

Andrúmsloftið á barnaspítala Akademiska háskólasjúkrahússins í Uppsala í Svíþjóð er spennuþrungið þessa dagana en undanfarið hafa komið upp dularfull veikindi meðal starfsfólks spítalans. Orsakirnar eru ókunnar en óttast er að um að eitranir sé að ræða og að minnsta kosti fjögur mál eru til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um morðtilraunir. Veit starfsfókið vart í hvorn fótinn það á að stíga og óttast að meðal þeirra leynist stórhættulegur einstaklingur með áform um að verða að fjöldamorðingja.
Fjallað hefur verið um málið síðustu daga í sænskum fjölmiðlum nú síðast hjá ríkissjónvarpinu SVT.
Þar er rætt við konu sem starfar á spítalanum en hún segist vera farin að koma með vatn og kaffi heiman frá sér til að drekka í vinnunni.
Það var 25. október síðastliðinn sem fyrst varð vart við að eitthvað væri á seyði á spítalanum. Hjúkrunarfræðingur á vakt veiktist en einkennin lýstu sér í hitaköstum, skjálfta, háum blóðþrýstingi og óvenjulega háum hjartslætti.
Á næstu níu dögum urðu þrír starfsmenn á sömu deild veikir og voru með sams konar einkenni. Þurftu þeir allir að fá meðhöndlun kollega sinna og að minnsta kosti í einu tilfelli þurfti viðkomandi að leggjast inn á gjörgæsludeild.
Annar starfsmaður spítalans segist þekkja einn af þessum þremur og viðkomandi hafi um tíma verið í lífshættu en sé nú á batavegi.
Fullyrt hefur reyndar verið að tilfellin séu fimm en spítalinn og löggæsluyfirvöld hafa ekki staðfest það.
Þegar veikindin voru tilkynnt til sænska vinnueftirlitsins var sérstaklega tekið fram í skýrslum að óvenju lítið af kalíum hafi mælst í blóðsýnum sem tekin voru úr starfsmönnunum sem veiktust.
Enn leikur á huldu hver orsökin er og starfsmenn segja sögusagnir grassera innan veggja spítalans og að stjórnendur hans segi ekki mikið um ástandið.
Tilfellin eru til rannsóknar hjá lögreglu og grunur leikur á að um eitranir sé að ræða en beðið er niðurstaðna úr sýnum og enginn hefur verið handtekinn eða er grunaður vegna málsins.
Læknanemi á spítalanum segir að mikið af getgátum séu uppi meðal starfsmanna.
Ein kenning er sú að miklu magni af koffíni í duftformi hafi verið blandað í vatnsflöskur starfsmannanna.
Einn starfsmaður segir að rætt hafi verið um þá kenningu og hún veki áhyggjur en enginn skilji hvernig það geti hafa gerst. Koffín í duftformi er sagt ekki vera til staðar dags daglega á neinni deild spítalans.
Starfsmaður spítalans segir erfitt að sjá einhverjar náttúrulegar orsakir fyrir skorti á kalíum og minnir á að þetta efni stýri hjartslætti fólks svo að skortur á því sé afar alvarlegt mál.
Deildin þar sem starfsmennirnir veiktust hefur verið lokuð af og gæsla á spítalanum verið hert.
„Þetta er virkilega óþægilegt og uggvekjandi. Maður veltir fyrir sér hvort þetta er kollegi eða ættingi,“ segir einn starfsmaður á spítalanum við SVT.
Yfirmaður öryggismála á spítalanum segist skilja vel áhyggjur starfsfólks en rannsókn sé yfirstandandi og á meðan sé ekki hægt að gefa allar upplýsingar upp en það sem hægt sé að opinbera verði opinberað. Hann segir um einangruð atvik að ræða og að starfsfólk þurfi ekki að óttast að mæta í vinnuna og að almenningur geti óhræddur leitað eftir þjónustu á spítalanum.