fbpx
Þriðjudagur 16.desember 2025
Fréttir

Dánarbú blindrar og fjölfatlaðrar konu þurfti að borga Tryggingastofnun – Hafði ekki hugmynd um skuldina

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 16. desember 2025 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest kröfu Tryggingastofnunar á hendur dánarbúi vegna ofgreidds lífeyris en krafan var upphaflega hátt í ein milljón króna. Um er að ræða dánarbú konu sem var blind og þar að auki fjölfötluð og bjó í þjónustuíbúð en undir lokin á hjúkrunarheimili. Kemur fram í úrskurði nefndarinnar að konan hafi búið yfir mjög takmarkaðri vitneskju um fjármál sín, vegna bágrar heilsu sinnar og aðstæðna, og hafi áður en hún lést ekkert verið meðvituð um kröfu stofnunarinnar en hún var send til einstaklings sem hafði áður verið með umboð fyrir hönd konunnar en gerði að sögn ekkert í málinu. Fullyrtu aðstandendur konunnar að hún hafi ekki gert sér grein fyrir að hún hefði veitt viðkomandi ótímabundið umboð.

Það kemur ekki fram í úrskurðinum hvenær konan lést en á árunum 2023 og 2024 fékk hún greiddar tekjutengdar bætur frá stofnunni. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, í maí 2024, var henni tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör greiðslna ársins 2023 hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 639.435 krónur að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með öðru bréfi í maí 2025 var tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör ársins 2024 hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 298.994 kr.

Þegar seinna bréfið barst virðist konan hafa verið látin en í sama mánuði fór dánarbú hennar fram á niðurfellingu krafnanna en stofnunin hafnaði því í júní 2025 á þeim forsendum að kröfurnar væru réttmætar og að skilyrði reglugerðar, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, um alveg sérstakar aðstæður væru ekki fyrir hendi.

Í kjölfarið kærði dánarbúið málið til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Vanræksla

Kæran byggði einkum á því að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi vegna vegna mjög bágra félags- og heilsufarslegra aðstæðna hinnar látnu og vegna þess að hún hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Auk þess hafi Tryggingastofnun sýnt vanrækslu vegna vitlausrar skráningar umboðsmanns.

Kom fram í kærunni að Tryggingastofnun hefði komið því á framfæri að dánarbúið  hefði „fjárhagslegt bolmagn til að geta greitt ofgreiðslukröfuna“ en í kærunni var bent á að í áðurnefndri reglugerð væri ekkert minnst á að sérstakar aðstæður og alger skortur á fjárhagslegu bolmagni yrðu bæði vera fyrir hendi til að fallið yrði frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Tryggingastofnun hefði ekkert skoðað félagslegar aðstæður konunnar.

Eiginmaður konunnar hafi fallið frá 2023 og eftir það hafi hún setið í óskiptu búi. Eftir það hafi mikil skuldasöfnun hafist sem hún hafi aldrei verið upplýst um. Fullyrt var enn fremur í kærunni að afar bágar félagslegar aðstæður konunnar hafi gert það að verkum að hún hafi ekki vitað að hún hafi skuldað. Það sé mat dánarbúsins að hún hafi verið svikin af þjónustuíbúðunum þar sem hún bjó og forstöðumanni þeirra og umboðsmanni konunnar sem hafi ekki gætt hagsmuna hennar gagnvart Tryggingastofnun þrátt fyrir að hann hafi skrifað undir skjal þess efnis.

Fjölfötluð

Kom enn fremur fram í kærunni að síðan hafi bæst 147.564 krónur við. Eftir að konan hafi verið flutt á hjúkrunarheimili haustið 2024 hafi fjárhæðin verið dregin af henni yfir þriggja mánaða tímabil. Hún hafi ekki vitað af þessum frádrætti. Aðstæður hennar hafi verið svo slæmar félagslega og heilsufarslega og fallið því undir ákvæði reglugerðarinnar um „alveg sérstakar“ aðstæður og því heimilt að fella kröfuna niður.

Konan, sem hafi verið lögblind, fjölfötluð, lyfjuð og tvímælalaust með elliglöp, hafi verið vanrækt af þeim aðilum sem hafi átt að fylgjast með. Það hafi varla farið fram hjá neinum að hún hafi ekki verið með sín mál á hreinu. Hún hafi verið með mjög takmarkað tengslanet og hinir fáu aðstandendur hennar flestir búið erlendis.

