fbpx
Miðvikudagur 26.nóvember 2025
Fréttir

Allt fór í háa loft milli leigjanda og leigusala – Ásakanir um hótanir, reykingar og rauða málningu

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 26. nóvember 2025 08:00

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að leigusala beri að endurgreiða fyrrum leigjanda sínum tryggingarfé. Hafði leigjandinn leigt íbúð á neðri hæð húss leigusalans, sem bjó ásamt fjölskyldu sinni á efri hæðinni, en flutt út vegna samskiptaörðugleika þeirra á milli. Sakaði leigusalinn leigjandann um ýmislegt meðal annars slæma umgengni, skemmdir á íbúðinni, óheimilar reykingar og að hafa notað rauða málningu við málun á baðherbergi íbúðarinnar, í leyfisleysi. Sagðist leigusalinn einnig hafa orðið fyrir hótunum af hálfu kærasta leigjandans.

Leigjandinn, sem er kona, krafðist þess að fá trygginguna, 550.000 krónur, endurgreidda auk vaxta.

Í september 2024 gerðu hún og leigusalinn ótímabundinn leigusamning en komust að samkomulagi um að fella samninginn niður 31. desember sama ár vegna samskiptaerfiðleika þeirra á milli en leigjandinn flutti úti 15. desember.

Leigusalinn gerði kröfu að fjárhæð 292.200 krónur í tryggingarfé leigjandans vegna ástands íbúðarinnar við lok leigutíma, en hann hafði endurgreitt það sem eftir stóð af tryggingarfénu, eða 258.000 krónur án vaxta. Krafan var að sögn leigusalans tilkomin vegna skemmda á ísskáp, viðgerðar vegna ummerkja um reykingar, málun á baðherbergisvegg og glugga, kostnaðar við rafvirkja vegna ofhleðslu leigjandans, kostnaðar við að fjarlægja myglu úr glugga, nýs „cilander“ og lykla að aðalinngangi hússins og íbúðinni, flutningsþrifa og muna sem horfið hefðu úr sameign.

Hótanir og rauð málning

Í skýringum leigusalans kom fram að leigjandinn hafi skemmt ísskápinn með því að taka hann úr sambandi og leggja á hliðina. Hún hafi reykt fyrir framan útidyrahurð íbúðarinnar og reykur stundum borist upp í gegnum opinn glugga á svefnherbergi barna hans sem hann hafi þurft að hreinsa, þvo og mála. Hann og leigjandinn hafi í sameiningu málað baðherbergi íbúðarinnar en leigjandinn notað rauðan lit í kringum glugga sem hann hafi ekki veitt heimild fyrir. Leigjandinn hafi notað fjöltengi í eldhúsi og það valdið ofhleðslu, hún hafi ekki loftað nógu vel um eignina sem valdið hafi myglumyndun í glugga. Leigjandinn hafi látið gera aukalykil og afhent kærasta sínum og sagði leigusalinn kærastann hafa í kjölfarið hótað sér og hann því talið nauðsynlegt að skipta um sýlindera í húsinu. Íbúðin hafi heldur ekki verið rétt þrifin og leigjandinn hafi notað verkfæri hans og ekki skilað þeim fyrr en hann hafi óskað eftir því. Leigjandinn hafi þar að auki notað kúst hans utandyra og skúringafötur fyrir rusl sem henni beri að bæta.

Leigjandinn hafnaði öllum ásökunum leigusalans. Þau hafi bæði reykt, þar með talið fyrir utan íbúð hennar, en hún hafi ekki reykt þar nema gluggar á svefnherbergi hafi verið lokaðir. Þau hafi staðið saman að því að mála baðherbergið og með vitund og vilja leigusalans hafi rauð málning verið notuð að hluta, auk þess sem í leigusamningi hafi komið fram að íbúðin væri ómáluð við upphaf leigutíma og henni mætti skila í sama ástandi.

Leigjandinn sagðist enn fremur hafa aðeins notað hefðbundin heimilistæki í eldhúsi en þar sem aðeins hafi verið ein innstunga í eldhúsi hafi hún þurft að nota fjöltengi, sem sé enda almennt viðurkennt. Hún hafi ekki skemmt ísskáp en hafi affryst hann og þrifið. Við upphaf leigutíma hafi ísskápurinn verið óþrifinn og glerbrot inni í honum. Íbúðin hafi verið óhrein við upphaf leigutíma og innstungur bilaðar. Leigjandinn sagðist einnig hafa loftað um eignina en ítrekað hafi komið upp vandamál vegna rafmagns og hita. Hún hafi sent ítrekaðar kvartanir vegna þessa, sem leigusalinn hafi ekki brugðist við með fullnægjandi hætti. Leigjandinn neitaði því að hafa afhent kærasta sínum lykil að íbúðinni og sagði að ef leigusalinn teldi tilefni til að skipta um skrár ætti hann að gera það á eigin ábyrgð og kostnað. Hún hafi þrifið íbúðina vel við lok leigutíma og þrifið ruslatunnur í eigu leigusalans, sem hafi verið óhreinar við upphaf leigutíma.

Engar sannanir

Í niðurstöðu kærunefndar húsamála segir að ljóst sé að aðilar málsins hafi ekki gert úttekt á íbúðinni í samræmi við fyrirmæli húsaleigulaga, hvorki við upphaf leigutíma né lok hans. Leigusalinn hafi ekki stutt kröfur sínar gögnum, öðrum en stöku myndum, hluti krafna tengist ekki ástandi íbúðarinnar og upphæð kröfufjárhæðarinnar sé byggð á hans eigin mati án nokkurs rökstuðnings. Gegn mótmælum og skýringum leigjandans sé með öllu ósannað að hún hafi skilað af sér eigninni í óviðunandi ástandi og því sé kröfu leigusalans um að honum væri heimilt að ganga að tryggingarfé leigjandans hafnað.

Leigusalanum ber því að endurgreiða leigjandanum trygginguna að fullu, auk vaxta og dráttarvaxta, en eins og áður segir var hann þegar búinn að endurgreiða hluta af henni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gabríel Douane ákærður ásamt hópi manna – Ruddust inn á heimili vopnaðir hnífum og hömrum

Gabríel Douane ákærður ásamt hópi manna – Ruddust inn á heimili vopnaðir hnífum og hömrum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sonur Hildar verður fyrir einelti og útskúfun – „Að finna neistann slokkna í barninu mínu er það hræðilegasta sem ég hef upplifað“

Sonur Hildar verður fyrir einelti og útskúfun – „Að finna neistann slokkna í barninu mínu er það hræðilegasta sem ég hef upplifað“
Fréttir
Í gær

Bóndi fékk háa sekt – Vildi ekki segja hvenær hann aflífaði kind sem enn er skráð lifandi

Bóndi fékk háa sekt – Vildi ekki segja hvenær hann aflífaði kind sem enn er skráð lifandi
Fréttir
Í gær

Ekki gerð refsing fyrir að klæmast við unga stúlku í Strætó

Ekki gerð refsing fyrir að klæmast við unga stúlku í Strætó
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þrettán ára stúlka grunuð um morð í Bretlandi

Þrettán ára stúlka grunuð um morð í Bretlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta eru stórmyndirnar sem Eddie Murphy syrgir að hafa hafnað

Þetta eru stórmyndirnar sem Eddie Murphy syrgir að hafa hafnað