

Allt er á suðupunkti í heimi Eurovision vegna fundar EBU sem haldinn verður á morgun í Genf í Sviss þar sem tekin verður ákvörðun um þátttöku Ísraels í keppninni. Íslendingar fara fram á að Ísrael verði vikið úr keppninni.
Ekki liggur fyrir hvort að atkvæðagreiðsla fer fram eða ekki á fundi EBU sem fram fer í Genf á fimmtudag, 4. desember.
Á fundinum verður einnig rætt um nýjar reglur sem setja á til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnir eða þriðju aðilar geti beitt sér fyrir ákveðnu lagi. En flestum var augljóst að Ísraelar beittu miklum þrýstingi til að koma sínu lagi áfram í keppninni síðastliðið vor. Hafa Ísraelar, sem höfnuðu í öðru sæti í keppninni, einnig verið sakaðir um svindl í síma og netkosningunni.
Eins og kemur fram í frétt Reuters um málið verður atkvæðagreiðsla um þátttöku ríkja í keppninni ef aðildarríkin telja að hinar nýju reglur dugi ekki til að girða fyrir svindl eða óeðlilegan þrýsting. Ísrael er ekki nefnt sérstaklega en flestum er ljóst að átt sé við það land.
Ísland, Slóvenía, Spánn, Írland og Holland hótuðu í haust að draga sig úr Eurovision ef Ísrael fengi að taka þátt. Það er vegna stríðsins og þjóðarmorðsins á Gaza ströndinni. Ísland hefur ítrekað hótun sína, jafn vel þó að vopnahlé hafi verið samþykkt á Gaza. En Ísraelar hafa ítrekað gerst sekir um að brjóta vopnahléið og fella óbreytta palestínska borgara, þar á meðal börn.
Á hinum endanum eru lönd á borð við Þýskaland, Austurríki og Sviss sem hafa hótað að taka ekki þátt í Eurovision verði Ísraelum meinuð þátttaka. Hafa Austurríkismenn einnig hótað að neita að halda keppnina í vor.
Norðmenn hafa lýst því yfir að þeim lítist vel á reglubreytingarnar sem gera á og telja þær fullnægjandi fyrir sitt leyti.
„Við vonum innilega að þessi reglupakki fullvissi aðildarríki um að við stöndum vörð um hlutleysi og óhlutdrægni söngvakeppninnar,“ segir í tilkynningu EBU.
Paul Jordan, sérfræðingur í málefnum Eurovison, segir að fundurinn á morgun verði vatnaskil fyrir keppnina. „Þetta er alvarleg krísa fyrir Eurovision og EBU… ég held að það verði líklega atkvæðagreiðsla um málið,“ segir Jordan.