fbpx
Mánudagur 01.desember 2025
Fréttir

Hló og grét þegar hún las verklagsreglur KÍ um ofbeldi í skólum – „Þetta er svo fíflalegt að það er engu lagi líkt“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 1. desember 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Er það ofbeldi þegar grunnskólabarn stígur óvart á tærnar á samnemanda sínum? Að mati sálfræðingsins Ásdísar Bergþórsdóttur er svarið já samkvæmt verkferlum Kennarasambands Íslands (KÍ). Ásdís bendir á þetta í grein sem hún birtir í dag hjá Vísi þar sem hún gagnrýnir skjal sem KÍ hefur birt og kallast „Verkferlar vegna ofbeldis í skólum“.

„Ég bæði hlæ og græt yfir þessu plaggi,“ segir Ásdís en hún segir að ætla megi að skjalið innihaldi leiðbeinandi reglur fyrir skóla, gerðar af sérfræðingi, sem njóti samþykkis KÍ. Hún óttast að skólar taki mark á þessum reglum sem að hennar mati séu samdar af vanþekkingu og birtar í vangát.

Ofbeldi að hætta með kærasta

Skjalið skilgreinir ofbeldi sem: „athafnir sem valda öðrum einstaklingi sársauka, andlegum eða líkamlegum, án tillits til þess hvort um er að ræða ásetning eða ekki.“

Þarna sé krafa um athöfn og sársauka en ekki um ásetning.

„Sé þessu tvennu fullnægt er um ofbeldi að ræða. Segjum að ég stígi á tærnar á Gunna og hann upplifir sársauka þá felur það í sér athöfn (stíga á tær) og sársauka (Gunnar meiddi sig). Það skiptir engu máli hvort ég gerði þetta óvart eða viljandi. Þannig er það að stíga á tærnar á einhverjum alltaf ofbeldi ef hann meiðir sig.“

Samkvæmt skjalinu geta svo hótanir talist sem líkamlegt ofbeldi. Þar með gæti einhver hótað að berja samnemanda sinn og þar með gerst sekur um líkamlegt ofbeldi. Samkvæmt skjalinu ber svo að vísa öllum ofbeldistilfellum til ofbeldisteymis. Þaðan er haft samband við foreldra geranda og þolanda. Næst er haft samband við aðra aðila sem hafa með barnið að gera, svo sem tómstundir og íþróttir. Næst er það svo lögregla og barnavernd.

„Gunni varð fyrir ofbeldi samkvæmt skilgreiningunni og því þarf lögregla og barnavernd að rannsaka málið jafnvel þó að ég sé 6 ára og hafi óvart stigið á Gunna. Ef ég er 15 ára, sakhæf og stíg óvart á Gunna þá þarf lögregla væntanlega að rannsaka þetta sem mögulega líkamsárás. Á sama hátt yrði að tilkynna til lögreglu ef Sigga segir Mumma kærastanum sínum upp í frímínútunum og honum líður illa yfir því.“

Að stíga óvart á tær eða rota viljandi með kylfu

Þetta gæti að mati Ásdísar haft í för með sér mikla peninga- og tímasóun fyrir hið opinbera, það er að segja ef farið er eftir verklaginu, sem Ásdís efast um að skólar geri.

„Því þetta er svo fíflalegt að það er engu lagi líkt. Það myndi enginn heilvita maður taka þessar verklagsreglur upp, er það nokkuð?“

Það er að mati Ásdísar ekki eðlilegt að skólar skilgreini ofbeldi sjálfir. Þessi skilgreining í verklagsreglunum geti auðveldlega snúist í höndunum á kennurum sem valda nemendum særindum og þar með sársauka. Eins geri reglurnar engan greinarmun á ofbeldi eftir alvarleika.

„Að stíga óvart á tærnar á Gunna og segja Mumma upp á að fara í sama ferli og ef einhver rotar Kjartan með hafnaboltakylfu í frímínútum.“

Svo vanti í reglurnar öll viðurlög. Að mati Ásdísar standast reglurnar hvorki skynsemi né lög. Umræðan um ofbeldi barna í grunnskólum hafi verið áberandi undanfarið en hún sé of einsleit. Þar vanti mikilvægar raddir, svo sem frá barnavernd, geðheilbrigðiskerfinu og svo frá mikilvægasta hópnum – fullorðnum sem eitt sinn voru börn sem beittu ofbeldi innan skóla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt