

Óvenju mörg alvarleg umferðarslys hafa orðið síðustu vikur. Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu mætti í innslag í fréttum Sýnar í gærkvöldi og sagði hann um óvenjumörg alvarleg slys að ræða.
„Okkur þykir það mjög miður. Það koma alltaf reglulega upp á þessum haustmánuðum, október, nóvember, desember þá koma upp alvarleg slys. Það er myrkur hérna. Jólastressið virðist alltaf hafa einhver áhrif. Fólk er að flýta sér meira. Núna í aðdraganda þessarar jólahátíðar er ákall frá lögreglunni að við tónum okkur aðeins niður og njótum þess að taka þátt í undirbúningi jólanna án þess að leggja allt undir í umferðinni.“
Innslagið var tekið á Suðurlandsbraut fyrir framan höfuðstöðvar Sýnar, en steinsnar neðar í götunni varð alvarlegt umferðarslys á mánudag þegar keyrt var á gangandi vegfaranda, rúmlega áttræða konu, sem stórslasaðist.
Árni biðlaði einnig til gangandi vegfarenda og sagði:
„Fólk er afskaplega dökkklætt. Gangandi vegfarendur. Ég er engin tískulögga en það væri mjög jákvætt að sjá fólk í aðeins meiri lituðum fatnaði. Hérna á morgnanna og síðdegis verður skyggnið þannig að dökkklæddar verur sjást illa.
Gangandi vegfarendur þurfa líka að taka það til sín að nota gangbrautir, umferðarljós og vera ekki að fara yfir bara einhvers staðar. Svo náttúrulega fyrst og fremst að nota það sem allir ættu að nota sem eru þessi endurskinsmerki. Við sjáum það reglulega mjög víða á höfuðborgarsvæðinu að fólk er ekki að nota gangbrautarljós og merktar gangbrautir. Það er að fara yfir bara hingað og þangað.“
Það eru orð aðalvarðstjórans um gangandi vegfarendur sem féllu ekki í kramið hjá ýmsum. Í Facebook-hópnum Samgönguhjólreiðar setur einn inn færslu með orðunum:
„Ökumenn hafa drepið og alvarlega slasað fólk undanfarið.
Þetta er auðvitað gangandi vegfarendum að kenna vegna þess að fólk er of dökkklætt og notar ekki gangbrautir rétt eða endurskynsmerki skv. aðalvarðstjóra umferðadeildar lögreglunnar.“
Erlendur Þorsteinsson spyr hvort honum hafi missést eitthvað í umræðunni og hvort gangandi vegfarendur séu mikið að fara yfir hér og þar:
„Ég fór yfir helstu slys á hbsv. sem hafa tengst gangandi & hjólandi en það voru Hamrastekkur á gönguþverun, Álfabakki á upphækkaðri gönguþverun, Reykjavegur (ítrekað) á gangbraut og nú þetta hræðilega atvik á Suðurlandsbraut á gönguljósum.
Er mér að yfirsjást eitthvað? Hefur verið einhver endalaus straumur af slysum þar sem gangandi & hjólandi hafa verið „að fara yfir bara hingað og þangað“? Þetta er alveg skelfilegur hræðsluáróður sem stenst enga skoðun.“
Birgir Birgisson svarar honum og tiltekur nokkur dæmi þar sem ekið hefur verið á gangandi vegfarendur og hjólreiðamenn á gagnamótum. „Þetta er búið að vera hrina af alls konar undanfarnar nokkrar vikur eins og reyndar oft vill verða á þessum árstíma. En nei, það er a.m.k. ekki áberandi að svartklætt og endurskinslaust fólk hafi verið ekið niður annars staðar en á gönguþverunum eða gangbrautum. Fljótt á litið er mikið frekar því um að kenna að ökumenn eru ekki að taka sína ábyrgðar- og varúðarskyldu sérstaklega alvarlega.“
Bragi Gunnlaugsson, sem margoft hefur vakið athygli á öryggi hjólreiðamanna í umferðinni segir: „Ég varð svo svakalega glaður að sjá lögguna loksins æla einhverju úr sér varðandi ástandið í borginni. Hefði samt verið næs að heyra hvað þeir ætla að gera í málinu – annað en að segja fólki að klæða sig í öðruvísi föt.“
Franz Gunnarsson tónlistarmaður tekur þó undir orð aðalvarðstjórans og segir ekki heppilegt að gangandi vegfarendur sjáist illa: „Það er reyndar alveg rétt að í svartasta skammdeginu er ekki heppilegt að vegfarendur séu svartklæddir frá toppi til táar, sérstaklega ekki ef hlaupið er yfir götu í veg fyrir bíla sem þurfa að snögghemla, en það gerðist einmitt hjá mér í morgun, með barn í bílnum.“
Kristín Helgadóttir segir: „Hann sá mig mjög greinilega gaurinn sem keyrði í veg fyrir mig þar sem ég gekk yfir á grænu ljósi um hádegisbil í dag. Og skitaglottið sem ég fékk frá honum þegar ég fórnaði höndum var ekki til fyrirmyndar.“
Birgir Birgisson verkefnastjóri hjá Háskóla Íslands tekur þó undir orð aðalvarðstjórans og segir eitt ekki þurfa að útiloka annað. Segir hann það ekki hjálpa umræðunni um skort á umferðaröryggi fyrir hjólreiðamenn að loka augunum fyrir því sem þeir geta gert sjálfir.
„Það er alveg rétt hjá Árna að margir óvarðir vegfarendur, bæði gangandi og hjólandi, mættu vera miklu duglegri að nota endurskinsmerki og betri ljósabúnað. En það er líka alveg rétt að allt of margir ökumenn eru glæpsamlega kærulausir, hvort sem það er vegna hraðaksturs, símanotkunar eða virðingarleysis gagnvart umferðarljósum.
Á (næstum) daglegri hjólaleið minni um Ártúnshöfða, Suðurlandsbraut, Laugaveg og Hverfisgötu, mæti ég alltof oft fólki sem hjólar þetta í dökkum klæðnaði á hjólum sem eru algerlega án endurskins eða ljósabúnaðar. Sömuleiðis er fullt af gangandi vegfarendum sem sjást mjög illa og mættu alveg læra að nota endurskinsmerki.
En það er ófrávíkjanleg regla, sérstaklega á hverjum eftirmiðdegi, að við hver einustu gatnamót frá Hlemmi að Skeiðavogi og stundum alveg að Sæbraut við Súðavog sést einhver fjöldi ökumanna fara yfir gatnamót á rauðu ljósi og hátt hlutfall er með símann í hendinni.
Getum við ekki bara verið sammála um að umferðar„menningin“ okkar er lífshættuleg og eitthvað þarf að gera?“
Spyr Birgis síðan í ljósi nafn Facebook-hópsins hvað hjólreiðamenn vilji gera til að bæta öryggi sitt í umferðinni.
„Til þess að eitthvað breytist verður hjólandi fólk sjálft að hafa hátt. Það er orðið sárlega augljóst að því miður er ekki von á mikilli hjálp frá hvorki Lögreglu, Samgöngustofu, Innviðaráðuneyti, Dómsmálaráðuneyti eða öðrum sem þessi mál ættu að varða.
Spurningin er, nennum við því? Og maður gæti jafnvel líka spurt: Ef við nennum ekki að gera neitt sjálf til að auka a.m.k. eigið öryggi, erum við þá í einhverri aðstöðu til að gagnrýna svona viðtöl?“