
Tæplega þrítugur maður, erlendur en býr í Breiðholti í Reykjavík, hefur verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og peningaþvætti.
Manninum er gefið að sök hafa staðið að innflutningi á samtals 722 stk. af OxyContin 80 mg töflum, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni en fíkniefnin flutti ákærði til Íslands sem farþegi með flugi frá Varsjá í Póllandi til Keflavíkurflugvallar, falin innanklæða í nærbuxum sem hann klæddist við komuna til landsins.
Brotið var framið 18. október árið 2023.
Hann er síðan ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa á tímabilinu 1. janúar 2022 til 18. október 2023 aflað sér ávinnings að fjárhæð að lágmarki 6.487.212 krónur með sölu og dreifingu á ótilgreindu magni ávana- og fíkniefna, sem ákærði móttók á bankareikningi sínum.
Var þarna um að ræða óútskýrðar innborganir fyrir tæpar þrjár milljónir króna og reiðufjárinnlagnir fyrir rúmlega þrjár og hálfa milljón.
Ennfremur segir um peningaþvættið í ákærunni:
„Ávinning brotanna geymdi ákærði á bankareikningnum og nýtti í eigin þágu og til framfærslu sinnar en á ofangreindu tímabili tók ákærði meðal annars út 2.017.050 krónur í reiðufé, sendi 3.419.057 krónur úr landi, það er 2.541.168 krónur í gegnum Transfer Go og 877.889 krónur með erlendri greiðslu.“
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 17. september næstkomandi.