

Greint var frá því í nótt að hjónin hefðu verið með stunguáverka og lögregla gangi út frá því að um morð hafi verið að ræða. Það var dóttir hjónanna, Romy, sem býr skammt frá þeim, sem kom að þeim látnum. Auk Romy áttu þau synina Nick og Jake.
Daily Mail greindi frá því í morgun að „fjölskyldumeðlimur“ hefði verið kallaður til yfirheyrslu vegna málsins en segir ekki hver það er. Vefmiðillinn People segir hins vegar að um sé að ræða son þeirra, Nick, sem er 32 ára. Kveðst miðillinn hafa það eftir heimildum úr mörgum áttum.
Nick hefur áður talað um baráttu sína við eiturlyfjafíkn og þá reynslu að vera heimilislaus.
Rob Reiner var 78 ára þegar hann lést en Michele 68 ára. Rob fæddist í New York árið 1947 og átti hann mjög svo farsælan feril sem leikari, leikstjóri og handritshöfundur.
Hann leikstýrði myndunum This is Spinal Tap, Stand by Me, The Princess Bride, When Harry Met Sally, Misery og A Few Good Men svo einhverjar séu nefndar. Var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir A Few Good Men.
Þá lék hann einnig talsvert, bæði í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.