

Rob var 78 ára en Michele 68 ára og var það dóttir þeirra Romy, sem býr skammt frá þeim, sem kom að þeim látnum. Heimildir TMZ herma að hjónin hafi verið skorin á háls.
Í frétt TMZ kemur fram að lögregla telji að morðin hafi átt sér stað eftir einhvers konar rifrildi hjónanna við ónefndan fjölskyldumeðlim. Bandaríska blaðið People greindi frá því í morgun að sonur hjónanna, Nick, lægi undir grun hjá lögreglu.
TMZ hefur eftir heimildum sínum að Romy, sem kom að foreldrum sínum látnum, hafi bent lögreglu á fjölskyldumeðliminn sem væri „hættulegur“ og lögregla ætti að leggja áherslu á að ræða við hann.
Lögregla var kölluð að heimili hjónanna um klukkan 15:30 að staðartíma í gær, eða klukkan 23:30 að íslenskum tíma í gærkvöldi. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang voru hjónin látin.
Rob og Michele gengu í hjónaband árið 1989, en þau kynntust við tökur á myndinni When Harry Met Sally sem Rob leikstýrði.
Rob fæddist í New York árið 1947 og átti hann mjög svo farsælan feril sem leikari, leikstjóri og handritshöfundur.
Hann leikstýrði myndunum This is Spinal Tap, Stand by Me, The Princess Bride, When Harry Met Sally, Misery og A Few Good Men svo einhverjar séu nefndar. Var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir A Few Good Men. Þá lék hann einnig talsvert, bæði í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.