
Kona hefur verið ákærð fyrir brot í nánu sambandi með því að beita sambýliskonu sína ofbeldi á heimili þeirra í Kópavogi. Hlaut sambýliskonan beinbrot vegna ofbeldisins.
Konurnar eru báðar á sextugsaldri en sú sem er ákærð er með erlent nafn en íslenska kennitölu en sú sem fyrir árásinni varð er íslensk.
Fyrirkall og ákæra á hendur fyrrnefndu konunni er birt í Lögbirtingablaðinu í dag en hún er enn skráð til heimilis á sama heimilsfangi og brotaþolinn en væntanlega býr hún þar ekki í reynd fyrst að ákæran var birt með þessum hætti.
Konan er ákærð fyrir brot í nánu sambandi gagnvart sambýliskonu sinni, að heimili þeirra í Kópavogi, með því að hafa í febrúar 2024, á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð hennar, með því að hrinda henni svo að hún féll aftur fyrir sig á nærliggjandi gluggakistu og gólf, með þeim afleiðingum að hún hlaut brot og liðskaða á ristarbeinum, brot á sköflungsbeini og mar á bakvegg brjóstkassa.
Telst háttsemi konunnar varða við 218. grein b. almennra hegningarlaga en miðað við það á hún allt að 6 ára fangelsi yfir höfði sér en 16 ár ef brotið telst stórfellt.
Málið verður tekið fyrir við Héraðsdóm Reykjaness í janúar 2026 en mæti hin ákærða ekki fyrir dóm verður það metið sem ígildi játningar.