Samkvæmt kærunni kom það aðstandendum konunnar algerlega í opna skjöldu þegar upplýst var um skuldina eftir andlát hennar.

Umboð

Deilt var einnig á það í kærunni að forstöðumaður þjónustuíbúðanna þar sem konan bjó hafi, eftir andlát eiginmanns hennar, vísað konunni á tiltekinn amnn með það að augnamiði að hann skyldi aðstoða hana við að sækja um heimilisuppbót, og ganga frá ýmsum málum. Konan hafi treyst forstöðumanninum og þar af leiðandi þessum manni. Konan hafi tjáð stjúpdóttur sinni að hún og maðurinn hafi komist að samkomulagi um að hann myndi „aðstoða hana“ við þessi mál en við stjúpdótturina hafi hún nefnt að hvorki hafi þurft umboð né annað formlegt leyfi

Fullvíst væri að konan hafi ekki vitað að maðurinn myndi vera umboðsmaður hennar uns hún myndi afturkalla umboðið sjálf. Stjúpdóttirin væri sannfærð um að hún hafi ekki verið meðvituð um eðli og gildi þessa umboðs en í umræðum þeirra um fjármál konunnar hafi þetta ekkert borið á góma.

Konan hafi verið svikin af hinu opinbera og ekki upplýst að fullu um það sem hún hafi verið látin skrifa undir. Brotið hafi verið á réttindum hennar sem aldraðrar og fatlaðrar manneskju.

Skilningur konunnar hafi verið að umrætt umboð myndi bara gilda vegna umsóknarinnar um heimilisuppbót en ekki ótímabundið.

Vildi ekki angra

Fullyrt var einnig í kærunni að umræddur umboðsmaður hafi tjáð syni stjúpdótturinnar að hann hafi allar götur síðan fengið póst tengdan konunni á borð við greiðsluyfirlit, ofgreiðslukröfur o.s.frv. sendan í pósthólf sitt á Ísland.is. Samt sem áður hafi hann ekki viljað „angra“ hana með því að láta hana vita af því að hann væri enn umboðsmaður hennar.

Tryggingastofnun hafi fyrst upplýst að maðurinn hefði umboð fyrir hönd konunnar gagnvart stofnuninni en síðan breytt skýringum sínum og sagt um mistök að ræða sem konan og hennar aðstandendur bæru ábyrgð á. Vanræksla stofnunarinnar hefði orðið til þess að ókunngur maður hefði fengið upplýsingar um hennar mál. Hún hafi ekki verið meðvituð um og ekki upplýst af umboðsmanninum um að hún yrði að skila nýrri tekjuáætlun til Tryggingastofnunar eftir andlát eiginmannsins þar sem hún sæti í óskiptu búi.

Konan hafi ekki fengið neinn bréfpóst frá stofnuninni og fyrst hún hafi engu svarað rafrænum bréfum væri alveg ljóst hversu bágar aðstæður hennar hafi verið. Hafi póstur borist til hennar hafi enginn lesið hann fyrir hana enda hún verið lögblind. Allur gangur hafi verið á því hvort hún hafi yfirhöfuð fengið póst sem henni barst í þjónustuíbúðina og síðar hjúkrunarheimilið. Á fyrrnefnda staðnum hafi hún fengið afar slæma þjónustu. Konan hafi verið veik, lyfjuð og þjáðst af andlegri vanlíðan og elliglöpum, hafi fjölmargir starfsmenn þjónustuíbúðanna verið orðnir svo leiðir á henni að þeir hafi hunsað hana kerfisbundið.

Fullyrðingar Tryggingastofnunar um að konan hafi fengið aðstoð við athafnir daglegs lífs og því átt að vera fær um að átta sig á að hún skuldaði stæðust ekki. Í ljósi aðstæðna hennar og að hún hafi verið í góðri trú yrði að fella skuldina niður.

Ekki heimilt

Í andsvörum Tryggingastofnunar kom fram að eftir endurreikning hafi skuldin vegna áranna 2023 og 2024 lækkað í um 790.000 krónur sem dánarbúið hafi þegar greitt. Rakið var að marg sinnis hefðu konunni verið send bréf í gegnum Ísland.is en minnst á andsvör aðstandenda hennar um að hún hafi ekki haft neinn aðgang að neti eða verið með rafræn skilríki.

