

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Samhjálpar, tók til starfa í janúar á þessu ári. Rúna, eins og hún er alltaf kölluð, á að baki fjölbreyttan feril í atvinnulífinu og kemur það Samhjálp sannarlega til góða því viljinn og löngunin til að bæta líf fólks hefur ætíð ráðið för í starfsvali hennar.
Rúna er í viðtali við Steingerði Steinarsdóttur í jólablaði Samhjálpar.
Rúna starfaði sem aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, frá janúar 2022 og var fyrir þann tíma framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands um fimm ára skeið. Hún var bæjarfulltrúi Vinstri grænna í Hafnarfirði og bæjarstjóri í sveitarfélaginu frá árinu 2012 til 2014. Að auki má nefna að þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún kemur að meðferðarstarfi því hún var dagskrárstjóri á Teigi um árabil. Það liggur hins vegar beinast við að spyrja hvers vegna ákvað hún að sækja um einmitt þessa stöðu?
„Í nokkra áratugi hafði ég átt mér þann draum að koma á fót áfangaheimili fyrir fólk og fjölskyldur sem þyrfti á stuðningi að halda til að komast aftur út í lífið. Ég var búin að taka þá ákvörðun að yfirgefa pólitíska sviðið eftir síðasta kjörtímabil og snúa mér að einhverju uppbyggilegu og mannbætandi. Ég var þegar farin að vinna að því að láta þann draum rætast. Fór og talaði við stjórnina í Fíladelfíu og sagði þeim frá þeirri hugmynd að byggja áfangaheimili og hafði áhuga á samstarfi við kirkjuna í þeim efnum. Auk þess að tala við stjórn Hvítasunnukirkjunnar hitti ég Signýju Guðbjartsdóttur og sagði henni frá þessu. Þá missti hún út úr sér að hana vanti afleysingu í Hlaðgerðarkoti um sumarið. Ég notaði þess vegna sumarfríið mitt í að leysa af sem vaktmaður þar sumarið 2024. Þar kynntist ég starfinu í Hlaðgerðarkoti, leið alveg ótrúlega vel og fannst það mjög skemmtilegt. Ég ætlaði því bara að sækja um starf hjá Signýju þegar eitthvað losnaði í Hlaðgerðarkoti.
Svo lauk kjörtímabilinu þónokkuð fyrr en áætlað var og á sama tíma sköpuðust þær aðstæður hjá Samhjálp að auglýst var eftir framkvæmdastjóra. Ég þurfti ekki mikið að velta þessu fyrir mér. Ég fann að þetta var eitthvað sem mig langaði að gera. Ég þrífst á því að vera í starfi sem mér finnst skipta máli út fyrir skrifborðið í vinnunni. Það eru ótrúleg forréttindi að fá að taka þátt í því starfi sem Samhjálp vinnur og öllu því sem samtökin standa fyrir. Þannig að segja má að röð atvika í mínu lífi hafi raðað þessu upp með þeim hætti að ég er hér og fæ að vinna með öllu þessu frábæra samstarfsfólki.“

Hefur þú einhverja heildarsýn yfir hvernig þú vilt að starf samtakanna verði?
„Ég lít á þetta sem eina órofa heild, allt frá Kaffistofunni, Hlaðgerðarkoti, áfangaheimilunum, samkomunum að skrifstofunni sem er svolítið eins og æðakerfið út í þessi líffæri ef við lítum á Samhjálp eins og líkama. Við erum samfélag sem starfar í samræmi við kærleika Jesú Krists til að auðvelda fólki að blómstra í lífinu. Ég hef þá sýn að með tilkomu nýs örorkulífeyriskerfis hafi meðal annars skapast tækifæri fyrir okkur til að styðja enn betur við okkar fólk. Kerfi þar sem verið er að horfa á hvað fólk getur en ekki hvað það getur ekki, byggir á styrkleikum fólks og gefur því tíma til að ná bata.“
Ýmsar breytingar hafa orðið síðan Rúna tók við. Sumar hefur hún innleitt en aðrar fékk hún óvænt í fangið og það má fullyrða að hún lenti á fótunum og hefur hlaupið en ekki gengið í að leysa hverja þraut.
