

Harpa byrjar grein sína á að vísa í atvik sem varð nýlega þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti kallaði blaðakonu „svínku“. Hún segir að femínistar og annað rétthugsandi fólk hafi veinað eins og stungnir grísir við þessi ummæli forsetans.
„Orðatiltækið að veina eins og stunginn grís er ekki úr lausi lofti gripið. Örvæntingarkveinin og skelfingaröskrin sem berast frá sláturhúsum þegar verið er að slátra svínum eru að sögn svo hryllileg að þau fá blóðið til að frjósa í æðum þeirra sem á hlusta. Fyrrverandi sláturhúsastarfsfólk hefur lýst áfallastreitu og sárum á sálinni eftir aðfarirnar. Í dag sendum við svín í gasklefana þar sem þau upplifa óbærilegan ótta, streitu og sársauka.“
Sjá einnig: Óskar hvetur fólk til að hafa ekki hamborgarhrygg á jólunum – Minnst viðeigandi jólamaturinn
Harpa segir að Trump tali af jafn mikilli vanvirðingu um fólk og við tölum um svín. Bendir hún á að í tungumálinu séu margir af okkar ljótustu eiginleikum yfirfærðir á svín. Til dæmis orð eins og græðgi, stjórnleysi, frekja og sóðaskapur svo nokkur séu nefnd.
„Þó svín séu auðvitað ekki nákvæmlega eins og við mannfólkið þá eru þau í raun mjög svipuð okkur. Of svipuð okkur til að hægt sé með nokkrum hætti að réttlæta meðferðina á þeim. Svín geta þróað með sér geðsjúkdóma sem eru sláandi líkir þeim sem hrjá okkur og þau bregðast við sömu geðlyfjum. Hægt er að græða líkamshluta úr svínum í fólk. Svín hafa greind á við þriggja ára mannsbörn og eru með greindustu dýrum jarðar. Þau eru forvitin, þrjósk, sjálfstæð og viljasterk. Þau hafa lífsvilja og eðli sem fær enga útrás,“ segir Harpa og bætir við:
„Við sussum líka á svín. Með því að fela þau inni í verksmiðjubúum þar sem þau þjást ævilangt við meiri firringu en við getum gert okkur í hugarlund. Við neitum þeim um náttúruna, eðlilegt atferli þeirra og einhvers konar líf sem húsdýr í hefðbundnum búskap fá þó að njóta. Það sem við skömmtum þeim af heiminum rúmast inni í einni kuldalegri skemmu með steinsteyptu gólfi. Ég ætlaði að skrifa að þar fengju þau einungis að ferðast innanhúss en það á auðvitað bara við um þau sem ekki eru föst í gotstíum. Þau kvendýr fá ekki einu sinni að hreyfa sig úr stað.“
Hún bendir á að þegar grísar verða eirðarlausir og örvæntingarfullir af inniveru, tilbreytingarleysi og leiðindum fari þeir að naga halann á hvor öðrum.
„Þá er sussað á þá með því að klippa halana af þeim. Þessir forvitnu litlu bleiku hvolpar fá aldrei að líta glaðan dag. Í eina heiminum sem þeir fá að kynnast er ekkert við að vera. Það eru engar brekkur til að rúlla sér niður (eitthvað sem þeim finnst gaman að gera), ekkert nýtt og spennandi að sjá, skoða og rannsaka. Engin huggun og ekkert hlýtt og notalegt. Ekki einu sinni mamma en henni kynnast þeir í gegnum rimla gotstíunnar.“
Harpa segir að svín séu tilfinningaverur sem geta fundið til gleði, sorgar, örvæntingar, andlegs sársauka, ótta, einmanaleika, samkenndar og söknuðar eins og mannfólkið. Bendir hún á að þau búi yfir sjálfsmeðvitund og rökhugsun og hafi sinn eigin einstaka persónuleika. Þá sé þeim alls ekki sama um örlög sín.
„Svín í verksmiðjubúskap fá aldrei hvíld og upplifa ekki eina einustu sólarstund í lífinu. Andstaða við verksmiðjubúskap þarf ekki að vera vegan og andstaða við verksmiðjubúskap þarf ekki að vera andstaða við hefðbundinn búskap.“
Í lok greinar sinnar segir Harpa að Samtök um dýravelferð á Íslandi hvetji fólk til að sleppa hamborgarhryggnum þessi jól.
„Með því að hafna kjöti sem verður til við óásættanlegar aðstæður fá framleiðendur skýr skilaboð um að hverfa til búskapar þar sem betur er búið að dýrunum. Enginn á að vera hryggur um jólin.“