
Margréta Halla Hansdóttir Löf var fyrr í dag dæmd í 16 ára fangelsi fyrir að verða föður sínum að bana á heimili fjölskyldunnar í Garðabæ í apríl á þessu ári. Héraðsdómur Reykjaness varð hins vegar ekki við kröfu bróður hennar um að hún yrði svipt arfi eftir föður þeirra. Fram hefur komið að Margrét hafi beitt bæði föður sinn og móður langvarandi líkamlegu og andlegu ofbeldi í töluverðan tíma áður en hún varð föður sínum að bana. Fram kemur einnig í dómnum að hún hafi skrifað hundruð skilaboða til foreldra sinna sem vekja nokkurn óhug ekki síst fyrir gróft orðalag í þeirra garð.
Umræddur bróðir er hálfbróðir Margrétar, sonur föður hennar af fyrra hjónabandi. Hann krafðist þess að ákveðið yrði með dómi að systir hans hafi með drápi á föður þeirra fyrirgert sjálfri sér rétti til arfs eftir hann samkvæmt erfðalögum. Segir í dómnum að við munnlegan málflutning hafi lögmaður bróðurins vísað jafnframt til laga um meðferð sakamála til stuðnings því að bróðirinn gæti sjálfur haft uppi kröfu um sviptingu erfðaréttar, fengið hana tekna upp í ákæru og fylgt henni eftir fyrir dómi án beinnar kröfugerðar af hálfu ákæruvaldsins.
Lögmaður Margrétar krafðist þess aðallega að þessari einkaréttarkröfu bróður hennar yrði vísað frá dómi, en að því frágengnu yrði hún sýknuð af kröfunni. Vísaði lögmaðurinn til þess að aðeins væri á forræði ákæruvaldsins að krefjast sviptingar erfðaréttar með dómi og því yrði að vísa kröfunni frá.
Héraðsdómur Reykjaness segir um kröfu bróðurins að samkvæmt lögum um meðferð sakamála eigi handhafar ákæruvalds sókn sakar í öllum málum sem höfðuð séu til refsingar og til að koma fram refsikenndum viðurlögum, þar á meðal „sviptingu réttinda“. Sambærileg réttarfarsregla hafi gilt að minnsta kosti frá gildistöku laga nr. 27/1951 um meðferð opinberra mála og hafi þar verið tekið fram að handhafar ríkisvalds höfði mál til sviptingar erfðaréttar vegna brota erfingja gagnvart arfleifanda eða samerfingja.
Bendir dómurinn einnig á að í erfðalögum komi fram að hafi maður af ásetningi framið brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, sem haft hafi í för með sér dauða annars manns, megi ákveða með dómi að gerandinn hafi fyrirgert sjálfum sér til handa rétti til þess arfs, sem háður var dauða hins látna. Þessa verði hins vegar að krefjast með ákæru.
Segir jafnframt í dómnum að þótt svipting erfðaréttar sé ekki tilgreind í lögum um meðferð sakamála teljist slík svipting til refsikenndra viðurlaga við afbroti og lúti því ákvörðun ákæruvaldsins um ákæruefni. Þar með verði að líta svo á að ákæruvaldið skuli taka sjálft upp hjá sér að meta hvort krafist skuli dóms um fyrirgerð erfðaréttar á grundvelli erfðalaga og fylgja henni sjálft eftir fyrir dómi. Þar sem það hafi ekki verið gert í þessu máli en aðeins lögð fram einkarréttarkrafa þess efnis verði að vísa henni frá dómi.
Margrét verður því ekki svipt arfi eftir föður sinn, að sinni að minnsta kosti, þótt hún hafi nú hlotið dóm fyrir að verða honum að bana en fyrir liggur að faðir hennar sem vann sem tannsmiður megnið af starfsævinni var vel stæður.
Dómurinn er afar ítarlegur, um 90 blaðsíður, en auk þess sem er greint frá hér að ofan vekur athygli að Margrét níddi foreldra sína með hundruðum skriflegra skilaboða sem voru í formi handskrifaðra blaða sem fundust á víð og dreif um húsið við vettvangsrannsókn lögreglu.
Samkvæmt skýrslu lögreglumanns frá 18. júní 2025 var um að ræða orðsendingar milli Margrétar og foreldra hennar, og fundust blöðin í eldhúsi, stofu, hjónaherbergi, skrifstofu og holi hússins. Skýrslu lögreglumannsins fylgdu um 600 orðsendingar, meira og minna ódagsettar og ekki í tímaröð. Skýrslan greindi á milli orðsendinga frá hverjum heimilismanni fyrir sig. Segir í skýrslunni:
„Orðsendingar frá ákærðu til foreldra sinna eru oft á tíðum harðar og óvægnar og svör foreldranna mörg hver í bænar- og afsökunartón. Má í dæmaskyni nefna svohljóðandi skilaboð ákærðu til föður:
„Mamma frekja og tillitslausa sjálfselska helvíti verður að vera komin heim á bílnum kl. hálf 1 !!!!“ Enn fremur: „EKKI segja mömmu hvert við erum að fara … það kemur tíkinni ekki fokkings við !!!!!!“
Þá beindi ákærða svohljóðandi skilaboðum til föður eða móður: „Og getur þú DRULLAÐ þér að fara eftir einu og öllu sem stendur á miðanum helvítið þitt !!!!!! OG svo skaltu grjóthalda kjafti á morgun og passa að ég vakni ekki við neitt semþú ert að gera ógeðið þitt !!!!!!“ Enn fremur: „FOKKING HÁLFVITA FÍFL BÆÐI TVÖ!!!!““
Segir í dóminum að mörg skilaboðanna tengist aðstoð foreldranna við umönnun hesta Margrétar.
Við skýrslutökur var Margrét spurð nánar út í þessi handskrifuðu skilaboð.
Hún kvaðst ekki þekkja skrift á hverri og einni orðsendingu, en taldi þær stafa ýmist frá föður hennar eða móður. Fjölskyldan hafi verið með „skipulag“ til að minnka ágreining og í stað þess að tala hafi þau notað skriflegar orðsendingar. Í framhaldi gekkst hún við því að hafa skrifað sumar orðsendinganna, en „ekki þarna núna upp á síðkastið“.
Í annarri skýrslutöku sagði móðir Margrétar aðspurð um þennan fjölda handskrifaða samskiptaseðla sem fundust á heimili þeirra að hún og faðir Margrétar hafi átt að svara spurningum dóttur þeirra „um þetta og hitt sem hún vildi fá að vita; af hverju við gerðum þetta svona, af hverju við gerðum ekki hitt“. Margréti hafi verið illt í eyrunum heima fyrir, jafnvel fengið verki ef þau tvö hvísluðu og þess vegna hafi þau þurft að svara henni skriflega. Ef þau fylgdu ekki þeirri reglu hafi dóttir hennar orðið „ofboðslega ósátt“, brugðist illa við, því fylgt „vandamál“ og það stundum leitt til ofbeldis.