

Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, segir það koma sér spánskt fyrir sjónir að verða vitni að „súrrealískri upplýsingaóreiðu“ sem nú komi frá stjórnarandstöðunni. Hún tjaldi öllu sem til er til að selja þá lygi að ríkisstjórnin sé að stórhækka álögur á venjulegt fólk. Telur Þórður að þarna sé stjórnarandstaðan að fara eftir þeirri leikbók sem segir að ef lygi er endurtekin nægilega oft þá eigi fólk til með að trúa henni. Þetta kemur fram í grein Þórðar hjá Vísi í dag. Þórður er þar ómyrkur í máli og lýkur grein sinni á eftirfarandi:
„Allt var þetta haugalygi. Annað hvort sett fram af ásetningi eða vanþekkingu. Sem er orðið vani frekar en undantekning þegar minnihlutinn á núverandi þingi á í hlut.“
Þórður rifjar upp að rúmt ár er síðan þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri Grænna og Framsóknar lagði fram fjárlagafrumvarp undir yfirskriftinni Þetta er allt að koma. Þar var fyrirhugað að hækka skatta og gjöld um 29,8 milljarða, eða 21,5 milljarða á núvirði. Munaði þar mestu um hækkun á tekjuskatti fyrirtækja og fyrirhuguðu kílómetragjaldi.
Fjárlagafrumvarp núverandi stjórnar leggur til skattabreytingar upp á 27,9 milljarða þar sem kílómetragjald og breyting á vörugjaldi eru fyrirferðamestar. Ef horft er framhjá tekjuaukningu af hækkuðum veiðigjöldum sé núverandi stjórn að leggja til minni breytingar á sköttum og gjöldum en fyrri stjórn.
„Samt öskraði enginn Sjálfstæðismaður á sjálfan sig að hann væri að fremja skattahækkanir í fyrra. Það voru engar fyrirsagnir um slíkt í Morgunblaðinu eða Viðskiptablaðinu.“
Þrátt fyrir þetta virðist stjórnarandstaðan ekki þreytast á „skattahækkunarlyginni“. Þórður tekur fram að það liggi fyrir að flokkarnir í stjórnarandstöðu hafi fyrst og fremst áhuga á því að lækka álögur á suma vel setta með þeim afleiðingum að ríkið á erfiðara með að sinna þjónustu við alla hina. Núverandi stjórn hafi einsett sér að gera skattkerfið almennara og loka glufum fyrir vel setta. Þessir vel settu berjast nú á hæl og hnakka gegn þessum breytingum.

Nefnir Þórður sem dæmi afnám ívilnunar til handa bílaleigum, glufu sem hafi kostað ríkissjóð um tvo milljarða frá árinu 2021 og runnið beint í vasa bílaleigna.
„Minnihlutinn á Alþingi er með böggum hildar yfir því að ný ríkisstjórn vilji loka þessari skattaglufu sem hefur ekki skilað nálægt því þeim árangri sem vonast var til heldur fyrst og síðast styrkt rekstur bílaleiga.“
Annað dæmi sé uppþot andstöðunnar um erfðafjárskatt. Því var haldið fram að til stæði að hækka erfðaskattinn. Hið rétta er að fjárlög gera ráð fyrir auknum tekjum þar sem fyrirframgreiðsla arfs hefur aukist mikið. Skattprósentan sjálf verður óbreytt.
Stjórnarandstaðan hafi svo reynt að sannfæra landsmenn um að nú ætti að taka af sambúðarfólki réttinn til að samnýta persónuafslátt. Þetta sé enn ein haugalygin enda felist breytingin í því að afnema tvöfaldan skattaafslátt fjármagnseigenda sem geta nýtt sér bæði persónuafslátt og frítekjumark til frádráttar frá skatti.
„Þarna er um aðgerð að ræða sem snertir einungis ríkasta fólk landsins, pinkulítinn hóp sem á mjög mikið. Allt launafólk mun áfram sem áður geta nýtt sinn persónuafslátt að fullu.“
Þórður segir að það hafi svo verið kostulegt að sjá stjórnarandstöðuna í áróðri sínum gegn kílómetragjaldinu. Fyrst var það kallaður barnaskattur, en þegar það virkaði ekki var farið að kalla gjaldið aðför að seinfæru fólki og eldri borgurum þar sem það sé flókið að greiða gjaldið. Þórður bendir á að kílómetragjald hefur nú þegar verið innheimt vegna rafbíla í næstum tvö ár og það gengið áfallalaust fyrir sig.
Framkvæmdastjórinn nefnir fleiri dæmi um lygar, þar með talið þá svæsnustu að mati Þórðar.
„Minnihlutinn á Alþingi reyndi að kalla afnám á samnýtingu skattþrepa, sem snertir einungis sex prósent tekjuhæstu landsmanna, sem afnám samsköttunar á alla. Það var sögnin sem hann vildi ná inn í kaffistofur landsmanna.
Svæsnast af öllu var svo tilraunin til að selja réttarbót, sem hefur engin tekjuaukandi áhrif á Alþingi, sem vegferð ríkisstjórnarinnar til að gera fólki „nánast ómögulegt að fá endurgreiddan skatt“.“