fbpx
Laugardagur 08.nóvember 2025
Fréttir

Kennara vikið frá störfum á Eyrarbakka vegna meints ofbeldis gegn einhverfum nemanda – Móðir kallar eftir úrbótum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 8. nóvember 2025 10:07

Rakel Ýr Gunnlaugsdóttir. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kennara við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri var vikið frá störfum í lok október vegna meints ofbeldis gegn nemanda. Um var að ræða líkamlegt inngrip og valdbeitingu, að sögn móður nemandans, en hún segir kennarann hafa fært dóttur hennar með valdi út úr skólastofunni, en inngripinu linnti ekki fyrr en dóttir hennar klóraði kennarann frammi á gangi fyrir utan skólastofuna.

Upp úr sauð vegna þess að stúlkan vildi ekki fara í fyrirhugaðan tíma til þroskaþjálfa heldur vildi sitja í skólastofunni og þreyta próf sem komið var á tíma hjá henni.

„Þú leggur ekki hendur á börn, það bara má ekki,“ segir Rakel Ýr Gunnlaugsdóttir, móðir stúlkunnar, en bætir við að atvikið sé sérstaklega alvarlegt af tveimur ástæðum: Annars vegar er dóttir hennar á einhverfurófinu og með ADHD, og því sérstaklega viðkvæm fyrir líkamlegri valdbeitingu sem þessari. Hins vegar sé ekki um einangrað tilvik að ræða og er hún ósátt við viðbrögð skólans og sveitarfélagsins Árborgar við ítrekuðum ofbeldisatvikum af þessu tagi.

Viðbrögð skólastjórnenda voru að setja kennarann í eins dags leyfi en hann kom síðan aftur til starfa eftir helgina. Dóttir Rakelar þorði hins vegar ekki í skólann af ótta við að hitta kennarann, alveg frá því atvikið átti sér stað, þann 20. október og  fram yfir mánaðamótin. Kennaranum var sagt upp fimmtudaginn 30. október og segir Rakel það hafa verið vegna þrýstings frá henni og öðrum foreldrum, meðal annars hótunum um fjölmiðlaumfjöllun.

„Þó það sé mikilvægt skref kom ákvörðunin of seint til að tryggja öryggi dóttur minnar þegar mest þurfti á því að halda,“ segir Rakel um brottrekstur kennarans.

Hún segir að þetta sé ekki fyrsta tilvikið þar sem dóttir hennar verði fyrir ofbeldi af hendi starfsfólks skólans en sambærileg tilvik hafa komið upp áður.

Þetta atvik er hluti af langvarandi og alvarlegu mynstri innan skólans, þar sem bæði hefur skort á viðeigandi þjónustu við börn með sérþarfir og brugðist hefur verið seint eða ófullnægjandi við tilkynningum um ofbeldi. Þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir foreldra hafa starfsmenn sem komið hafa við sögu haldið áfram störfum og ábyrgð sveitarfélagsins verið óljós,“ segir Rakel.

Röð atvika og vanræksla

„Dóttir mín varð fyrst fyrir alvarlegu ofbeldi í skólanum þegar hún var í 1. bekk og ítrekuð atvik áttu sér stað næstu árin. Þegar hún var í 5. bekk, árið 2022, varð hún fyrir líkamlegu inngripi og kærðum við málið til barnaverndar og lögreglu. Þrátt fyrir skýr gögn og alvarlegar lýsingar hélt starfsmaðurinn áfram í starfi á vegum Árborgar, án þess að gripið væri til raunverulegra aðgerða til að tryggja öryggi hennar eða annarra barna.

Þetta mál núna þann 20. október er síðan nýjasta atvikið.  Ég tilkynnti málið þegar í stað til stjórnenda, lögreglu og skólayfirvalda. Þrátt fyrir það var starfsmaðurinn mættur aftur til vinnu innan nokkurra daga – án þess að foreldrum væri tilkynnt. Dóttir mín mætti ekki í um tvær vikur eftir atvikið, þar sem hún óttaðist að mæta starfsmanninum aftur. Þann tíma hafði hún ekki aðgang að öruggu námsumhverfi né þeirri þjónustu sem hún á lögbundinn rétt á,“ segir Rakel en dóttir hennar treysti sér loks í skólann miðvikudaginn 5. nóvember (starfsdagar voru í skólanum á mánudegi og þriðjudegi), eftir að umræddur kennari var hættur störfum.