„Að mínu mati er þetta ár, árið þegar við víkkuðum út tjaldhælana,“ segir hún og hlær. „Ég held að það sé sjálfsblekking en ég tel mér trú um að árið 2026 eigum við að getað andað aðeins dýpra niður í kviðinn og verðum ekki á alveg eins miklum hlaupum. Alveg ótrúlega margt hefur gerst á þessu ári og það eru forréttindi að fá öll þessi verkefni upp í hendurnar strax. Ég ætlaði ekki að fara af stað með látum, ætlaði bara að setjast í þennan stól, draga svolítið andann og finna hvernig þetta væri allt saman áður en ég færi að leggja til einhverjar breytingar. Ég ætlaði alls ekki að vera að rassakastast svona eins og ég hef verið að gera en svo eru aðstæður einfaldlega aðrar og þá þarf bara að bregðast við í samræmi við það. Við fengum uppsögn á húsnæði Kaffistofunnar á miðjum stjórnarfundi í lok mars. Þá var það svo dásamlegt að eitt af okkar frábæra stjórnarfólki greip þetta strax og sagði: „Þetta er blessun.“ Og stundum fylgir blessunum óttalegt umstang og vesen en ég er algjörlega sammála. Þetta húsnæði sem við vorum í var bráðabirgðahúsnæði frá upphafi. Ég er svo full aðdáunar á öllum þeim sem hafa komið að því að halda gangandi rekstri Kaffistofunnar þar sem hún var í Borgartúni. Bara hvernig okkar forstöðumenn, starfsfólk og sjálfboðaliðar hafa haldið þetta út er ótrúlegt því aðstæður þarna voru óboðlegar.
Já, og það er búið að reyna að finna húsnæði í mörg ár. Það var farið í stefnumótun og skrifuð skýrsla sem hefur verið dýrmæt í þessu ferli. Við reyndum að finna húsnæði, sambærilegt við það sem við vorum með, þ.e. bæði eldhús og þjónusta á sama stað. Við fengum hálft ár til að finna það og eftir fjóra mánuði var alveg ljóst að það gengi ekki. Daginn sem ég fékk þá flugu í hausinn að aðskilja eldhúsið frá þjónustuhlutanum fengum við eldhús upp í hendurnar. Ég hringdi í einn þeirra fasteignasala sem var að leita að húsnæði fyrir okkur og spurði: „Ertu nokkuð með iðnaðareldhús handa mér?“ Og hann svaraði: „Já, ég er með eitt hérna. Það er nýbúið að gera það upp.“ Um var að ræða framleiðslueldhús sem hafði verið í fullum rekstri í áratugi en hafði verið lokað og farið í gagngera uppbyggingu á húsnæðinu. Við leigðum það frá 1. ágúst. Auðvitað þurftum við að gera ýmislegt þótt allt hafi verið nýuppgert og ég fékk til liðs við mig Friðrik V. Hraunfjörð eða Friðrik fimmta eins og hann er gjarnan kallaður og við fórum að vinna að stefnumótun og endurskoðun á því hvernig við vildum gera þetta.“

Þar með var hálfur björninn unninn en áfram hélt leit að húsnæði þar sem bjóða mætti skjólstæðingum inn og veita líkamlega og andlega næringu.
„Það gekk hins vegar erfiðlega,“ segir Rúna. „Þegar við fundum eitthvað sem hentaði vildu eigendur ekki leigja okkur og við reyndum líka að kaupa en það gekk ekki heldur. Hálfum mánuði áður en við áttum að fara út úr Borgartúni fundum við stað og að þessu sinni var eigandinn tilbúinn að leigja okkur. Það er Grensásvegur 46, ótrúlega skemmtilegt húsnæði en heldur langt frá miðbænum, eiginlega alveg við jaðarinn á því svæði sem við töldum vera gott. Þá voru góð ráð dýr og við þurftum að finna bráðabirgðahúsnæði og þegar svo er, er gott að tilheyra góðri kirkju. Stjórnin í Fíladelfíu var svo frábær að taka okkur opnum örmum og við hófum starfsemi í húsi kirkjunnar 2. október. Þegar ég gekk þar inn í fyrsta skipti gerðist það að ég áttaði mig á, þótt ég hafi ábyggilega séð það fyrr en ég tengdi það bara ekki, að það voru engir gluggar í Borgartúni. En þarna vorum við komin í rými þar sem voru gluggar á öllum hliðum, þú gast séð inn og út og birta streymdi inn. Það er ótrúlega magnað að upplifa það. Við erum búin að vera þar í einn og hálfan mánuð en treystum því að við getum flutt á Grensásveginn 1. desember.
