fbpx
Miðvikudagur 05.nóvember 2025
Fréttir

Yfirlýsing Jóhannesar um eineltis- og ofbeldismál hjá Ríkisendurskoðun – „Þögn Alþingis ærandi“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 5. nóvember 2025 14:59

Mynd: Vefur Ríkisendurskoðunar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhannes Jónsson fyrrverandi sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar frétta fjölmiðla um Facebook-færslu hans um ástandið hjá stofnuninni en þar hafa verið uppi mál sem varða  einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Hefur Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi verið sakaður um að vera gerandi í einhverjum þessara mála en hann neitar því. Jóhannes sem verið hefur í veikindaleyfi ætlar ekki að snúa aftur til starfa hjá Ríkisendurskoðun en tveir aðrir starfsmenn hafa farið í veikindaleyfi vegna ástandsins. Hann segist ekki ætla að tjá sig við fjölmiðla nema með yfirlýsingu sinni en í henni kallar hann meðal annars eftir því að Alþingi grípi til aðgerða og gagnrýnir ríkisendurskoðanda harðlega.

Yfirlýsing Jóhannesar fer hér á eftir í heild sinni:

Ég sjálfur er ekki þolandi í þeim EKKO (einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi, innsk. DV) málum sem upp hafa komið hjá Ríkisendurskoðun, en ég hef orðið vitni að slíkum málum oftar en ég kæri mig um. Mér hefur mislíkað verulega hvernig komið hefur verið fram við starfsfólk embættisins. Þetta ástand hefur viðgengist í allt of langan tíma. Ég fór í veikindaleyfi af því að ég gat ekki meir. Það er skelfilegt að mæta til vinnu með hnút í maganum um hvað muni gerast í dag eða þessa vikuna. Ótti og óöryggi eru vondir samferðamenn.

Sem sviðsstjóri hjá embættinu, og sem hluti af framkvæmdarstjórn þess, reyndi ég – ásamt öðrum sviðsstjórum – að hafa áhrif og stuðla að breytingum, en án árangurs. Þrír stjórnendur hafa farið í veikindaleyfi vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast. Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum ákvað ríkisendurskoðandi að leggja niður framkvæmdastjórn embættisins og færa mannauðsmálin beint undir sig sjálfan.

Einelti, kynferðisleg áreitni, kyndundið áreiti og ofbeldi má aldrei líðast. Aldrei. Þöggun um slík mál, komi þau upp, á heldur aldrei að líðast. Þöggun er alvarlegt mein. Hún viðheldur ótta, vantrausti og óheilbrigðu vinnuumhverfi þar sem fáir þora að stíga fram og segja frá. Þegar þeir sem benda á misferli eru þaggaðir niður eða látnir hverfa úr starfi, er kerfið ekki lengur að vernda starfsfólkið, heldur þá sem beita valdi af ábyrgðarleysi.

Í þessu samhengi tel ég þögn Alþingis ærandi – og jafnframt illskiljanlega. Fyrir liggja gögn úr starfsánægjukönnunum, áhættumati sérfræðinga og greiningum sem draga upp mjög dökka mynd af stöðu mála. Þessi gögn eru ótvíræð. Engin flokkur áhættumatsins telst með viðunandi áhættu. Tveir flokkar fá niðurstöðuna „óviðeigandi áhætta sem þarf að bregðast við án tafar“ – það eru flokkarnir stjórnun og EKKO.

Það hlýtur að teljast graf alvarlegt þegar 41% starfsmanna embættisins segjast hafa orðið vitni að EKKO-málum og 11% hafa sjálf orðið fyrir slíku. Engum ætti að dyljast að eitthvað verulega mikið er að í mannauðsmálum embættisins.

Allar þessar upplýsingar og gögn liggja fyrir hjá forseta Alþingis, sem hefur verið kunnugt um ástand mála hjá Ríkisendurskoðun í langan tíma. Þrátt fyrir það hefur forseti þingsins kosið að tjá sig ekki um þessi mál. Það má ekki gleymast í þessu samhengi að það er venjulegt fólk sem starfar hjá embætti ríkisendurskoðanda – fólk sem þarf áfram að búa við þetta ástand. Það er skelfileg tilhugsun.