Skortur á þjónustu og stuðningi

„Allan sinn grunnskólatíma hefur dóttir mín fengið litla sem enga þjónustu, þrátt fyrir að hún hafi verið með greiningar sem krefjast sértæks stuðnings. Þjónustan sem hún átti rétt á hefur aðeins verið formlega skráð og virkjuð nú í byrjun þessa skólaárs – eftir margra ára bið og baráttu. Þetta endurspeglar kerfisbundinn skort innan Árborgar á eftirfylgni, úrræðum og stuðningi við börn með sérþarfir. Þegar foreldrar eða starfsmenn hafa reynt að knýja fram úrbætur eða tryggja að börn fái þann stuðning sem þeim ber hefur sveitarfélagið brugðist í að tryggja að viðeigandi úrræði séu til staðar og virki í raun,“ segir Rakel ennfremur.

Rakel segir að hér sé ábyrgð sveitarfélagsins Árborgar mikil: „Þetta eru ekki einangruð atvik heldur kerfisbundin mistök og vanræksla. Sveitarfélagið Árborg ber lögbundna ábyrgð á öryggi og velferð barna í sínum skólum en hefur hvorki tryggt öruggt umhverfi né þá þjónustu sem börn með fötlun og sérþarfir eiga rétt á samkvæmt lögum. Það er óásættanlegt að barni hafi verið neitað um grunnþjónustu árum saman, orðið fyrir ofbeldi oftar en einu sinni og þurft að hætta að mæta í skólann vegna þess að sveitarfélagið grípur ekki nægilega hratt inn í.“

Krefst úrbóta og að ábyrgð sé öxluð

Rakel segir ennfremur:

„Sem foreldri og fyrrverandi starfsmaður Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri krefst ég þess að Sveitarfélagið Árborg taki fulla ábyrgð og láti framkvæma óháða úttekt á meðferð ofbeldis- og þjónustumála innan sinna skóla.

Það verður að tryggja að börn – sérstaklega þau sem eru með fötlun eða viðkvæmni – fái þá þjónustu, vernd og virðingu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum. Það má ekki gerast aftur að barn þurfi að óttast að mæta í skólann sinn eða missa af menntun sinni vegna þess að sveitarfélagið bregst skyldum sínum.“

 

DV sendi fyrirspurn um málið til skólastjóra Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri og til framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs Árborgar. Þar sem viðbúið er að þessir aðilar geti ekki tjáð sig um einstök mál var beðið um almenn svör varðandi viðbrögð við ásökunum um ofbeldi á hendur starfsfólki skólans sem og meintum skorti á þjónustu í sveitarfélaginu við börn með sérþarfir. Svör höfðu ekki borist fyrir birtingu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Páll flutti til Noregs og ber saman lífsgæði þar og á Íslandi – „Við eigum pening um hver mánaðamót“

Páll flutti til Noregs og ber saman lífsgæði þar og á Íslandi – „Við eigum pening um hver mánaðamót“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum
Nova flytur á Broadway
Fréttir
Í gær

Krefst skilnaðar frá manni sem hún telur hafa gifst sér af hagkvæmnisástæðum

Krefst skilnaðar frá manni sem hún telur hafa gifst sér af hagkvæmnisástæðum
Fréttir
Í gær

Isavia dæmt til að greiða manni milljónir í skaðabætur fyrir að segja honum upp vegna aldurs

Isavia dæmt til að greiða manni milljónir í skaðabætur fyrir að segja honum upp vegna aldurs
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ofar efst í útboði fyrir hljóð- og myndlausnir

Ofar efst í útboði fyrir hljóð- og myndlausnir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gamlar syndir elta Gabríel Douane – Sauð upp úr þegar stúlkan vildi fá úlpuna sína

Gamlar syndir elta Gabríel Douane – Sauð upp úr þegar stúlkan vildi fá úlpuna sína