Þar eru ótrúlega öflugir aðilar með okkur í liði, bæði hafa fyrirtæki styrkt okkur og ýmsir iðnaðarmenn stokkið til og unnið hörðum höndum. Margir sjálfboðaliðar hafa einnig komið að verki. Oddfellow-reglan hefur verið okkur tryggur og sterkur stuðningsaðili í gegnum árin og það hefur ekki breyst nú. Það er sem allir séu með okkur í liði í þessu en þegar komið er inn með svona starfsemi í gróin hverfi verður titringur í nærumhverfinu og það er skiljanlegt. Á hinn bóginn er svo dásamlegt að sjá, eins og núna í Fíladelfíu, að hinum megin við bílastæðið er dekkjaverkstæði. Þeir voru frekar tortryggnir fyrst en í dag eru samskiptin mjög jákvæð og vil ég meina að við séum aukið öryggi og nágrannavarsla. Við erum með opið alla daga og okkar starfsfólk vaktar svæðið utandyra og innan. Við höfum getað bent okkar ágætu nágrönnum á að verið er að koma með ónýt dekk og henda þeim í gáma fyrir utan hjá þeim en það eykur kostnað þeirra við förgun á þeim. Við erum ekki vesen, við erum aukin gæði fyrir umhverfið.“

Þar með hefði mátt halda að Kaffistofan væri á grænni grein en eins og máltækið segir, mennirnir áætla en Guð ræður.
„Inni í miðju flutningaferli varð Friðrik V. mjög veikur og þurfti að segja sig frá verkefninu, að minnsta kosti í einhvern tíma. Enn og aftur vorum við svo heppin og blessuð að eiga styrka einstaklinga að sem stukku til. Við fengum Ólaf Hauk Ólafsson, sem á og rekur Draumasetrið, til að sjá um rekstur á eldhúsinu í ár. Við höfum verið svo heppin með starfsfólk í gegnum tíðina og nýtt fólk byggir á því frábæra starfi sem hefur verið unnið áður,“ segir Rúna. „Flest þeirra sem eru að vinna á Kaffistofunni í dag byrjuðu sem sjálfboðaliðar, báðir vaktstjórarnir okkar og nefna má að hluti af starfsfólki okkar á ýmsum starfsstöðvum er fólk sem áður sótti þjónustu á Kaffistofuna. Þetta er svo dýrmætt. Þau eru ótrúlega flott teymi sem heldur utan um aksturinn, þjónustuna og eldhúsið. Þrátt fyrir alls konar þröskulda og flækjur á leiðinni höfum við áorkað ótrúlega miklu á einu ári og nú tölum við um Kaffistofuna, nýtt upphaf.
Eitt af því sem ég er staðráðin í að gera, með mínu frábæra samstarfsfólki og sjálfboðaliðum, er að breyta ríkjandi viðhorfum til Kaffistofunnar. Flestir líta því miður svo á að Kaffistofan sé endastöð fólks, en það er hún sannarlega ekki! Hún getur verið upphafið að nýju lífi. Við eigum ótrúlegar sögur af fólki sem hefur verið fastagestir á Kaffistofunni, en með kærleikann að vopni og ódrepandi trú hafa ólíklegustu einstaklingar eignast nýtt líf,“ segir Rúna, en þegar viðtalið er tekið er verið að vinna hörðum höndum að því að tryggja að Kaffistofan geti opnað á Grensásvegi 46, þann 1. desember og allt starfsfólk Samhjálpar orðið spennt fyrir að geta tekið á móti fólki í björtu og fallegu rými þar sem birta streymir inn um gluggana.
Rúna segist einnig vera ákaflega þakklát fyrir alla þá velvild sem Samhjálp hefur notið frá almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum í gegnum tíðina. Í ár var uppselt á Kótelettukvöld Samhjálpar og einstök stemning ríkti í salnum.
„Fyrir utan allar þessar breytingar á Kaffistofunni þá hafa flestar aðrar starfsstöðvar Samhjálpar gengið í gegnum miklar breytingar, viðhald og endurbætur á árinu og sagt er frá í máli og myndum annarsstaðar í blaðinu. Í Hlaðgerðarkoti hafa farið fram viðgerðir, viðhald og endurbætur á húsum og lóð með veglegum styrk frá Oddfellow-hreyfingunni. Þar að auki hefur verið unnið að undirbúningi og flutningi á kapellu á lóð heimilisins mestallt árið, með dyggum styrk frá Skötumessu að sumri, undir stjórn Ásmundar Friðrikssonar. Unnið hefur verið að viðhaldi og endurbótum á báðum áfangaheimilunum okkar og standa nú yfir miklar endurbætur á áfangaheimilinu M18 þar sem verið er að skipta um gólfefni, hurðir og eldhúsinnréttingu.
Já, það hefur ekki verið nein lognmolla í Samhjálp á þessu ári. Og ég er ótrúlega þakklát fyrir allt fólkið mitt í Samhjálp sem ég fæ að njóta þess að vinna með.“
