sem átta sig á því,“ bætir Fannar við. „Það er alveg sama hvað er að gerast í lífi þínu þú þarft að vera brosandi og hlýr við kúnnann. Við getum ekki tekið okkar líf með í vinnuna.“

Allt annað líf
En talandi um líf. Hvernig er líf ykkar í dag?
„Jah, hvar á ég að byrja,“ segir Fannar Óli. „Til að byrja með, ég á líf í dag. Ég er byrjaður að kynnast dóttur minni sem er tíu ára. Ég er að láta drauma mína rætast og vann til dæmis á hárgreiðslustofu í París í allt sumar, ég sem var á götunni fyrir rétt rúmum þremur árum. Það er ekkert þak á draumum þegar maður er hermaður Guðs. Ég er til staðar fyrir fjölskyldu mína og það er mér gríðarlega mikilvægt. Ég á fallegt heimili, ég er í hreinum fötum og ég á mat í ísskápnum.“
„Líf mitt er dásamlegt. Það er reyndar upp og niður og manni líður alla vega en ég hef ekki þurft að leiða hugann að því að fá mér eitthvað til að breyta mér,“ segir Fannar. „Ég þráði það ansi lengi að fá að vera í tólf spora samtökum og upplifa hvað það er að vera í bata frá alkóhólisma. Ég hreinlega skildi ekki orðið bati frá alkóhólisma, en ég er farinn að skilja það núna. Ég fæ að vera til staðar fyrir strákana mína og fjölskyldu mína. Ég er búinn að vera beyglaður svo lengi í lífinu að ég er enn að réttast við, ég er enn að læra á þessa útgáfu af mér. Ég hef aldrei fengið að upplifa hana áður.
Ég kann á allar þessar grímur og hlutverk sem maður leikur og að vera í ótta, í raun láta hann stýra mér. Nú er ég að lifa það að standa betur með sjálfum mér og vera með Guði. Ég treysti mjög fáum í neyslunni og bara heilt yfir í lífinu og að geta sagt í dag að ég treysti Guði fyrir lífi mínu er rosalega góð og skrýtin tilfinning. Þótt ég sé ekki alltaf sammála honum þá treysti ég ferlinu. Hann er alveg búinn að sýna og sanna að það er óhætt.“

Óttinn versti óvinurinn
„Sammála,“ segir Fannar Óli. „Að trúa er eitt en að treysta er annað. Að geta treyst æðri mætti fyrir lífi sínu er bara vá! Þá fara hlutir að gerast. En það er gríðarlega erfitt á köflum.“
„Því miður var þannig komið fyrir mér að ég átti engan annan leik eftir en að treysta Guði fyrir lífi mínu,“ segir Fannar. „Ég hafði oft jáað mig í gegnum þetta, sagt já, ég er alveg til það, en ég var ekki búinn að reka mig nóg á, ekki meiða mig nógu mikið til að taka ákvörðunina með hjartanu. Ég á margar innkomur inn í tólf spora samtök en þær eiga það allar sameiginlegt að ég var óheiðarlegur, var alltaf að fela eitthvað og lifði mjög tvöföldu lífi sem ég er laus við í dag. Nú er allt uppi á borðinu. Ég var óttastýrður og þegar maður lætur óttann stjórna brást ég alltaf rangt við. Óheiðarleiki minn, ótti minn gerðu það að verkum að það fór alltaf allt á versta veg og það bitnar alltaf mest á mér. Við vorum bara litlir hræddir strákar.“
„Ég elska að tala um ótta,“ segir Fannar Óli, „því hann er einhvern veginn yfir þessu öllu og stýrir lífi manns. Ef maður treystir ferlinu og stígur inn í óttann þá uppsker maður gríðarlega mikið. Ef maður er kominn á þann stað að spyrja sig: Hvernig kom ég mér í þessar aðstæður? er maður einmitt á réttum stað. Þaðan er hægt að byrja að byggja upp. Það má segja að tólf spora samtök hafi gert mig að karlmanni.“
Og það verða lokaorð þessara nafna sem eru ekki lengur litlir hræddir strákar heldur karlmenn sem bera höfuðið hátt og taka ekki bara ábyrgð á að byggja sjálfa sig upp heldur leitast við að veita öðrum sjálfstraust og gleði.