

Héraðsdómur Vesturlands hefur sýknað mann af ákæru um líkamsárás. Var maðurinn sakaður um að hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína á veitingastað þar sem hann var við störf sem dyravörður. Urðu nokkrar vendingar í málinu fyrir dómi en dómurinn segir málavexti benda til þess að konan hafi átt töluvert meiri þátt í átökunum en hún hafi haldið fram og gagnrýnir dómurinn rannsókn lögreglu á málinu.
Búið er að afmá úr dómnum nákvæmlega hvar atvikið átti sér stað en af samhengi dómsins virðist það hafa verið á Akranesi og fram kemur að hátíð hafi staðið yfir í viðkomandi bæ sem hefur þá líklega verið Írskir dagar. Fram kemur þó að atvikið átti sér stað árið 2024.
Lögregla var kölluð að veitingastaðnum að nóttu til. Konan tjáði lögreglumönnum að dyravörðurinn hefði hrint sér harkalega með þeim afleiðingum að höfuð hennar hafi skollið í jörðina. Tvö vitni tóku undir frásögn hennar. Rætt var stuttlega við dyravörðinn en konan var flutt á bráðamóttöku Heilbrigðsstofnunar Vesturlands, sem er á Akranesi. Kemur fram í dómnum að vegna mikilla anna hafi lögreglan ekki getað sínt málinu til hlítar strax um nóttina.
Í læknisvottorði kom fram að konan hafi fundið fyrir miklum verkjum í höfði og vankast. Tölvusneiðmynd hafi ekki sýnt neinar blæðingar undir höfuðkúpu en blóðmargúl undir húð. Niðurstaðan hafi verið að konan hafi fengið heilahristing. Hún hafi leitað í tvígang aftur á bráðamóttökuna vegna slæmra höfuðverkja, svima, ógleði og endurtekinna uppkasta. Niðurstaðan hafi verið sú sama og eftir fyrstu skoðun.
Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði konan að hún hafi komið á veitingastaðinn ásamt bróður sínum og frænku. Þar hafi hún séð dyravörðinn sem sé fyrrverandi sambýlismaður hennar. Hann hafi horft á hana með ógnandi hætti en hann hafi beitt hana ofbeldi á meðan sambúð þeirra stóð. Bróðir hennar hafi ætlað að tala við hann en verið stöðvaður af vinum sínum. Hún hafi staðið í útidyrunum þegar dyravörðurinn hafi ætlað að koma út og hitta bróður hennar. Hún hafi sagt honum að láta bróður sinn í friði en dyravörðurinn hafi þá ýtt við henni með olnboganum en síðan tekið um báðar axlir hennar og hent henni í jörðina.
Dyravörðurinn tjáði hins vegar lögreglu að hann hefði verið beðinn að athuga hvað væri að gerast við innganginn þar sem konan ásamt samferðamönnum hennar hafi verið til vandræða. Þegar hann hafi komið að inngangnum hafi konan slegið hann með krepptum hnefa í andlitið. Hann hafi beðið hana að róa sig en hún þá rifið í hár hans og hópurinn allur þá reynt að troða sér inn á staðinn en hann þá ýtt á móti með báðum höndum. Hann kannaðist ekki við að einhver hefði dottið og slasast en konan hafi mögulega dottið um einhvern sem var fyrir aftan hana.
Fyrir dómi sagðist dyravörðurinn hafa orðið hræddur þegar hópur fólks hafi gert aðsúg að honum með þessum hætti og viljað koma sér út úr aðstæðunum sem fyrst. Hann hafi kannast við fyrrverandi kærustu sína en hafi ekki verið í neinum samskiptum við hana áður en atvikið átti sér stað. Það hafi ekki verið ætlun hans að meiða hana og fjöldi fólks, bæði gestir og starfsfólks staðarins hafi orðið vitni að atvikinu. Hins vegar hafi aðeins fjölskyldumeðlimir konunnar verið kvaddur til að bera vitni í málinu en ekki nafngreindir einstaklingar sem hann hafi bent á sem vitni. Ennig hafi lögreglan af einhverjum ástæðum ekki orðið við beiðni hans um að óska eftir upptökum úr öryggismyndavélakerfi staðarins.
