

Hafnarfjarðarkaupstað var heimilt að afturkalla úthlutun lóðar við Tjarnavelli því að lóðarhafi hafði ekki lokið við uppbyggingu innan tilskilinna tímamarka. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjaness sem féll þann 5. nóvember.
Tjarnarbúð ehf. stefndi kaupstaðnum og krafðist þess að ákvörðun um afturköllun úthlutunar lóðar við Tjarnavelli 2A yrði felld úr gildi, en til vara að viðurkennd yrði skaðabótaskylda félagsins vegna þess tjóns sem ákvörðunin hafi valdið.
Málið á sér langan aðdraganda en lóðinni var úthlutað árið 2009. Samkvæmt lóðarleigusamningi sem var undirritaður árið 2013 var lóðarhafa meðal annars skylt að leggja inn aðaluppdrátt um mitt ár 2014 og gera mannvirki fokheld fyrir lok árs 2015. Hafnarfjörður veitti félaginu frest árið 2017 en tók fram að mannvirki þyrftu að verða fokheld fyrir 4. júní árið 2020. Árið 2023 var svo skorað á félagið að skila inn gögnum en að öðrum kosti yrði litið svo á að félagið hefði fallið frá byggingaráformum og yrði lóðarveiting þá felld niður. Ítrekaðir frestir voru veittir í framhaldinu en loks var tilkynnt í ágúst 2023 að lóðarúthlutun hefði verið afturkölluð.
Félagið vildi ekki sætta sig við þessa niðurstöðu og höfðaði mál. Meðal annars hélt félagið því fram að forsendur tímafresta hefðu brostið út af ástandi á íslenskum byggingarmarkaði á eftirhrunsárunum. Úthlutaðar lóðir hefðu margar endað í eigu fjármálastofnana í stað þess að fara í uppbyggingarferli. Taldi félagið að Hafnarfirði hefði boðið að tilkynna um nýja fresti og leitast við að skýra stöðu mála gagnvart lóðarhöfum eftir að öldur á byggingarmarkarði hafi lægt.
Hafnarfjörður taldi sig hafa verið í fullum rétti til að afturkalla lóðarúthlutunina og í raun hefði mátt gera það mun fyrr. Engu að síður hafi félaginu verið veitt rúmt svigrúm til að bregðast við.
Dómari í málinu rakti að skilmálar í lóðarleigusamningi væru skýrir hvað fresti varðaði. Engu að síður hafi framkvæmdir ekki hafist. Sveitarfélagið hafi veitt félaginu, umfram skyldu, ríflegan viðbótarfrest en framkvæmdir hófust þó ekki. Þar með hafi félagið vanrækt skyldur sínar með aðgerðarleysi og því var heimilt að segja lóðarleigusamningnum upp án frekari fyrirvara af bæjarins hálfu. Sveitarfélögum sé heimilt að ráðstafa og hafa tekjur af landi sínu á grundvelli einkaréttarlegra samninga. Þetta heyri þó ekki til verkefna sem sveitarfélögum ber að sinna samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Sveitarfélög hafa augljósa hagsmuni af því að byggingarréttarhafi ljúki við uppbyggingu innan tilgreindra tímamarka.
Kröfu félagsins var því hafnað og Hafnarfjarðarbær sýknaður.