fbpx
Þriðjudagur 18.nóvember 2025
Fréttir

Börn sem yfirgáfu Grindavík vegna hamfara meta líðan sína síðri en jafnaldrar

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 18. nóvember 2025 09:03

Grindavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Glænýjar niðurstöður fræðafólks við Háskóla Íslands sýna að börn sem neyddust til að yfirgefa heimili sitt í Grindavík í nóvember 2023 vegna jarðhræringanna á Reykjanesi og setjast að annars staðar meta lífsánægju sína verri en jafnaldrar annars staðar á landinu. Þau upplifa enn fremur veikari skólatengsl og meiri skólasóknarvanda en jafnaldrar. Niðurstöðurnar eru hluti af Íslensku æskulýðsrannsókninni sem gerð var fyrr á þessu ári en þær verða kynntar á málþingi í Háskóla Íslands í dag, þriðjudaginn 18. nóvember.

Eins og flestum er kunnugt var bærinn Grindavík rýmdur vegna jarðhræringa 10. nóvember 2023. Á einu augabragði þurftu hátt í 4.000 íbúar bæjarins, þar á meðal fjöldi barna, að flytja búferlum. Fæst hafa snúið aftur og ljóst að óvissa hefur einkennt líf margra fjölskyldna frá Grindavík.

Sem viðbragð við þessum hamförum settu stjórnvöld á fót safnskóla á höfuðborgarsvæðinu til að tryggja áframhaldandi nám grunnskólabarna úr Grindavík en börn frá Grindavík voru í vorið 2025 skráð í að minnsta kosti 68 grunnskóla víðs vegar um landið.

Í tilkynningu um rannsóknina kemur fram að nefnd á vegum stjórnvalda, Grindavíkurnefndin, hefur samhæft stuðning við Grindvíkinga og veitt sálfélagsleg úrræði og hafa kannanir meðal fullorðinna Grindvíkinga sýnt að þeir meta andlega heilsu sína verri nú en fyrir brottflutning. „Okkur fannst brýnt að skoða með vísindalegum hætti áhrif hamfaranna á börn. Það gátum við gert með því að nýta gögn úr Íslensku æskulýðsrannsókninni en í ár var bætt við spurningum sérstaklega til að kanna viðhorf og líðan barna úr Grindavík,“ segir David Reimer, prófessor við Menntavísindasvið og við Félagsvísindasvið, sem leiddi rannsóknina sem beindist að börnum í Grindavík.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands annast Íslensku æskulýðsrannsóknina (https://iae.is/) sem lögð er árlega fyrir nemendur í 6.-10. bekk grunnskóla en markmið hennar er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna og ungs fólks og styðja þannig við stefnumótun stjórnvalda í málefnum þeirra. David bendir á að þetta sé fyrsta vísindarannsóknin sem beinist að líðan barna frá Grindavík. „Alþjóðlegar rannsóknir sýna að náttúruhamfarir geta haft mótandi áhrif á líðan og lífsferil barna og þess vegna skipta viðbrögð samfélags og nærumhverfis verulegu máli.“

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna meðal annars að

  • Börn sem neyddust til að flytja frá Grindavík mátu lífsánægju sína verri en jafnaldrar á landsvísu. Þau eru enn fremur líklegri til að upplifa veikari skólatengsl og skólasóknarvanda en jafnaldrar. Þessi einkenni var hægt að rekja til þess að hafa flutt nauðflutningum.
  • Þessi hópur barna fann einnig meira fyrir sállíkamlegum einkennum, svo sem depurð, kvíða og höfuð- og magaverkjum. Þau voru  einnig eilítið líklegri til að hafa neytt áfengis eða vímuefna en jafnaldrar á landsvísu. Ekki er þó hægt að segja til með vissu hvort þessi áhrif stafi af flutningi í nýtt umhverfi eða því að hafa þurft að flýja heimili sín vegna hamfara.
  • Áhrifin af neyðarflutningunum birtust óháð sjálfsmati barnanna á félagslegri stöðu fjölskyldna þeirra sem bendir til þess að góð félags- og efnahagstaða fjölskyldu hafi ekki sterk verndandi áhrif komi til neyðarbúferlaflutninga.
  • Stúlkur mátu lífsánægju sína og félagsleg tengsl síðri en drengir.

