

Í nógu virðist hafa verið að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag en fram kemur í dagbók hennar að maður hafi verið kærður fyrir að hafa bensínsprengju í fórum sínum.
Helstu verkefni lögreglustöðvar 1 sem sér um löggæslu í vesturbæ, miðbæ og austurbæ Reykjavíkur auk Seltjarnarness var að að brotist avr inn á veitingastað og stolið peningum, tölvum og síma. Málið er í rannsókn.
Tilkynnt var um óvelkomna aðila sem voru búnir að hreiðra um sig í bílakjallara.
Maður var svo kærður fyrir að hafa bensínsprengju í vörslum sínum en er einnig grunaður um að hafa þýfi í fórum sínum.
Höfð voru afskipti af mönnum sem hvergi eiga heima í stigagangi á stofnun. Annar þeirra var í engu ástandi til að sýsla með eigin hagsmuni og því vistaður í fangaklefa þar til ástand hans skánar. Hinum var vísað á brott.
Tilkynnt um innbrot í bifreið og ýmsum munum stolið þaðan. Málið er í rannsókn.
Loks eru nefnd til sögunnar þjófnaður og eignaspjöll í matvöruverslun. Málið var afgreitt á vettvangi.
Lögreglumenn á lögreglustöð 2 sem sinnir löggæslu í Hafnarfirði og Garðabæ aðstoðuðu vegfaranda við að endurheimta farsíma sinn sem var úti á miðri stofnbraut.
Til kasta lögreglustöðvar 3 sem sinnir Kópavogi og Breiðholti var þjófnaður á papriku úr matvöruverslun og umferðarslys þar sem strætisvagn og fólksbifreið áttu í hlut. Minni bifreiðin var dregin af vettvangi með dráttarbifreið.