

Ný rannsókn bendir til þess að þýski einræðisherrann Adolf Hitler hafi þjáðst af svokölluðu Kallmann-heilkenni. Það getur gert það að verkum að eistu karlmanna gangi ekki niður og getnaðarlimur þeirra verði óvenjulega lítill, svokallaður örlimur (e. micropenis).
Rannsóknin byggir á DNA-rannsókn á blóði nasistaforingjans en greint er frá fjölbreyttum niðurstöðum hennar í nýrri breskri heimildarmynd sem ber heitið Hitler’s DNA: Blueprint Of A Dictator. Daily Mail fjallar ítarlega um niðurstöðurnar.
Blóðsýni úr Hitler fékkst úr einskonar minjagrip sem bandarískur hermaður tók sér en sá skar blóðugan efnisbút úr sófa í neðjanjarðarbyrgingu þar sem Hitler skaut sig undir lok heimstyrjaldarinnar síðari. Nasistaforinginn hafði gefið út þær skipanir að líkami hans yrði brenndur eftir dauða hans sem og öll hans persónulegu gögn, til að mynda læknaskýrslur.
Í heimildirmyndinni er ýjað að því að afleiðingar heilkennisins hafi gert það verkum að Hitler var afar vandræðalegur í kringum konur, forðaðast sambönd við þær og aldrei gifst. Undantekning á því var 14 ára samband hans við Evu Braun en afleiðingar heilkennisins gætu skýrt af hverju þau eignuðust ekki börn sem alltaf hefur þótt einkennilegt enda lögðu nasistar mikla áherslu á að þegnar þeirra myndu fjölga sér til þess að styrkja hinn aríska kynþátt í sessi.
Þá gátu rannsakendur einnig slegið það útaf borðinu að Hitler hefði verið af gyðingaættum eins og kenningar hafa lengi verið um.
Að auki var blóð Hitlers greint til að kanna líkurnar á því að hann hefði þjáðst af einhverjum geðsjúkdómum eða röskunum. Niðurstöðurnar voru þær að Hitler á að hafa verið yfir meðallagi líklegur til að vera með ADHD og þá hafi hann verið afar líklegur til að þjást af geðhvörfum eða geðklofa.