Höfundar rannsóknarinnar komast að þeirri niðurstöðu að rýming Grindavíkur hafi haft djúpstæð og víðtæk áhrif á börn í bænum. Rannsóknin undirstriki mikilvægi þess að velferð barna sé í forgrunni í viðbrögðum við náttúruhamförum og að fylgst sé með líðan þeirra til lengri tíma. Niðurstöður styðji jafnframt við mikilvægi þess að tryggja samþætta þjónustu við börn innan sveitarfélaga og að foreldrar, börn og starfsfólk geti áfram leitað ráðgjafar og stuðnings.

Unnið er að fræðigrein um niðurstöðurnar sem mun birtast á næstu vikum.

„Rannsóknin sýnir hve áhrifamikil reynsla þetta var fyrir börn og ungmenni og hvetur fullorðna í nærumhverfi þeirra til að vera vakandi og huga að félagslegri og andlegri líðan þeirra,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, prófessor og forseti Menntavísindasviðs, sem er í teyminu sem stóð að rannsókninni.

Kolbrún bendir einnig á að þó að rannsóknin sýni fram á að áhrifa hamfaranna gæti enn megi ekki gleyma því að börn og ungmenni sem upplifa mótlæti geti líka þroskast hratt á skömmum tíma og læri að takast á við áskoranir sem getur búið þau betur undir að takast á við lífið.

„Það er margt sem við vitum ekki og þarf að rannsaka mun betur, til dæmis hvað börnin frá Grindavík telja sjálf að hafi skipt mestu máli í stuðningi við þau og fjölskyldur þeirra, hvaða nýju tækifæri þau hafa fengið og hvaða væntingar þau hafa til framtíðarinnar.“

Rannsóknin verður kynnt á málþingi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar í Veröld – húsi Vigdísar þriðjudaginn 18., nóvember kl. 14-16. Málþingið er öllum opið og verður einnig í streymi.

Frekari upplýsingar um stuðning við börn úr Grindavík: Jóhanna Lilja Birgisdóttir, johanna.l.birgisdottir@grn.is, hjá Framkvæmdanefnd Grindavíkur. Nefndin vill koma eftirfarandi á framfæri:

Þjónustuteymi Grindvíkinga veitir börnum og foreldrum frá Grindavík ráðgjöf og sálfélagslegan stuðning og sér um tengingu við viðeigandi gjaldfrjálsa þjónustu, svo sem sálfræðiviðtöl, áfallameðferð og fjölskylduráðgjöf. Þjónustuna má sækja rafrænt í gegnum island.is/v/fyrir-grindavik , með því að senda tölvupóst á radgjof@grn.is eða hringja í síma 545 0200.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Segir flugöryggi ógnað

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gagnrýna orðræðu Miðflokksins og benda á hvaðan innflytjendur á Íslandi koma – „Hef enga trú á að Íslendingar láti blekkja sig“

Gagnrýna orðræðu Miðflokksins og benda á hvaðan innflytjendur á Íslandi koma – „Hef enga trú á að Íslendingar láti blekkja sig“
Fréttir
Í gær

Deilir bréfi sem hún skrifaði Guðna ári eftir að þau hittust fyrst

Deilir bréfi sem hún skrifaði Guðna ári eftir að þau hittust fyrst
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úttekt verður gerð á leikskólamálum í Reykjanesbæ – Segja líklegt að staðan sé enn verri en í Reykjavík

Úttekt verður gerð á leikskólamálum í Reykjanesbæ – Segja líklegt að staðan sé enn verri en í Reykjavík
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segjast ekki enn hafa fengið greitt fyrir söluna á Cafe Adesso og Sport & Grill

Segjast ekki enn hafa fengið greitt fyrir söluna á Cafe Adesso og Sport & Grill
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Morgunblaðið talið hafa birt duldar auglýsingar þrátt fyrir að hafa ekki fengið greitt fyrir efnið

Morgunblaðið talið hafa birt duldar auglýsingar þrátt fyrir að hafa ekki fengið greitt fyrir efnið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vísir bregst við athugasemdum – Skiptir mynd af Snorra og syni hans út

Vísir bregst við athugasemdum – Skiptir mynd af Snorra og syni hans út
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Miðflokksins segir Vísi hafa birt stríðsyfirlýsingu – „Ekki láta ykkur bregða ef henni verður svarað“

Varaþingmaður Miðflokksins segir Vísi hafa birt stríðsyfirlýsingu – „Ekki láta ykkur bregða ef henni verður svarað“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Snorri allt annað en sáttur við Vísi – „Hvað ætli lesendum finnist um þessa mögnuðu nýju lægð“

Snorri allt annað en sáttur við Vísi – „Hvað ætli lesendum finnist um þessa mögnuðu nýju lægð“