
Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni varar við því í umsögn um frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki að það geti valdið miklum vandræðum við innheimtu gjaldsins að margir eldri borgarar eigi hvorki tölvur né kunni mikið á slík tæki. Segir í umsögninni að þessi hópur geti þar af leiðandi verið fljótur að lenda í hárri skuld vegna kílómetragjaldsins.
Frumvarpið er nú til meðferðar á Alþingi. Samkvæmt því á að leggja visst gjald á hvern ekinn kílómetra, sem ökutæki er ekið, en upphæð þess fer eftir þyngd gjaldskyldra ökutækja. Til að hægt sé að fylgjast með því hversu marga kílómetra er ekið eiga umráðamenn ökutækja, samkvæmt frumvarpinu, að skrá rafrænt stöðu akstursmælis gjaldskylds ökutækis en skráning á að fara fram að lágmarki einu sinni á hverju almanaksári. Skráningu skuli framkvæma af gjaldskyldum aðila á því formi sem ríkisskattstjóri ákveði eða hjá faggiltri skoðunarstofu ökutækja. Skráning skuli einnig ávallt eiga sér stað við reglubundna skoðun ökutækis.
Væntanlega er Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni að vísa til þessara ákvæða frumvarpsins um rafræna skráningu en í umsögn þess segir að mikilvægt sé að tekið verði tillit til stöðu eldri borgara sem hafi takmarkaða tölvuþekkingu. Þessi hópur átti sig ekki á að það verði að skrá kílómetratölur a.m.k. árlega og hvernig skráningin fari fram.
Margir eldri borgarar eigi ekki tölvur eða snjallsíma og fari aldrei inn á Ísland.is. Þá um leið sé þetta fólk ekki með tölvupóstföng. Hætta sé þess vegna á að það fái tuga þúsunda króna kröfur. Öll „óvænt“ útgjöld komi illa við eldri borgara þar sem eftirlaunin séu af skornum skammti.
Félagið vekur athygli á að eldra fólk er almennt tekjulægst og sé líklegra til að eiga minni og eldri ökutæki. Kílómetragjaldið stefni í að leggjast þungt á fólksbifreiðar óháð þyngd og styðji síður við tekjulága. Bifreiðagjaldið leggi hlutfallslega hæst á lítið ekin ökutæki og þau séu að stórum hluta í eigu eldri borgara. Félagið skorar á stjórnvöld að huga vel að þessum þáttum.
Samkvæmt frumvarpinu yrði lægsta gjaldið á gjaldskyld ökutæki sem eru 0-3.500 kíló að þyngd, 6,95 krónur á hvern kílómetra, en flestir fólksbílar ættu að falla í þann flokk.
Í 15. grein frumvarpsins er þó að finna ákvæði um að ávallt sé heimilt að skila inn upplýsingum og gögnum skriflega á því formi sem ríkisskattstjóri ákveði. Gjaldskyldum einstaklingi eða umboðsmanni hans verði jafnframt heimilt að óska eftir skráningu á stöðu akstursmælis ökutækis hjá faggiltri skoðunarstofu ökutækja í stað rafrænnar skráningar á stöðu akstursmælis. Faggilt skoðunarstofa skuli skrá stöðu akstursmælis eftir beiðni einstaklings eða umboðsmanns hans.
Í breytingartillögu meirihluta efnahags og viðskiptanefndar Alþingis er hins vegar bent á að í 7. grein sé að finna ákvæði um að ríkisskattstjóra sé heimilt að skrá stöðu akstursmælis samkvæmt beiðni gjaldskylds aðila vegna skráningarskekkju ef óviðráðanleg atvik eða aðrar gildar ástæður að mati ríkisskattstjóra standi í vegi fyrir skráningu á stöðu akstursmælis. Meirihlutinn segir að þessari heimild sé þannig einungis ætlað að taka til aðstæðna þar sem einstaklingur geti ekki ekki nýtt sér rafræna þjónustu, án þess að vikið sé frá þeirri meginstefnu að samskipti við stjórnvöld fari fram á stafrænan hátt. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sé tekið undir með Skattinum að í framkvæmd myndi 15. grein frumvarpsins í raun skylda ríkisskattstjóra til að skrá stöðu akstursmælis hvenær sem væri, án tillits til þess hvort skilyrði um óviðráðanleg atvik eða gildar ástæður væru fyrir hendi, andstætt tilgangi áðurnefnds ákvæðis.
Meirihlutinn bendir einnig á að í 7. grein sé kveðið á um heimild til að skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu ökutækja eða öðrum álestraraðila og þar með sé ákvæði 15. greinar um að faggilt skoðunarstofa skuli skrá stöðu akstursmælis eftir beiðni einstaklings eða umboðsmanns hans óþarft. Því leggur meirihlutinn til að 15. grein verði í heild sinni felld brott úr frumvarpinu.
Það virðist því sem svo að meirihlutinn telji að með þessu sé tryggt að þau sem geti ekki nýtt sér rafræna skráningu í eigin tækjum muni geta skráð aksturinn í samræmi við ákvæði frumvarpsins.