Það er mér sárt að yfirgefa vinnufélaga sem mér þyki vænt um, en í veikindaleyfi mínu áttaði ég mig fljótlega á því hversu alvarlegt ástandið er í raun og veru. Ég hef, líkt og flestir, ákveðin gildi og siðferðisleg viðmið. Það er einfaldlega ekki hægt að láta bjóða sér hvað sem er. Það er ekki hægt að standa hjá og þegja.

Ríkisendurskoðun er eftirlitsstofnun Alþingis, og ríkisendurskoðandi er trúnaðarmaður þess. Ef embætti ríkisendurskoðanda býr ekki yfir faglegum og siðferðilegum innviðum til að standa vörð um starfsmenn sína, skerðir það trúverðugleika þess út á við. Opinber stofnun sem á að standa vörð um gagnsæi og ábyrgð má ekki sjálf verða táknmynd hins gagnstæða. Þegar traust til slíkrar stofnunar glatast er hún í reynd orðin óstarfhæf.

Í frétt RÚV, dags. 27. október sl., sagði Hafsteinn Dan Kristjánsson, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík:

„…ríkisendurskoðandi er trúnaðarmaður þingsins og ef hann glatar trúnaði þingsins, þá kemur tvennt til [greina]. Annars vegar getur Alþingi kosið nýjan ríkisendurskoðanda þegar kjörtímabilið rennur út, eða ef það á að víkja [honum] til hliðar meðan kjörtímabilið er enn í gangi þá geti tveir þriðju hlutar þingmanna gert það.“

Alþingi getur því vikið ríkisendurskoðanda úr embætti njóti hann ekki lengur trausts. Til þess þarf samþykki tveggja þriðju hluta þingmanna. Alþingi hefur aldrei gripið til slíkrar aðgerðar – enda hefur ríkisendurskoðandi hingað til ekki glatað trúnaði þingsins.

Ég velti því fyrir mér hvort ríkisendurskoðandi njóti enn trausts Alþingis – og hvað það segir um gildi og siðferðileg viðmið þingmanna.

Virðingarfyllst,
Jóhannes Jónsson
Fyrrverandi sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

20% kvenna og 10% karla á Íslandi hafa orðið fyrir heimilisofbeldi

20% kvenna og 10% karla á Íslandi hafa orðið fyrir heimilisofbeldi
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Borðvél sem þýðir bók á örfáum sekúndum

Borðvél sem þýðir bók á örfáum sekúndum
Fréttir
Í gær

„Kirkjuáhugamaður“ rekinn úr landi – Þögull sem gröfin

„Kirkjuáhugamaður“ rekinn úr landi – Þögull sem gröfin
Fréttir
Í gær

Sérfræðingar greina faðmlag ekkjunnar og varaforsetans sem setti allt á hliðina

Sérfræðingar greina faðmlag ekkjunnar og varaforsetans sem setti allt á hliðina
Fréttir
Í gær

Hneyksli hjá BBC: Stofnunin sögð hafa afbakað orð úr ræðu Trumps – Sjáðu myndbandið

Hneyksli hjá BBC: Stofnunin sögð hafa afbakað orð úr ræðu Trumps – Sjáðu myndbandið
Fréttir
Í gær

Guðni ómyrkur í máli – Þetta sér hann hvergi annars staðar en á Íslandi

Guðni ómyrkur í máli – Þetta sér hann hvergi annars staðar en á Íslandi
Fréttir
Í gær

Framsóknarmenn vilja að veitt verði leyfi til að skjóta álftir – Hafa verið friðaðar í 112 ár

Framsóknarmenn vilja að veitt verði leyfi til að skjóta álftir – Hafa verið friðaðar í 112 ár
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fimm handteknir eftir að hundruð milljóna voru sviknar úr Landsbankanum

Fimm handteknir eftir að hundruð milljóna voru sviknar úr Landsbankanum