fbpx
Þriðjudagur 16.desember 2025
Fréttir

Verulega ósátt við Heiðu – Segja hana hafa breytt reglum upp á sitt eindæmi

Ritstjórn DV
Mánudaginn 15. desember 2025 12:30

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fulltrúar úr minnihluta borgartjórnar Reykjavíkur lýsa yfir verulegri óánægju með að Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri hafi upp á sitt eindæmi breytt reglum um aðgang borgarfulltrúa að opinberum móttökum Reykjavíkurborgar og með því takmarkað þennan aðgang þannig að hann gildi ekki lengur fyrir alla borgarfulltrúa í hvert sinn.

Málið var rætt á fundi forsætisnefndar fyrir helgi en þá var rætt svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins frá í október 2024. Í fyrirspurninni var óskað eftir upplýsingum um hverjir hefðu fengið boð í verðlaunaafhendingar og viðburði á vegum Reykjavíkurborgar og hvernig það sé ákvarðað.

Svarið er frá október á þessu ári. Þar segir að gestalisti í opinberar móttökur Reykjavíkurborgar miðist í dag við fulltrúa í borgarráði, borgarritara og fulltrúa þeirra ráða og sviða borgarinnar sem tengist viðfangsefni móttökunnar. Áður hafi verið aðal borgarfulltrúum, fyrstu varaborgarfulltrúum, embættismönnum og sviðstjórum boðið en með núverandi fyrirkomulagi sé talið að gestalistinn endurspegli betur hverja móttöku fyrir sig og þann málaflokk sem um ræði.

Fulltrúar meirihlutans í forsætisnefnd eru úr Pírötum, Sósíalistaflokki Íslands og Flokki fólksins. Í bókun þeirra er vitnað í svar skrifstofunnar en þar segir einnig að forsætisnefnd telji eðlilegt að ræða og skoða þetta verklag nánar.

Óásættanlegt

Það kemur ekki fram hvenær umræddar breytingar voru gerðar á aðgangi borgarfulltrúa að móttökum borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í forsætisnefnd lýsa hins vegar yfir mikilli óánægju með þær í bókun sinni.

Segir í bókuninni einkennilegt og óásættanlegt sé að borgarstjóri hafi ákveðið, upp á sitt eindæmi, að takmarka aðgang borgarfulltrúa að opinberum móttökum Reykjavíkurborgar, þar á meðal verðlaunaafhendingum. Reykjavíkurborg sé fjölskipað stjórnvald þar sem borgarstjórn starfi sem ein heild og séu móttökur haldnar fyrir hönd allrar borgarstjórnar, ekki einstakra stjórnenda. Samkvæmt samþykktum borgarinnar beri forsætisnefnd ábyrgð á yfirumsjón móttaka og því sé óeðlilegt að borgarstjóri taki slíkar ákvarðanir án þess að upplýsa nefndina eða kalla eftir afstöðu hennar.

Verðlaun og viðurkenningar séu veitt af allri borgarstjórn, jafnvel þótt borgarstjóri afhendi þau formlega. Það réttlæti ekki að takmarka aðkomu kjörinna fulltrúa að slíkum viðburðum og ekki verði séð að um sparnað sé að ræða. Málið snúist ekki um að einstaka fulltrúar sæki móttökur, heldur ásýnd borgarstjórnar út á við og virðingu við þá einstaklinga og hópa sem hljóti verðlaun frá borginni. Slíkir viðburðir séu ekki einkamál embættismanna heldur formleg framsetning borgarinnar, þar sem viðvera kjörinna fulltrúa skipti máli. Framganga borgarstjóra í þessu máli veki áhyggjur af meirihlutaræði og skorti á gegnsæi í stjórnsýslu borgarinnar og grafi undan trausti og samstöðu innan borgarstjórnar.

Ábyrgð

Áðurnefndir fulltrúar meirihlutaflokkanna vísuðu þá í reglur um opinberar móttökur Reykjavíkurborgar sem samþykktar voru í forsætisnefnd í júní 2019 ásamt vinnulýsingu skrifstofu borgarstjóra og borgarritara varðandi opinberar móttökur Reykjavíkurborgar frá ágúst 2019.

Minntu meirihlutaflokkarnir á ákvæði 1. greinar reglanna þar sem segir að opinberar móttökur borgarstjórnar séu á ábyrgð skrifstofu borgarstjórnar og opinberar móttökur borgarstjóra séu á ábyrgð skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Unnið sé síðan eftir hinni samþykktu vinnulýsingu um ákvörðun og framkvæmd opinberra móttaka.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins svöruðu með nýrri bókun og sögðu meirihlutann vissulega vitna rétt í 1. greinina en minntu á að í 4. grein reglanna segir:

„Gestgjafar í opinberum móttökum eru borgarstjóri, forseti borgarstjórnar, formaður borgarráðs, borgarfulltrúar eða staðgenglar þeirra.“

Í kjölfarið var lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um umræðu um móttökur Reykjavíkurborgar og boðun í þær. Tillagan var samþykkt en ekki kemur fram í fundargerð forsætisnefndar hvort umræðan fari fram síðar eða hvort umræðan fór strax fram. Hafi svo verið er engrar niðurstöðu úr umræðunni getið í fundargerðinni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“

„Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“
Fréttir
Í gær

Auður stígur til hliðar úr Gímaldinu

Auður stígur til hliðar úr Gímaldinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir ábendingahnapp hjá Borgarholtsskóla notaðan til að koma á framfæri nafnlausu níði um kennara

Segir ábendingahnapp hjá Borgarholtsskóla notaðan til að koma á framfæri nafnlausu níði um kennara
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tölvuþrjótum tókst að afrita gögn – Hafa ekki birt þau eða hótað birtingu

Tölvuþrjótum tókst að afrita gögn – Hafa ekki birt þau eða hótað birtingu