Fyrir dómi sagðist konan hafa verið fyrir utan staðinn en ekki að reyna að komast inn þegar atvikið átti sér stað. Dyravörðurinn hafi horft með ógnandi hætti á hana, þegar hún og samferðarfólk hennar var inni á staðnum, í nokkurn tíma en loks vaðið upp að henni og ráðist á hana, með fyrrgreindum hætti. Sagðist hún vera hrædd við manninn þar sem hann hefði beitt hana miklu ofbeldi á meðan sambúð þeirra stóð og hún hafi ekki staðið upp í hárinu á honum og ætti því erfitt með að ímynda sér að hún hafi slegið hann. Sagðist hún enn vera að glíma við meiðslin sem hún hlaut og færi vart ein út úr húsi vegna hræðslu.
Kona sem var að vinna á bar staðarins umrædda nótt sagðist hafa séð konu sem hafi verið mjög reið garga á dyravörðinn og rífa í hár hans en gat ekki staðfest að um hinn meinta brotaþola hafi verið að ræða.
Annar dyravörður sagði hinn ákærða hafa verið að ræða við konuna við innganginn en hún reynt að komast í burtu frá honum. Hinn ákærði hafi haldið í hana og hún þá slegið hann ítrekað. Hafi þá hinn ákærði hrint konunni í jörðina en dyravörðurinn sagði vel mögulegt að þetta hafi kollegi hans gert til að losna undan höggum konunnar.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands er bent á að í skýrslutöku hjá lögreglu hafi konan sagst hafa staðið í dyragættinni en fyrir dómi að hún og hópurinn sem hún var með hafi verið í nokkra stund á barnum áður en atvikið gerðist og á meðan hafi dyravörðurinn horft með ógnandi hætti á hana. Síðan hafi hún farið út fyrir staðinn og þar hafi dyravörðuinn ráðist á hana.
Gagnrýnir dómurinn að ákæruvaldið hafi aðeins nýtt sér framburði vitna en ekki hafi ljósmynda frá staðnum verið aflað sem hefði varpað skýrara ljósi á aðstæður og einnig skorti upplýsingar um fjölda fólks á staðnum umrædda nótt. Segir dómurinn með ólíkindum að lögreglan hafi ekki við rannsókn málsins óskað eftir upptökum úr öryggismyndavélum á staðnum.
Dómurinn segir þrjú vitni hafa borið að konan hafi veist að dyraverðinum, hrópað á hann rifið í hár hans og eitt vitni séð hana slá hann ítrekað í höfuðið. Kona sem starfaði á bar staðarins hafi tjáð lögreglu að konan hafi komið inn á staðinn og orðið mjög æst þegar hún sá dyravörðinn og rokið til hans en vitnið hafi ekki fengist til að koma fyrir dóminn. Vitni, sem tengist konunni náið, hafi sagst hafa séð dyravörðinn hrinda konunni en takmarkaðar lýsingar getað gefið á því. Framburður konunnar stangist á við þessa framburði en hún hafi fullyrt að það eina sem hún hafi sagt við dyravörðinn hafi verið að láta bróður sinn vera. Misræmi hafi einnig verið í framburði hennar hjá lögreglu og fyrir dómi.
Dómurinn telur að ekki hafi tekist að sanna sekt dyravarðarins. Líklegt sé að hann hafi ýtt við konunni og öðrum sem voru með henni til að loka dyrum sem líklega hafi verið bakdyr staðarins fremur en aðaldyr. Upptök að átökunum virðist hafa legið hjá konunni og bróður hennar, miðað við framburð annars dyravarðar sem hafi talið sig knúinn til að koma til aðstoðar.
Flest vitni staðfesti framburð dyravarðarins um að atburðurinn hafi átt sér stað í dyragættinni en þar sem málsatvik séu óljós sé mjög bagalegt að upptaka úr öryggismyndavélum hafi ekki verið lögð fram og einnig sé slæmt hversu óljósar lýsingar á vettvangi séu. Fyrir þessa ágalla geti dyravörðurinn ekki verið látinn gjalda.
Dyravörðurinn var því sýknaður af ákæru um líkamsárás á þessa fyrrverandi kærustu sína.