

Framkvæmdastjórn RÚV tók ákvörðun um að taka ekki þátt í Eurovision á næsta ári. Ákvörðunin var tilkynnt á stjórnarfundi RÚV í gær og því kom ekki til atkvæðagreiðslu um tillögu sem hafði verið lögð fyrir stjórnina um að taka ekki þátt.
Sjá einnig: Ísland ekki með í Eurovision 2026
Fjölmargir, lærðir sem leikir, hafa tjáð sig um ákvörðunina.
Á meðal þeirra er Kristján Freyr Halldórsson, tónlistarmaður, rokkstjóri Aldrei fór ég suður og textahugmyndasmiður. Segir hann að enn og aftur sé tónlistarfólk sett í eldlínuna og kallar hann eftir skýrari afstöðu hjá stjórnvöldum.
„Ég hef voða mikið hugsað hvað tónlistarfólk og listafólk almennt er oft í eldlínunni þegar rætt er um erfið mál. Þegar eitthvað bjátar á þá eru oft haldnir tónleikar til styrktar málefnum sem skipta okkur máli og alltaf er tónlistarfólk mætt fyrst á staðinn tilbúið að gefa af sér. Það er auðvitað skiljanlegt, tónlistin hún huggar og gleður. Við þurfum öll á henni að halda og leitum í hana.
Svo kemur að umræðu um stuðning og styrki til þessa sama fólks (sumir kalla þetta listamannalaun en þá verða allir alveg spinnigal) og gerum við sem þjóð okkur að fíflum að rífast um örfáar krónur þegar við sjáum ekki stóra samhengið og beinum ekki sjónum að þeim sem eru virkilega að maka krókinn. Það er nefnilega ekki listafólk í skapandi greinum.“
Í færslu á Facebook segir Kristján Freyr þetta svipað því að ökumaður bíls pirri sig á gangandi og hjólandi vegfarendum í umferðinni, þangað til að hann festir sig í snjó og brosir þá gagnvart fólkinu og þiggur aðstoð.
Kristján Freyr segir að tónlistarfólk hafi þurft að horfa á algjört hrun í sölu á tónlist, geisladiskurinn horfið af markaðnum og allt ratar á internetið.
„Á einhvern hátt þurfti tónlistin að finna sinn árfarveg, hún hefur þrátt fyrir þetta aldrei verið vinsælli, og fannst hann í formi streymisveitna (t.a.m. Spotify) en auðvitað þurfti annað fólk að maka krókinn og gera sér mat úr tónlistinni. Það var þá ekki tónlistarfólkið sem fær eitthvað fyrir sinn snúð og ekki endilega því að kenna um að hafa valið þessa vondu kalla á Spotify.“
Erfitt að horfa upp á þjóðarmorð í Palestínu
Kristján Freyr segir að eitt það erfiðasta sem við höfum þurft að horfa upp á er þjóðarmorðið í Palestínu.
„Við hljótum flest sem erum mennsk að sjá að þetta á ekki að vera svona, við getum ekki bara horft á þetta,“ segir Kristján Freyr, sem spyr hvað yfirvöld í ríkjum séu að gera í þessu hræðilega máli.
„Ekki neitt? Hvers vegna segir enginn neitt? Hvers vegna er alheimssamfélagið ekki að segja „stopp“?!
Og enn og aftur er tónlistarfólkið í brennidepli, eins og endranær. Tónlistarfólki langar að gleðja og fá fólk til að brosa og dansa í söngvakeppni. Og það fólk sem stendur í eldlínunni og bendir á að við þurfum að gera eitthvað … er jú listafólk og tónlistarfólk að mestu.
Ég kalla eftir því að yfirvöld á Íslandi verði skýrari í svörum, taki t.d. skýrari afstöðu í friðarmálum. En sitji ekki hjá sofandi að feigðarósi og láti listafólk um þetta alltaf!“
Selma Björnsdóttir tónlistarkona með meiru tekur undir orð Kristjáns Freys:
„Takk Kristján! Íþróttafólk mun t.d ekki þurfa að fórna neinu. Þetta er alveg stefnulaust.“
Sama gerir Una Stefánsdóttir tónlistarkona: „Vel skrifað og ég er sammála hverju orði.“
Og söngvarinn Arnar Jónsson: „Mjög svo sammála… Alveg magnað að fórna þurfi tónlistinni fyrir „málstaðinn“. Ekki er tónlistin mikils metin alla jafna en þegar kemur að fórna henni þá er það alveg rosalega göfugt.“