
Enn vofir yfir Margréti Víkingsdóttir hætta á því að hundurinn hennar, Úlfgrímur, sem er síðhærður Schäfer-hundur, verði tekinn af lífi.
Við greindum frá því 4. desember að Margrét hefði fengið bréf frá lögfræðingi MAST þar sem þess er krafist að hundurinn verið aflífaður vegna lélegs heilsufar, nema Margrét geti sýnt fram á eitthvað annað, t.d. rannsóknir sem styðji mögulega meiri meðhöndlun.
Þess má geta að hundurinn Úlfrímur bjargaði lífi Margrétar og fleiri er hann gerði viðvart um eldsvoða í húsi að Amtmannsstíg þar sem þau búa. Hundaræktunarfélag Íslands útnefndi hann Björgunarhund ársins 2024 fyrir þetta afrek. Hann gengur einnig undir heitinu M.R. hundurinn þar sem hann er vinsæll meðal nemenda M.R. en menntaskólinn er í næsta nágrenni við húsið.
Aðdragandinn að lógunarmálinu var sá að vegfarandi kvartaði undan því að hundurinn væri úti í bandi fyrir utan heimili Margrétar. Kom það til af því að Margrét neyddist til að flytja út af heimili sínu við Amtmannsstíg vegna reykskemmda sem urðu þar er kviknaði í íbúðinni fyrir neðan hana. Þurfti hún að hafast við í kjallararými hússins og þaðan leitaði hundurinnn út í garð. Margrét skilur ekki þessar kvartanir vegna þess að hundurinn hafi verið á hennar lóð og ekki verið til ama.
Margrét segir við DV að fullrúar frá MAST sem mættu á vettvang hafi ekki mætt hlýlegu viðmóti hennar og hún upplifir kröfuna um lógun hundsins sem hefndaraðgerð:
„Þau eru bara fúl af því að ég sagði þeim að fara til fjandans! Ég var að drepast í mjöðminni, á leið í mjaðmaskiptaaðgerð og stóðu þau hér fyrir utan og þrösuðu og þrösuðu.“
Hún ekkert ama að hundinum nema gigt og fráleitt sé að lóga honum:
„Það er ekkert að hundinum. Hann er bara með smá gigt og gerir allt, hleypur og leikur sér og fær verkjastillandi stungulyf við gigt, einu sinni í mánuði síðan í maí 2025.“
Góðu fréttirnar eru þær að hundinum hefur ekki verið lógað en Margrét sendir reglulega MAST vottorð dýralæknis um ástand hans. Hún telur upptök málsins ekki vera málefnaleg:
„Mér er haldið í hengingaról. Ég þarf að sýna fram á að hann sé í meðferðum og sýna fram á bata á mánaða fresti. Hundurinn var í meðferð löngu áður en MAST fór að skipta sér af. Þetta byrjaði bara með að hann var í taumi hér fyrir utan opnar dyr, þegar ég bjó í kjallaranum eftir brunann. Þau komu hér þrjú og höfðu fengið klögumál frá afskiptasömum vegfaranda. Ég vildi ekkert hlusta á þau og bað þau að skipta sér ekki af og koma sér í burtu og væri hundurinn inn á minni lóð við opnar dyr og gæti farið inn þegar hann vildi. Þá fauk í þau og þau hreyttu út úr sér að þetta gæti þá farið í lögfræðing. Þá breyttist allt í einu, úr að hann var í taumi úti, í að það þyrfti að lóga honum. Þetta var bara bein hótun og snérist upp í valdníðslu og einelti. Það sjá allir að þetta mál er ekkert eðlilegt.“
Hún segir enn fremur:
„Ég sendi núna fyrir stuttu plan frá dýrasjúkraþjálfara og er það fyrir tvo næstu mánuði, þá verður endurmetið hvort þurfi að lóga honum.“