

Íslendingar voru graðari í ár heldur en í fyrra ef marka má gögn um neyslu landsmanna á vefsíðunni alræmdu, OnlyFans. Íslendingar eyddu tæpum 253 milljónum á árinu samanborið við 223,5 milljónir á síðasta ári en aukningin nemur rúmum 12 prósentum. Þetta kemur fram hjá onlyguider.com.
Íslendingar eru þó ekki graðasta Norðurlandaþjóðin. Það eru Finnar hins vegar en miðað við höfðatölu eyddu þeir mest Evrópuþjóða á OnlyFans árið 2025. Noregur situr svo í 13. sæti listans og Danmörk í 14. sæti. Ísland er í 17. sæti og Svíar reka svo lestina í 20. sæti.
Sú Evrópuþjóð sem eyddi mest í heildina á árinu voru Bretar en þeir eyddu tæpum 70 milljörðum. Það voru svo Bandaríkjamenn sem eyddu mest allra þjóða árið 2025, en þeir eyddu 346 milljörðum króna.
OnlyFans er vefsíða þar sem notendur geta selt efni til áskrifenda gegn gjaldi. Allur gangur er á því hvers konar efni er deilt á síðunni, en frægust er hún fyrir klámfengið eða erótískt myndefni.
Áskrifendur greiða mánaðarlegt gjald og fá þar með aðgang að almennri síðu notandans. Síðan er hægt að kaupa meira efni, oft djarfara eða grófara efni, gegn aukalegu gjaldi. Áskrifendur geta einnig lagt fram beiðnir gegn gjaldi.