

Þar skrifar hann um stöðu íslenskunnar og rifjar upp eftirminnilegan pistil sem tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens skrifaði á sama vettvangi fyrir skemmstu. Þar talaði Bubbi um að „tungumálið okkar væri fast í kviksyndi aðgerðaleysis“.
„Þetta fer hinum ástsæla söngvara og ljóðasmið vel og eru orð í tíma töluð,“ segir Guðni og bætir við að við séum stödd þar að gagnvart tungumálinu okkar sé ríkjandi skeytingarleysi.
„Hér hafa stjórnmálamenn opnað landið svo skarpt að við ekkert virðist ráðið, erlent fólk kemur hingað til vinnu og í gjörgæslu ríkisins með kostnaði sem fer með himinskautum, svo íslenskan víkur og verður hornkerling í eigin landi.“
Sjá einnig: Bubbi harðorður í garð ráðamanna:„Kannski er ég dramatískur en guð minn góður, þetta er satt“
Guðni segir að atvinnulífið gangi fremst í að slátra tungumálinu og nefnir nokkur dæmi máli sínu til stuðnings.
„Það skírir fyrirtækin upp á ensku og svo rammt kveður að þessari spillingu að í Reykjavík, höfuðborginni sjálfri, fær maður á tilfinninguna að maður sé staddur í erlendri borg. Enn fremur eru hótel og ferðamannastaðir nefnd upp á ensku á landsbyggðinni. Fyrir stuttu sögðu bandarískir ferðamenn frá því að í hringferð um Ísland hefðu þeir bara á einum stað hitt íslenskumælandi leiðsögumann. Í verslunum og þjónustu er vaxandi að starfsmenn séu án kunnáttu í íslensku.“
Guðni veltir fyrir sér hvað sé til ráða og beinir hann þeirri spurningu til ráðamanna og atvinnulífsins.
„Erum við komin á þann stað að verða að setja í lög að öll fyrirtæki starfandi á Íslandi beri íslenskt heiti sem aðalnafn? Ég sé það hvergi á mínum ferðum um önnur lönd að heimalandið skipti sínu tungumáli út vegna ferðamanna. Ferðamenn eru engir asnar, þeir kunna að meta hin rismiklu nöfn íslenskunnar eins og frægt varð með Eyjafjallajökul. Enn fá nöfnin Skálholt, Þingvellir og Haukadalur að standa.“
Guðni segir að hamast sé á skólakerfinu og látið eins og börn, kennarar og foreldrar beri alla ábyrgð á stöðu tungumálsins.
„Fyrir undanhaldinu fer atvinnulífið á Íslandi og ber langstærsta ábyrgð á þróuninni og afleggur íslenskuna bæði með heitum fyrirtækjanna og virðist leggja lítið af mörkum til að kenna sínu erlenda starfsfólki tungumálið,“ segir Guðni sem endar grein sína á þessum orðum:
„Upp er runnin ögurstund, verjum við íslenskuna, ef ekki þá deyjum við drottni okkar og vöknum upp innan fárra ára við vondan draum.“