

Þingmenn úr röðum Demókrata og Repúblikana krefja nú ríkisstjórn Donald Trump svara gegn árása bandaríska hersins á venesúelska báta í Karabíska hafinu sem sagðir eru hafa verið notaðir til að smygla fíkniefnum.
Það er ekki síst vegna fréttar Washington Post fyrir helgi en þar er fjallað um árás hersins á slíkan bát þann 2. september. Eiga tveir einstaklingar að hafa komist lífs af eftir fyrstu bylgju árásarinnar en síðan eru bandarískir hermenn sagðir hafa gert aðra árás til að framfylgja skipun varnarmálaráðherrans, Pete Hegseth. Á skipunin einfaldlega hafa hljómað svo: „Drepið alla“.
Ef rétt er þá gæti ráðherrann hafa gerst sekur um stríðsglæp enda er lagt blátt bann við því í Genfarsáttmálanum að gera árásir á særða einstaklinga.
Undanfarið hafa Bandaríkjamenn sett aukinn kraft í árásir sínar á báta, í lögsögu Kólumbíu og Venesúela í Karabíska hafinu, sem þeir telja að séu notaðir við fíkniefnasmygl. Frá septemberbyrjun alls hafa um 80 manns látið lífið í þessum árásum en þær hafa kallað fram hörð viðbrögð víða á grundvelli þess að þær eru framkvæmdar án dóms og laga.
Hin meinta dauðaskipun ráðherrans hellir svo sannarlega olíu á þann eld.
Hegseth sjálfur hefur sagt frétt Washington Post vera uppspuna frá rótum og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sagt ráðherrann njóta fulls trausts.