
Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis hefur óskað eftir því við fjárlaganefnd þingsins að bætt verði við fjárlög næsta árs og komandi ára fjárframlagi til að lögregla geti verið með öryggisgæslu í þinghúsinu. Hingað til hefur öryggisfyrirtæki vaktað húsið á nóttunni en lögreglan sinnt gæslu þegar tiltekin starfsemi er í gangi í þinghúsinu.
Í síðasta mánuði eyddi maður heilli nótt í þinghúsinu en hann fór inn um ólæstar dyr og sannfærði öryggisvörð á vegum fyrirtækisins um að hann ætti erindi í húsið. Öryggisverðinum var sagt upp störfum.
Ekki er minnst á þetta atvik í bréfi Þórunnar, til fjárlaganefndar, eða minnisblaði embættis ríkislögreglustjóra sem fylgir með en í því eru færð rök fyrir því mati embættisins að nauðsynlegt sé að lögreglan vakti þinghúsið allan sólarhringinn.
Í bréfinu segir að frá 1. apríl 2023 hafi embætti ríkislögreglustjóra annast öryggisgæslu á Alþingi. Gæslan sé í tengslum við þingfundi, nefndafundi og önnur tilefni þegar þannig standi á. Embættið hafi nú lagt til í ljósi aukinna ógna og áskorana, að á Alþingi verði öryggisgæsla allan sólarhringinn sem sinnt sé af lögreglu. Þannig verði viðbragðstími styttri og betur hægt að takast á við aðsteðjandi ógnir hvenær
sem er sólarhringsins. Fyrir utan mikilvægi þess að tryggja öryggi þingmanna og starfsfólks þá sé ekki síður mikilvægt að tryggja öryggi húsnæðis, menningarverðmæta, gagna, tækja og búnaðar.
Segir í bréfi Þórunnar að það sé mat skrifstofu Alþingis að rétt sé að fylgja ábendingum ríkislögreglustjóra, sem fari með öryggi æðstu stjórnar ríkisins. Kostnaðarmat embættisins á sólarhringsviðveru sé 154 milljónir króna á ári til að fjármagna sex stöður varðstjóra en núverandi og tímabundin fjárveiting til embættisins sé tæpar 40 milljónir króna. Tryggja þurfi varanlega fjárveitingu vegna kostnaðar sem hljótist af gæslunni og þess vegna sé óskað eftir því að fjárlaganefnd veiti embætti ríkislögreglustjóra þessa fjárveitingu, 154 milljónir króna á ári, til að annast gæslu á Alþingi allan sólarhringinn. Gert sé ráð fyrir að nýtt fyrirkomulag verði innleitt frá og með 1. mars 2026 og sé því óskað eftir 136,3 milljónum króna á því ári.
Í minnisblaði embættis ríkislögreglustjóra eru færð fyrir rök fyrir nauðsyn þess að lögreglan sé með gæslu í þinghúsinu allan sólarhringinn. Þar er vísað meðal annars til vaxandi áherslu á öryggi opinberra stofnana vegna aukinna ógna og áskorana þegar kemur að öryggi. Markmiðið sé að tryggja að starfsemi Alþingis, sem sé ein af mikilvægustu grunnstoðum lýðræðisins, sé ávallt varin gegn mögulegum öryggisógnunum, tjóni eða ólögmætum aðgerðum sem gætu haft áhrif á starfsemi, trúverðugleika eða sjálft húsnæði stofnunarinnar.
Segir einnig í minnisblaðinu að Alþingi sé tákn fullveldis Íslands og fari með löggjafarvaldið, fjárstjórnarvald, ráði skipun ríkistjórnar og veiti framkvæmdarvaldinu aðhald. Aðgangur, umhverfi og vernd þess endurspegli virðingu samfélagsins fyrir lýðræðinu. Öryggi Alþingis þurfi því að vera í hæsta forgangi.
Starfsfólk, þingmenn og viðhaldsaðilar geti þurft að koma í þinghúsið utan hefðbundins vinnutíma og mikilvægt sé að þessir aðilar geti starfað í öruggu umhverfi. Einnig er minnt á að í húsnæði Alþingis séu varðveitt viðkvæm gögn, skjöl, tæki og búnaður sem tengist þjóðaröryggi, stjórnsýslu og löggjafarferli. Þjófnaður, skemmdir eða tölvuinnbrot geti haft alvarleg áhrif á starfsemi og trúverðugleika stofnunarinnar. Sömuleiðis sé með sólarhringsgæslu lögreglu hægt að bregðast tafarlaust við atvikum sem kunni að koma upp án fyrirvara t.d. eldsvoða, innbrotum, sprengjuhótunum eða mótmælum.
Loks er vísað til þess að á Norðurlöndum sé rík áhersla lögð á að þinghús séu undir stöðugri og vandaðri öryggisgæslu. Með stöðugri viðveru lögreglunnar í Alþingishúsinu aukist traust og öryggistilfinning hjá starfsfólki og þingmönnum og húsið verði verndað.