Stofnunin sagði að henni bæri skylda samkvæmt lögum að endurheimta ofgreiddar bætur og ekki hafi verið heimilt að líta framhjá auknum tekjum konunnar samkvæmt skattframtali.  Engin formleg kvörtun eða beiðni um leiðréttingu virðist hafa verið gerð á meðan hún lifði. Um hafi verið að ræða lögráða einstakling sem hafi borið ábyrgð á því að tekjuáætlun endurspegli rauntekjur og bæri samkvæmt almennum reglum að endurgreiða ofgreiðslukröfu sem myndaðist vegna rangrar tekjuáætlunar. Þrátt fyrir að aðstæður hinnar látnu þættu af lýsingum að dæma hafa verið erfiðar þá væru þær ekki það sérstæðar að þær réttlættu niðurfellingu.

Þrátt fyrir að umboð umboðsmannsins hafi verið ranglega skráð sem ótímabundið í kerfi Tryggingastofnunar, hafi sú skráning ekki virst hafa haft áhrif á mat á sérstökum aðstæðum. Engin merki væru um um að röng skráning umboðs hafi verið orsök ofgreiðslukröfu. Tilkynningar hafi verið sendar í stafrænt pósthólf hinnar látnu, sem hafi borið ábyrgð á að tekjuáætlun væri rétt skráð. Þá hafi hin látna einnig borið ábyrgð gagnvart Tryggingastofnun á athöfnum eða athafnaleysi umboðsmanns síns.

Ákvæði reglugerðarinnar um að sérstakar aðstæður yrðu að vera fyrir hendi ef fella ætti niður endurgreiðslukröfu yrði að túlka þröngt og því ætti það ekki við um aðstæður konunnar.

Stendur

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála segir að ljóst sé að krafa Tryggingastofnunar sé tilkomin þar sem lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur konunnar hafi ekki verið í samræmi við tekjuáætlanir áranna 2023 og 2024 og konan því fengið hærri ellilífeyri frá Tryggingastofnun en hún hafi átt rétt á.

Nefndin tekur undir með dánarbúinu og aðstandendum konunnar að hún hafi verið í góðri trú um að hún skuldaði ekki neitt og ekki fengið of mikið greitt en það eitt og sér dugi ekki til að fella skuldina niður.

Skoða verði hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður hennar gefi tilefni til niðurfellingar. Ljóst sé að félagslegar aðstæður konunnar hafi verið nokkuð bágar. Hins vegar hafi nægar eignir verið til staðar í dánarbúinu til þess að greiða skuldina. Samkvæmt meginreglu laga um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og beri að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt.

Niðurstaða Tryggingastofnunar stendur því óhögguð og dánarbúið þarf því að borga og þar sem það hefur nú þegar gert það þýðir þetta væntanlega að það fær ekki endurgreitt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Sakar Sjálfstæðismenn um hræsni og segir að af öllum lygum stjórnarandstöðunnar sé þessi sú svæsnasta

Sakar Sjálfstæðismenn um hræsni og segir að af öllum lygum stjórnarandstöðunnar sé þessi sú svæsnasta
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“
Fréttir
Í gær

Fór inn í kvennabúningsklefa í Sundhöllinni og handlék kynfæri sín fyrir framan stúlku í sturtu

Fór inn í kvennabúningsklefa í Sundhöllinni og handlék kynfæri sín fyrir framan stúlku í sturtu
Fréttir
Í gær

Hundur Margrétar lifir enn – „Mér er haldið í hengingaról“

Hundur Margrétar lifir enn – „Mér er haldið í hengingaról“
Fréttir
Í gær

Harpa hvetur fólk til að sleppa hamborgarhryggnum um jólin

Harpa hvetur fólk til að sleppa hamborgarhryggnum um jólin
Fréttir
Í gær

Morðið á Rob Reiner og eiginkonu hans – „Fjölskyldumeðlimur“ yfirheyrður

Morðið á Rob Reiner og eiginkonu hans – „Fjölskyldumeðlimur“ yfirheyrður
Fréttir
Í gær

Þegar lífið fer á bið á „bestu árum ævinnar“

Þegar lífið fer á bið á „bestu árum ævinnar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“

„Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“