

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, hefur ákveðið að ganga í Samfylkinguna. Frá þessu var greint á blaðamannafundi rétt í þessu. Hún segist bera sterkar taugar til Pírata en tímarnir breytist og mennirnir vel. Hana langi til að taka þetta skref út frá eigin pólitískri sannfæringu. Hún segist gera þetta í sátt við fyrrum félaga í Pírötum og mun Alexandra Briem taka við sem oddviti borgarstjórnarflokks Pírata.
Dóra segist líta upp til Jóhönnu Sigurðardóttur og að hún hlakki til að vinna fyrir Samfylkingu Kristrúnar Frostadóttur auk þess sem hún beri mikla virðingu fyrir oddvita borgarstjórnarflokks Samfylkingar, Heiðu Björg Hilmisdóttur borgarstjóra.
Heiða Björg fagnar liðsaukanum og segir að þetta breyti ekki samsetningu meirihlutans, áfram sé sami hópurinn að vinna saman að einurð að gera borgina betri. Ákvörðun um tilfærsluna var tekin í gær, engin átök áttu sér stað og allt gert í sátt.
„Ég vona að þetta verði heillaskref, bæði fyrir Samfylkinguna og fyrir Dóru Björt og fyrir okkur öll og hef engar ástæður til þess að ætla annað. Við höldum áfram á sömu braut að gera borgina okkar betri fyrir okkur öll til að tryggja jöfnuð og jöfn tækifæri.“
Dóra Björt vildi ekkert gefa upp með sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Hún segist hafa verið komin á þann stað fyrir nokkru síðan að hún væri ekki viss um að Píratar og hún ættu samleið. Hún bauð sig fram til formennsku í Pírötum í von um að færa flokkinn á aðrar slóðir, en bakkaði svo með það þegar hún sá að það var ekki einhugur um það hjá Pírötum.
Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar víkur úr borgarráði fyrir Dóru Björt. Heiða segir að þetta hafi verið gert í mesta bróðerni. Alexandra Briem tekur við sem formaður borgarráðs og Dóra Björt tekur við af Alexöndru sem formaður í stafrænu ráði.